Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 18. maí 2010
Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Gissur Pétursson, án tilnefningar, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Stefán Stefánssonar, tiln af menntamálaráðuneyti, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, og Ingibjörg Broddadóttir .
1. Fundargerðir
Fundargerðir 27. og 28. fundar samþykktar.
2. Kynning starfi Evrópuárs gegn fátækt á Íslandi
Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneyti, greindi frá starfinu, en vinnuhópur velferðarvaktarinnar um þá sem standa höllum fæti er samhliða stýrihópur Evrópuárs gegn fátækt. Gerð var óformleg könnun meðal tiltekinna hópa um það hvað fólk vildi leggja áherslu á í tilefni af árinu og kom í ljós að bein úrræði gegn fátækt eru talin mikilvægust ásamt því að berjast gegn fordómum í garð þeirra sem standa höllum fæti. Rætt var um úthlutun styrkja í tilefni af Evrópuári gegn fátækt en alls var úthlutað rúmum 30 m.kr. til 21 verkefnis. Evrópuár gegn fátækt boðaði til þjóðfundar í apríl síðastliðnum og verða niðurstöður fundarins kynntar innan skamms.
3. Þemaumræða um atvinnumál ungs fólks sumarið 2010
Umræðan hófst með stuttum innleggjum frá:
- Gerði Dýrfjörð, deildarstjóra upplýsinga- og atvinnumála hjá Hinu húsinu,
- Ellert Magnússyni, deildarstjóra æskulýðsmála og forstöðumanns Vinnuskólans í Hafnarfirði,
- Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, og
- Stellu Kristínu Víðisdóttur, sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkur.
Í máli Ellerts kom fram að í Hafnarfirði er stefnt að því að öll ungmenni 17 ára og eldri fái vinnu, en þó hefur ekki verið gefin út formleg yfirlýsing um slíkt. Opið er fyrir umsóknir út maí en fram til þessa hafi borist 850 umsóknir. Ellert hefur fylgst með þessum málum í tíu ár og segir að ástandið hafi aldrei verið eins alvarlegt og nú. Í Hafnarfirði hafi verið hringt til allra 17 og 18 ára til að kanna stöðuna hjá þeim varðandi sumarstörf og sagði hann það hafa reynst afar vel að hafa beint samband við hvern og einn. Í ljós hafi komið að níu 17 ára og tíu 18 ára ungmenni hafi hvorki verið í skóla né vinnu.
Gerður upplýsti að hægt hafi verið að sækja um sumarstörf hjá borginni frá 1. apríl sl. Alls hafi 3.333 umsækjendur sótt um sumarstörf, en áætlað er að ráða í 1.518 störf hjá öllum sviðum borgarinnar, þar af eru 387 störf sem verða til vegna sérstaks fjármagns til starfa fyrir ungt fólk, 17–18 eru fjölmennasti hópurinn. Gerður býst við að um 1.000 manns verði eftir á listanum þegar búið er að ráða í öll laus störf.
Gissur greindi frá átakinu Ungt fólk til athafna sem gengur mjög vel og heldur fólki í virkni meðan annað býðst ekki. Vinnumálastofnun hefur auglýst fjölda starfa sem ætluð eru námsmönnum í sumar, alls eru 850 störf í boði fyrir þá sem eru skráðir í skóla í haust. Fjármunirnir, 250 m.kr., munu þó ekki duga til að ráða alla sem sækja um. Gæta verður þess að atvinnuátakið fari ekki í samkeppni við almenna vinnumarkaðinn.
Mikil fjölgun hefur verið meðal notenda fjárhagsaðstoðar hjá Velferðarsviði borgarinnar. Stella fjallaði um átakið Virkni til velferðar sem er í boði fyrir fólk sem fær fjárhagsaðstoð og var sérstök fjárveiting veitt til verkefnisins og ráðnir virkniráðgjafar. Þrjú námskeið hafa verið haldin og næsta verður í byrjun júní. Meðal annars er sérstakt námskeið fyrir ungt fólk þar sem áhersla er lögð á að rjúfa einangrun, einstaklingsmat er framkvæmt og unnið með kvíða við að takast á við daglegt líf. Glærur Stellu eru á vefslóð velferðarvaktarinnar.
Í framhaldi af inngangserindum var rætt um langtímaatvinnuleysi og hvað tæki við hjá hverjum og einum þegar framangreindum átaksverkefnum lyki. Það eru runnir upp nýir tímar og ekki lengur sjálfgefið að allir fái sumarstörf. Einkum er ástæða til að hafa áhyggjur af 17 ára ungmennum sem eru að stíga sín allra fyrstu skref á vinnumarkaði. Ungt fólk sem ekki fékk vinnu í fyrrasumar er í sérstakri áhættu gagnvart því að fá ekki heldur vinnu nú í sumar. Tilhneiging er til að ráða ungt fólk sem stóð sig vel í starfi sumarið áður aftur til starfa og þá er hætta á að ákveðinn hópur ungs fólks fái engin atvinnutækifæri og lendi þannig utan vinnumarkaðar, hugsanlega til lengri tíma, sem hafi varanlegar afleiðingar. Þessi hópur gæti orðið að týndu kynslóðinni sem Finnar hafa greint frá. Nauðsynlegt er því að gefa þeim sem ekki fengu vinnu í fyrrasumar vinnu í sumar.
Samþykkt var að stýrihópurinn beini því til sveitarfélaganna að leita allra leiða til að tryggja ungu fólki 17 og 18 ára vinnu í sumar og láta þau sem ekki fengu vinnu í fyrrasumar fá forgang að störfum.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.