Hoppa yfir valmynd
11. júní 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 11. júní 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Eiríkur Jónsson tiln. af KÍ, Gissur Pétursson, án tilnefningar, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Björk Bjarnadóttir tiln. af SA, Guðrún Ögmundsdóttir varamaður Stefáns Stefánssonar, tiln af menntamálaráðuneyti, Tryggvi Þórhallsson varamaður Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar tiln. Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Héðinn Unnsteinsson tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson til. af RKÍ, Stella K. Víðisdóttir tiln. af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, Þorbjörn Guðmundsson, Margrét Erlendsdóttir og Ingibjörg Broddadóttir frá félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Gestir fundarins voru: Félags- og tryggingamálaráðherra Árni Páll Árnason, Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar, Guðmundur Magnússon formaður ÖBÍ, Unnar Stefánsson, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, Sigurður Einarsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík, Helgi Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, Kristjana H. Guðmundsdóttir, varaformaður Landssambands eldri borgara, Ólafur Hannibalsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins

Lára Björnsdóttir bauð gesti fundarins sérstaklega velkomna

1. Þemaumræða um stöðu lífeyrisþegar í ljósi kreppunnar

Inngangserindi í upphafi fundar:

Gerður A. Árnadóttir fjallaði um skerðingu á framlögum ríkisins til málefna fatlaðra undanfarin ár og vakti athygli á að ekki er gert ráð fyrir fjölgun notenda, þrátt fyrir bættar lífslíkur þeirra. Á fjárlögum 2010 hafi verið 2.7% skerðing til málaflokksins og hún óttist að sparnaðarkrafan um 5% niðurskurð muni bitna á þjónustu við fatlaða. Í þessu ástandi sé ástæða til að óttast að mæður fari aftur inn á heimilin í umönnunarhlutverkið sem verði skref til baka bæði í málefnum fatlaðra og ekki síður hvað varðar jafnrétti kynjanna. Langvarandi fjárskortur hafi nú þegar leitt til þess að ekkert fitulag sé eftir til að skera og allur niðurskurður muni leiða til skerðingar á grunnþjónustu við fatlaða. Innlegg Gerðar er á vefslóð vaktarinnar

Guðmundur Magnússon hóf mál sitt á umræðu um skerðingar lífeyrisgreiðslna á árinu 2009 þegar verðbætur á greiðslur TR voru teknar úr sambandi, sama ár hafi auknar tekjutengingar leitt til margföldunaráhrifa, lyf og lækniskostnaður hafi hækkað og greiðsluþátttaka notenda hafi verið aukin í sjúkra-, iðju- og talþjálfun. Árið 2010 hafi bætur almannatrygginga verið frystar og á sama tíma hafi komugjöld hjá sérfræðingum, á bráðamóttöku, á göngudeild og vegna rannsókna hækkað. Glærur Guðmundar frá fundinum er að finna á vefslóð vaktarinnar http://www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/5054

Helgi Hjálmsson fjallaði fyrst um upphaf almannatrygginga. Þegar lögin um almannatryggingar voru sett á fimmta áratug 20. aldarinnar hafi tryggingarnar átt að vera fyrir alla án tillits til efnahags. Hugsunin hafi verið að ekki væri um fátækraframfærslu að ræða heldur framfærslulífeyri sem væri hluti af eftirlaunum. Þetta sjónarmið sé ekki lengur við lýði og hafi grunnlífeyrinn verið tekinn úr sambandi við almennar launahækkanir, síðan hafi verið gefið í skyn með tilkomu lífeyrissjóðanna að þeir ættu að taka yfir greiðslur almannatrygginga og þann 1. júlí 2009 hafi grunnlífeyrir verið tekjutengdur við aðrar tekjur frá lífeyrissjóðum. Laun opinberra starfsmanna hafi hækkað á undanfarandi ári meðan lífeyrir eldri borgara hafi ekki hækkað. Hann fái því ekki betur séð en staða lífeyrisþega sé mjög bágborin. Innlegg Helga er á vefslóð vaktarinnar

Félags- og tryggingamálaráðherra Árni Páll Árnason þakkaði fundarboðið og framsögumönnum erindin. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að koma í veg fyrir að nauðsynleg þjónusta við fatlaða aldraða verði skert og sé það markmið félags- og tryggingamálaráðuneytis. Grundvallaráhersla sé á kjarajöfnun varðandi lífeyrisgreiðslur; hæstu bætur hafi verið skertar en lægstu bætur hafi ekki verið skertar. Við blasi 5% aðhald í rekstri ráðuneytisins. Nýtt velferðarráðuneyti sem verði að veruleika um áramótin 2010/2011 muni skapa aukna möguleika á heildarsýn í málefnum lífeyrisþega. Að lokum benti ráðherra á að félags- og tryggingamálaráðuneyti sé með stærsta útgjaldaliðinn í ríkisfjármálunum en næststærsti liðurinn sé vaxtagreiðslur.

Miklar umræður spunnust í framhaldi af umræðunum, en ráðherra gat ekki tekið þátt í þeim vegna mikilla anna. Meðal annars bar eftirfarandi á góma:

  • Þegar öryrkjar verða ellilífeyrisþegar skerðast bætur þeirra.
  • Þurfum að setja okkur markmið og forgangsraða og kalla eftir þjóðarsátt út frá málefnalegum forsendum í kjölfar upplýstrar umræðu. Hér ætti velferðarvaktin að axla ábyrgð.
  • Brúa verður bilið milli þjónustuþarfa og þjónustustigs. Kerfið er langt á eftir hugmyndafærðinni.
  • Stjórnsýslan er allt of dreifð og þörf er á mun miðstýrðari stjórnsýslu.
  • Ættum að kanna hjá baklandi hvers og eins hvað og hvar megi skera niður eða ætti frekar að spyrja almenning.
  • Stjórnvöld verða að spyrja beinna (konkret) spurninga. Embættismenn tefla fram góðum hugmyndum sem stjórnmálamenn þora ekki að framkvæma.
  • Hætta er á að frysting launa eða lækkun þeirra leiði til frystingar á öllu kerfinu. Það er mikilvægt að lækkun eða frysting launa rýri ekki greiðslur úr lífeyrissjóðum, mikilvægt að það sé látið í friði.
  • Alls ekki má stofna til nýrra „dekurverkefna".
  • Spurt var: „Hvernig getur velferðarvaktin beitt sér?" Allt haldi áfram eins og ekkert hafi gerst og virðist heyrnaleysis gæta hjá alþingismönnum. Velferðavaktin þurfi að koma því rækilega til skila til ráðherra og þingmanna að þeir vinni sómasamlega og geti ekki látið eins og ekkert hafi gerst.

Í framhaldi af umræðum var samþykkt að velferðavaktin sendi ályktun til Alþingis/þingmanna um að þeir beini sjónum sínum að velferð þeirra sem veikastir standa og horft verði á fjármálin í heild svo skynsamleg forgangsröðun verði möguleg. Umræðan á Alþingi í dag endurspegli ekki ástandið í samfélaginu í dag og þær alvarlegu afleiðingar sem efnahagshrunið hefur haft í för með sér á stöðu borgarnna.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta