Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 31. janúar 2012
Mætt: Þórður Hjaltested, varamaður Bjargar Bjarnadóttur, tiln. af KÍ, Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem, varamaður Ástu Sigrúnar Helgadóttur, umboðsmanns skuldara, Fanney Karlsdóttir og Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Védís Grönvold, varamaður Ragnheiðar Bóasdóttur, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af velferðarráðherra, Ellý Alda Þorsteindóttir, varamaður Stellu K. Víðisdóttur, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir tiln. af Biskupsstofu, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, og Ingibjörg Broddadóttir sem stýrði fundi.
Einnig sat Margrét Þórarinsdóttir, nemi í félagsráðgjöf, fundinn.
1. Fundargerð
Fundargerð 59. fundar var samþykkt.
2. Fjárhagsleg staða sveitarfélaganna og gjaldskrárbreytingar þeirra 2012
Valur Rafn Halldórsson, Gunnlaugur Júlíusson og Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Gunnlaugur ræddi um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna annars vegar út frá útkomuspá fyrir árið 2011 og hins vegar út frá fjárhagsáætlunum fyrir árið 2012. Gert er ráð fyrir að afkoma sveitarfélaganna verði betri á árinu 2012 en hún var 2011, en fjárfestingar hafa dregist saman og mun það halda áfram á árinu 2012. Þetta mun hafa áhrif á atvinnulífið, en stefnt er að því að taka minna af lánum og greiða niður skuldir. Skuldir á íbúa eru minnstar í Reykjavík.
Valur Rafn greindi frá könnun sem Sambandið gerði að beiðni velferðarvaktarinnar um gjaldskrárbreytingar sveitarfélaga 2011–2012. Leitað var eftir upplýsingum hjá þeim sveitarfélögum landsins sem hafa yfir 1.800 íbúa (17–20 sveitarfélög), 65–70% landsmanna búa í þessum sveitarfélögum. Eftirfarandi gjaldskrár voru kannaðar: Leikskólar, sund fyrir börn, lengd viðvera og sorphreinsigjöld. Við skoðun á gjaldskrá leikskóla kom í ljós allt að 40% verðmunur milli sveitarfélaga eða 4.350 kr. Þau sveitarfélög sem höfðu lágt gjald hækka gjaldskrá mest, en í Reykjavík var hækkunin 13% en þar er enn lægsta gjaldið. Á Ísafirði var gjaldið ekki hækkað en þar er enn hæsta gjaldið. Sex sveitarfélög hafa hækkað gjaldskrá í sund og var hækkunin oftast á bilinu 10–20 kr. fyrir einstakt gjald. Átta sveitarfélög bjóða börnum frítt í sund. Sorphreinsigjöld hafa hækkað um allt að 23%, sorpeyðingargjöld um allt að 9% en flest sveitarfélög hafa hækkað á bilinu 4–6%. Nánar má lesa um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna í glærum sem notaðar voru við kynninguna.
3. Hjálparstarf kirkjunnar innanlands – reynslan af notkun korta og fleira um starfið
Vilborg Oddsdóttir kynnti starfsemina. Hjálparstarfið hóf afhendingu matarkorta 1. maí 2011 og er áhersla lögð á að veita barnafjölskyldum aðstoð og þá sem allra verst settir. Heildarfjöldinn sem fengu aðstoð 2011 var um 2.000 fjölskyldur. Meiri áhersla er einnig lögð á að veita ráðgjöf og er þar komið til móts við mikla þörf. Starfseminni hafa verið settar reglur sem fela meðal annars í sér viðmið og eru um 10% þeirra sem leita eftir aðstoð yfir mörkum og er boðin ráðgjöf.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.