Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 29. nóvember 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir, tiln. af velferðarráðherra, Brynja Dögg Guðmundsdóttur Briem, varamaður Ástu S. Helgadóttur, umboðsmanns skuldara, Fanney Karlsdóttir, varamaður Kristjáns Sturlusonar, tiln. af Rauða krossi Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gyða Hjartardóttir og Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af velferðarráðherra, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

1. Fundargerð

Fundargerðir 57. fundar var samþykkt.

2. Innlegg frá Samtökum atvinnulífsins og umræða

Halldór Árnason, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins (SA), og Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins (SI), fjölluðu í inngangserindum meðal annars um stöðu fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins, samfélagslega ábyrgð þeirra og afstöðu til stjórnvalda.

Um 2.000 fyrirtæki eru innan vébanda SA. SI gerði símakönnun í sept./okt. sl. um stöðuna hjá um helmingi fyrirtækja innan þeirra vébanda. Þar kom fram að staða fyrirtækjanna er víða betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en ytri aðstæður fara versnandi og traust til stjórnvalda er frekar lítið. Í öllum greinum hefur komið fram að fyrirtæki eru í vandræðum með að fá sérhæft fólk til starfa, svo sem í verk- og tækniiðnaði. Einnig kom fram að fyrirtæki sem ráða fólk í láglaunastörf hafa átt í erfiðleikum með að fá fólk til starfa, til dæmis á Suðurnesjum. Munur á bótum og lægstu launum er lítill og kaupmáttur bóta hefur að mati Bjarna hækkað hraðar en kaupmáttur lægstu og meðallauna að undanförnu. Þá sé skattkerfið ekki hvetjandi og stór hópur fólks á erfiðara en áður með að komast á vinnumarkaðinn. Ein leið er að búa til hvatakerfi þar sem fyrirtæki sjá hag sinn í að ráða fólk í atvinnuleit til starfa, til dæmis með eftirfarandi hætti: Meðgjöf frá hinu opinbera með ráðningum þeirra sem hafa verið á atvinnuleysisbótum í hlutfalli við lengd hvers og eins á bótum, til dæmis að eitt ár á bótum leiði til eins árs meðgjafar. Úrræðið hafi það að markmiði að ráða viðkomandi síðan áfram í starfið að þeim tíma liðnum. SA styður þessa hugmynd.

Halldór upplýsti að störfum hafi fækkað um 12.000 á undanförnum árum (starfandi fólki fækkaði um 11.300 milli 2008 og 2010 eða um 6,3%), þar af voru um 80% á höfuðborgarsvæðinu og 80% karlar. Þá hafi 4.100 íslenskir ríkisborgarar flust af landi brott undanfarin tvö ár, þar af voru um 1.400 með grunnskólapróf, 1.500 með framhaldsskólapróf og 1.200 með háskólamenntun, en á sama tíma hafi verið mikið atvinnuleysi. Halldór benti á að fjárhagslegur ávinningur hins opinbera af því að einstaklingur hafi atvinnu sé umtalsverður, eða um 2,3 m.kr. á ári auk um 2 m.kr. vegna sparnaðar við að greiða ekki atvinnuleysisbætur og halla ríkissjóðs mætti brúa gegnum 5.000 ný störf. SA leggja ríka áherslu á samstarf við stjórnvöld, ekki síst við að skapa ný störf og auka fjárfestingar, en skuldavandi heimila og fyrirtækja heftir þær. Atvinnulífið horfir til allra þátta sem geta hugsanlega dregið úr atvinnuleysi og fjölgað störfum. Átak stjórnvalda í menntamálum ungs fólks sem er utan vinnumarkaðar og ekki í skóla verður að leiða til varanlegra lausna þeim til handa, þannig að unga fólkið standi ekki í sömu sporum þegar átaki lýkur og brýnt að samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda skili sér fólki til hagsbóta.

Lára þakkaði fyrir góða kynningu og í framhaldi urðu fjölbreyttar og upplýsandi umræður, meðal annars um mikilvægi þess að virðing væri borin fyrir öllum störfum og mikilvægi þess að fyrirtæki svari öllum umsóknum um störf, að þörf sé á fjölbreyttari lausnum gagnvart atvinnuleysinu og ramminn verði að vera skýr þegar fyrirtæki „reynsluráði“ fólk og fái meðgjöf frá hinu opinbera.

3. Frá rýnihópi um fjárlagafrumvarpið

Samantekt frá hópnum var lögð fram og fylgdi Þorbjörn henni úr hlaði. Hópurinn kallaði eftir sjónarmiðum ASÍ, SA, BSRB, BHM og Sambands íslenskra sveitarfélaga og vann samantekt upp úr þeim. Niðurstöður eru meðal annars að forsendur fjárlagafrumvarpsins séu of bjartsýnar, áhyggjur eru vegna fyrirætlana um að tvískatta séreignarsparnað, að bótalausa tímabilið eftir þrjú ár á atvinnuleysisbótum leggist þungt á heimilin og einnig á sveitarfélögin. Þá er talið að sú skerðing sem gerð hefur verið á barnabótum og fæðingarorlofsgreiðslum, sem leiddi til að afgangur var á fjárveitingum til þessara málaflokka, ætti að vera nýtt til þess að hækka greiðslur í þessum málaflokkum á árinu 2012. Í framhaldi var rætt um að það vantaði kafla um atvinnumálin í samantektina og einnig að ekki kæmu fram niðurstöður hópsins heldur einungs sjónarmið viðmælenda. Samþykkt að Þorbjörn og Ragnheiður í samvinnu við Ingibjörgu skoði með hvaða hætti megi vinna ályktun til ríkisstjórnarinnar upp úr skjalinu.

4. Frá fundi um börn á vegum UNICEF í París

Lára greindi frá fundi sem hún tók þátt í boði UNICEF sem haldinn var á vegum UNICEF, UNESCO og ESB í Brussel. Kynntar voru rannsóknir á stöðu barna og mikil fróðleikur birtur og vönduð umræða. Þar kom meðal annars fram að fjárhagsleg staða barnafjölskyldna þegar miðað er við fátæktarmörk er góð á Íslandi alþjóðlegum samanburði. Lára lagði til að bjóða ætti erlendum sérfræðingum til Íslands til að fjalla um velferð barna í alþjóðlegu samhengi.

Stella upplýsti í þessu samhengi að Reykjavíkurborg sé að láta gera stóra rannsókn á stöðu barna og samþykkt að óska eftir kynningu á niðurstöðum þegar þær liggja fyrir

4. Önnur mál

Valgerður óskaði eftir upplýsingum um stöðu vinnunnar við endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Samþykkt að bjóða Árna Gunnarssyni formanni nefndarinnar sem vinnur að endurskoðuninni á fund velferðarvaktarinnar.

Næsti fundur verður 3. janúar 2012 næstkomandi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar í Grensáskirkju.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta