Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 3. janúar 2012

Mætt: Lára Björnsdóttir, tiln. af velferðarráðherra, Björg Bjarnadóttir, tiln. af KÍ, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrafnhildur Tómasdóttir, varamaður Gissurar Péturssonar, tiln. af velferðarráðherra, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af velferðarráðherra, Svanborg Sigmarsdóttir varamaður Ástu S. Helgadóttur Umboðsmanns skuldara, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, var boðin velkomin í hópinn.

1. Fundargerð

Fundargerð 58. fundar var samþykkt.

2. Starf velferðarvaktarinnar

  1. Rýnt í fjárlögin: LB ræddi um vinnu starfshópsins sem tók að sér að rýna í fjárlögin og ferlið sem málið fór í. Hópurinn skilaði skýrslu á 58. fundi sem byggði á viðtölum við ýmsa aðila vinnumarkaðarins. Ljóst var að töluverð vinna hafði verið lögð í skýrslugerðina. Í framhaldi vann starfshópurinn ályktun sem byggð var á skýrslunni og sendi IB til nánari skoðunar. Það varð niðurstaða LB og IB að ályktunin væri ekki fullmótuð af hendi starfshópsins og ekki gæfist nægur tími til að útfæra hana á þann veg að hún gæti verið send til stjórnvalda í nafni velferðarvaktarinnar. ÞB og RB, sem bæði voru í starfshópnum, sögðu að þessi málsmeðferð hafi komið þeim á óvart og lýstu yfir vonbrigðum með hana. Í umræðum var einnig rætt um og áréttað að allar ályktanir sem væru sendar í nafni vaktarinnar yrðu fyrst að vera bornar undir stýrihópinn.
  2. Gjaldskrárhækkanir hjá sveitarfélögunum: Upplýst var að velferðarvaktin hefur óskað eftir því við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í vaktinni að það afli upplýsinga um gjaldskrárhækkanir sveitarfélaganna að undanförnu og hvort tekið sé sérstakt tillit til þeirra sem standa höllum fæti við þá framkvæmd.
  3. Félagsvísarnir: Drög að skýrslu um félagsvísana liggur nú fyrir og hafa þau verið send þeim til skoðunar sem hafa unnið í vinnuhópunum við undirbúning vísanna. MS og SJ munu kynna skýrsluna á næsta fundi velferðarvaktarinnar, 17. janúar nk.

3. Áherslur velferðarvaktarinnar næsta misseri

  1. Fjallað var um áherslur velferðarvaktarinnar framundan. Ljóst er að börnin verða áfram í fókus hjá vaktinni, en auk þeirra var samþykkt að leggja áherslu á eftirfarandi:
  2. Stöðu aldraðra: Eftirtöldum yrði boðið á fund velferðarvaktarinnar: Formanni nefndar sem vinnur að nýjum lögum um almannatryggingar, sérfræðingi í velferðarráðuneyti á sviði almannatrygginga og formanni Landssambands eldri borgara. Næstu tveir fundir velferðarvaktarinnar yrðu helgaðir þessu viðfangsefni, 31. janúar og 14. febrúar.
  3. Stöðu innflytjenda á Íslandi – 28. febrúar.
  4. Velferð barna: Meðal annars yrðu niðurstöður úr rannsókn Reykjavíkurborgar um börn sem búa við fjárhagsvanda foreldra kynntar – 6. mars.
  5. Atvinnumálin og atvinnuleitendur – 20. mars.

4. Staða tillagna velferðarvaktarinnar frá júní 2011

Farið var yfir allar tillögur vaktarinnar sem birtar voru í áfangaskýrslu hennar frá júní 2011. Upplýsingar um stöðu gagnvart tillögum 5, 6, 9 og 10 var aflað í framhaldi af fundi frá Hrafnhildi Tómasdóttur sem einnig sat fundinn og fylgja þau svör hér með í fylgiskjali.

  1. Stjórnvöld auki stuðning og sérstakar aðgerðir til að tryggja betur en nú er gert velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra. Samþykkt að fela barnahópi að kanna stöðu þessarar tillögu.
  2. Sérstöku fjármagni verði veitt til heilsugæslustöðva til að tryggja geðheilbrigðis- og sálfélagslega þjónustu fyrir börn. Ljóst er að ekki hefur verið veitt sérstöku fjármagni til heilsugæslustöðvanna í þessum tilgangi.
  3. Greiðslur til foreldra í foreldra- og fæðingarorlofi verði ekki skertar meira en orðið er og helst að greiðslur verði hækkaðar í átt til fyrra horfs svo báðir foreldrar nýti rétt sinn og börn njóti samvista við báða foreldra á fyrsta æviskeiðinu. Greiðslur til foreldra hafa ekki verið skertar meira en orðið var á síðastliðnu sumri.
  4. Kannaðar verði aðstæður 16 ára unglinga sem ekki sækja um skólavist í framhaldsskóla að loknu grunnskólaprófi með það að markmiði finna leiðir til að þeir geti stundað nám við hæfi, bæði bóklegt nám og ekki síður verkmenntanám og starfsþjálfun. Að sama skapi verði aðstæður nemenda sem falla brott úr námi í framhaldsskóla kannaðar og unnið að því að finna nemendunum farveg í námi á ný. Nefnd á vegum forsætisráðuneytis mun vera að vinna að þessu.
  5. Nemendum sem taka þátt í verkefninu Nám er vinnandi vegur verði gert kleift að halda áfram námi á vorönn 2012 með því að tryggja þeim framfærslu á námstíma. Áætlað er að um það bil 200–300 atvinnuleitendur innan átaksins Nám er vinnandi vegur hafi hafið nám á haustönn 2011 sem fellur ekki að lánshæfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Lagt er til að þeir einstaklingar geti sótt um námsstyrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði í samræmi við tiltekna skilmála. 
  6. Ungu fólki í atvinnuleit sem ekki á rétt á atvinnuleysisbótum verði veittur aðgangur að vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar. Svonefnd Atvinnutorg eiga að tryggja ungu fólki 16–25 ára þennan aðgang. Lagt hefur verið til að atvinnutorg verði sett á fót í Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðabæ, Kópavogsvogsbæ og á Suðurnesjum í því markmiði að þjónusta ungt fólk yngra en 25 ára sem hvorki er í námi né vinnu. Verkefnið verði samstarfsverkefni velferðarráðuneytis, Vinnumálastofnunar og framangreindra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að samvinna verði við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum um atvinnutorg á Suðurnesjum í stað einstakra sveitarfélaga á svæðinu. Óski önnur sveitarfélög að taka þátt í verkefninu verði þeim gefinn kostur á því. Samkvæmt upplýsingum frá þessum sveitarfélögum er áætlað að rúmlega 400 einstaklingar komi til með að njóta þjónustu atvinnutorganna.
  7. Ríkisstjórnin sjái til þess að miðlægur gagnagrunnur um fjárhagsstöðu heimila verði tekinn í notkun þannig að unnt sé að greina fjárhagsstöðu og -vanda heimila með heildstæðum hætti. Hagstofan hefur fengið fjármagn til að útbúa þennan gagnagrunn og hefur rúma heimild til að afla gagna. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir um áramótin 2012/2013.
  8. Ríkisstjórnin myndi starfshóp sem meti árangur úrræða stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna. Í starfshópnum sitji óháðir sérfræðingar sem kanni hvers vegna mun færri nýta sér úrræðin en gert var ráð fyrir í skýrslu sérfræðingahópsins um skuldavanda heimilanna frá nóvember 2010. Hópurinn leggi bæði mat á úrræðin og leggi til tillögur til úrbóta svo fleiri heimili geti notið góðs af. Vinnuhópur á vegum forsætisráðuneytis mun skila tillögum í febrúar 2012.
  9. Boðin verði ný og fjölbreyttari vinnumarkaðsúrræði til að tryggja að úrræðin höfði til og nýtist þeim sem hafa verið lengi án atvinnu. Hinn 31. mars 2011 skilaði starfshópur stjórnmálaflokkanna, aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda (bæði ríki og sveitarfélög) um menntun og vinnumarkaðsúrræði tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar. Tillögur hópsins báru yfirskriftina „Í NÁM – TIL VINNU“.
  10. Teknar verði upp sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir og önnur úrræði sem erlendir ríkisborgarar í atvinnuleit geta notfært sér. Upplýsingar um  vinnumarkaðúrræði fyrir erl. ríkisborgara er að finna í skýrslu Vinnumálastofnunar „Útlendingar á atvinnuleysisskrá og þátttaka í virkniúrræðum“.

Samþykkt að kanna nánar stöðu tillagnanna hjá velferðarráðherra og stjórnvöldum.

5. Staða mála hjá umboðsmanni skuldara

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá umboðsmanni skuldara, lagði fram minnisblað um stöðu mála hjá embættinu, dags. 1. janúar 2012, slóð: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/33170
Hjá embættinu starfa 78 manns í 71 stöðugildi. Fyrir liggur að opna útibú á Akureyri með einu stöðugildi. Fjöldi nýrra umsókna dróst verulega saman eftir að frestun greiðslna féll úr gildi 1. júlí 2011, en á sama tíma hefur fjöldi almennra ráðgjafarmála vaxið. Umboðsmanni skuldara hafa borist samtals 3.806 umsóknir um greiðsluaðlögun einstaklinga. Búið er að taka afstöðu til 2.587 mála og af þeim eru 1.825 mál í vinnslu hjá umsjónarmanni þar sem reynt er að ná samningum við kröfuhafa fyrir hönd skuldara, en 1.218 umsóknir eru í vinnslu hjá embættinu miðað við 1. janúar 2012, en vinnslu 763 umsókna er lokið.

6. Önnur mál

  1. Hnitmiðaður texti sem lýsir velferðarvaktinni.
    Eftirfarandi lýsing á velferðarvaktinni var samþykkt:
    ,,Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Hún er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka og fylgir þeim eftir. Að velferðarvaktinni standa samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin."
  2. Lára Björnsdóttir verður í veikindaorlofi í janúar 2012.

Næsti fundur verður 17. janúar 2012 næstkomandi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar í Grensáskirkju.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.


Fylgiskjal með fundargerð frá 59. fundi velferðarvaktarinnar

Nánari upplýsingar frá fulltrúa Vinnumálastofnunar, sem bárust eftir fundinn, varðandi 4. lið: Staða tillagna velferðarvaktarinnar frá júní 2011

4.5 Nemendum sem taka þátt í verkefninu Nám er vinnandi vegur verði gert kleift að halda áfram námi á vorönn 2012 með því að tryggja þeim framfærslu á námstíma. Áætlað er að um það bil 200–300 atvinnuleitendur innan átaksins Nám er vinnandi vegur hafi hafið nám á haustönn 2011 sem fellur ekki að lánshæfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Lagt er til að þeir einstaklingar geti sótt um námsstyrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði með eftirtöldum skilmálum:

  1. Styrkt grunnframfærsla einstaklings verði hin sama og núgildandi framfærsluviðmið hjá LÍN.
  2. Sú framfærsla skerðist í réttu hlutfalli við bótarétt sem viðkomandi einstaklingur hafði hjá Atvinnuleysistryggingasjóði þegar sótt var um þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu.
  3. Foreldar í námi fá aukagreiðslur, með hverju barni 18 ára og yngra sem er á framfæri þeirra, 20.000 kr. á mánuði, óháð bótarétti.
  4. Lágmarksnámsframvinda til styrkveitingar nemur 60% af fullu skilgreindu námi, hvers skóla fyrir sig. Styrkþegar gangast undir viðveruskyldu sem og skilaskyldu verkefna samkvæmt reglum viðkomandi skóla.
  5. Styrkur er greiddur út mánaðarlega, en fellur niður ef styrkþegi sinnir ekki námsskyldum sínum samkvæmt staflið D.
  6. Sömu reglur skulu gilda um áhrif annarra tekna á styrkfjárhæð og gilda hjá LÍN.
  7. Styrkur innan verkefnisins Nám er vinnandi vegur er veittur í þrjár annir, að undangenginni önn á atvinnuleysisbótum. Að þeim tíma loknum getur styrkþegi, á grundvelli sérstakra félagslegra aðstæðna, sótt um viðbótarstyrk, enda fyrirséð að stutt verði þar til viðkomandi muni ljúka námi eða komist í lánshæft nám.
  8. Vinnumálastofnun verði falin framkvæmd verkefnisins, gerir samning við styrkþega um gagnkvæmar skyldur og sjái um samskipti við styrkþega og skóla. Þetta verkefni er í fullum gangi og er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

4.6 Ungu fólki í atvinnuleit sem ekki á rétt á atvinnuleysisbótum verði veittur aðgangur að vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar. Svonefnd Atvinnutorg eiga að tryggja ungu fólki 16–25 ára þennan aðgang. Lagt hefur verið til að atvinnutorg verði sett á fót í Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðabæ, Kópavogsvogsbæ og á Suðurnesjum í því markmiði að þjónusta ungt fólk yngra en 25 ára sem hvorki er í námi né vinnu. Verkefnið verði samstarfsverkefni velferðarráðuneytis, Vinnumálastofnunar og framangreindra sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að samvinna verði við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum um atvinnutorg á Suðurnesjum í stað einstakra sveitarfélaga á svæðinu. Óski önnur sveitarfélög að taka þátt í verkefninu verði þeim gefinn kostur á því. Samkvæmt upplýsingum frá þessum sveitarfélögum er áætlað að rúmlega 400 einstaklingar komi til með að njóta þjónustu atvinnutorganna.

Markmið með atvinnutorgunum er að auka:

  1. virkni ungs fólks sem fær fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga,
  2. samstarf og samfellu í þjónustu Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga við ungt fólk án atvinnu án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins og
  3. sérstaklega virkni þess unga fólks sem hvorki er í skóla né vinnu og hefur ekki sótt um fjárhagsaðstoð.

Hlutverk atvinnutorga verði að:

  1. þjónusta alla atvinnuleitendur sem eru yngri en 25 ára með samræmdum hætti,
  2. finna og þjónusta einstaklinga á aldrinum 16–25 ára í þessum sveitarfélögum sem hvorki eru í námi né vinnu og fá ekki fjárhagsaðstoð,
  3. boða atvinnuleitendur yngri en 25 ára í viðtöl, ráðgjöf og úrræði og
  4. bjóða öllum einstaklingum upp á val um úrræði, sé slíkt talið þeim til hagsbóta, sem felast í boði um starfsþjálfun/vinnu, nám/námstengdum úrræðum, áfengis- eða vímuefnameðferð eða starfshæfingu. Leitað verði samstarfs við símenntunarmiðstöðvar, skóla, meðferðaraðila og VIRK, starfsendurhæfingarsjóð, til að annast framkvæmd þjónustu.

4.9 Boðin verði ný og fjölbreyttari vinnumarkaðsúrræði til að tryggja að úrræðin höfði til og nýtist þeim sem hafa verið lengi án atvinnu. Hinn 31. mars 2011 skilaði starfshópur stjórnmálaflokkana, aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um menntun og vinnumarkaðsúrræði tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar. Tillögur hópsins báru yfirskriftina „Í NÁM – TIL VINNU“. Tillögurnar og fjármögnun þeirra voru til umfjöllunar í tengslum við gerð kjarasamninganna í maí síðastlinum og varð samkomulag um það efni sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí. Samkvæmt henni settu stjórnvöld á fót sérstakan aðgerðahóp til að fylgjast með og útfæra framkvæmd verkefnisins þar sem eiga sæti fulltrúar frá velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Vinnumálastofnun og aðilum vinnumarkaðarins. Á fundi 9. desember 2011 samþykkti hópurinn eftirfarandi aðgerðaramma á grundvelli tillagnanna frá 31. mars. Markmið þeirra er: Að örva nýráðningar og fjölga störfum, að einfalda ráðningarferli atvinnurekenda gagnvart starfstengdum úrræðum eins og hægt er, að gera það fýsilegra fyrir atvinnurekendur að ráða langtímaatvinnulausa og koma þeim þannig „fram fyrir“ í ráðningarröð og að styrkja stöðu þeirra sem eru að klára sitt bótatímabil og auka líkur á ráðningu þeirra. Ný störf verði sköpuð með almennum tímabundnum fjárhagslegum hvötum. Gildir um nýráðningar einstaklinga af atvinnuleysisskrá þar sem sannarlega er verið að bæta við starfsfólki og fjölga störfum.

4.10. Teknar verði upp sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir og önnur úrræði sem erlendir ríkisborgarar í atvinnuleit geta notfært sér. Vinnumálastofnun hefur boðið upp á fjölbreytt vinnumarkaðsúrræði fyrir erlenda ríkisborgara á árunum 2009–2011, svo sem íslenskunámskeið, önnur tungumálanámskeið, lengra nám samkvæmt námssamningum og starfsþjálfun, tölvunámskeið, þjálfun við starfsleit og sjálfstyrkingu, klúbba, smiðjur og sjálfboðaliðastörf, lista- og frístundanámskeið og leiðsögn við að stofna fyrirtæki. Langmest þátttaka hefur verið í íslenskunámskeiðunum en alls sóttu 722 einstaklingar námskeið árið 2009, 2.812 árið 2010 og 1.845 árið 2011. Nánari upplýsingar er að finna í skýrslu Vinnumálastofnunar „Útlendingar á atvinnuleysisskrá og þátttaka í virkniúrræðum“.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta