Stöðufundur með Suðurnesjavaktinni
Stýrihópur velferðarvaktarinnar hélt í vikunni stöðufund með Suðurnesjavaktinni; samstarfshópi um velferðarmál á Suðurnesjum. Á fundinum var farið yfir helstu þætti velferðarmála sem vaktin fylgist sérstaklega með á Suðurnesjum, árangur ýmissa aðgerða og úrræða og hvernig einstakir þættir hafa þróast.
Suðurnesjavaktin sem starfar á vegum velferðarvaktarinnar var sett á fót í byrjun árs 2011 að ósk heimamanna með það að markmiði að efla samstarf sveitarfélaganna á svæðinu um velferðarmál og samvinnu við ríkisstofnanir og félagasamtök til að styrkja stöðu Suðurnesjanna. Aðild að Suðurnesjavaktinni eiga allir félagsmálastjórar á svæðinu, verkalýðshreyfingin, Rauði kross Íslands, sex ríkisstofnanir, fulltrúi sóknarpresta og fulltrúar fræðslumála og foreldrafélaga.
Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar, kynnti á stöðufundinum ýmsar staðreyndir um stöðu mála á Suðurnesjum, og greindi þær eftir sveitarfélögum, meðal annars um atvinnuástand, umfang fjárhagsaðstoðar, umfang aðstoðar Hjálparstofnunar kirkjunnar og fleira. Jafnframt var rætt um ýmsar aðgerðir og sértæk úrræði sem ráðist hefur verið í á svæðinu til að bæta hag fólks og fjölga tækifærum fyrir atvinnulausa.
Fundarmenn sögðu úrræði á vegum Vinnumálastofnunar á borð við Atvinnutorg sem stofnað var á liðnu ári, verkefnin Vinnandi vegur og Nám er vinnandi vegur hafa gefist vel. Sérstaklega var lýst ánægju með að atvinnurekendur hefðu tekið virkan þátt í að bjóða fram störf fyrir atvinnuleitendur með greiðsluþátttöku úr Atvinnuleysistryggingasjóði og að þátttaka þeirra virtist meiri en annars staðar á landinu. Einnig kom fram að skólasókn 16 ára ungmenna hefur aukist á síðustu árum og var í því sambandi bent á ráðningu tveggja verkefnisstjóra á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem vinna að þróunarverkefni um eflingu menntunar á Suðurnesjum og tímabundið verkefni náms- og starfsráðgjafa sem starfaði um skeið hjá Vinnumálastofnun á Suðurnesjum. Unnið hefur verið að því að fjölga námstækifærum fyrir ungt fólk á svæðinu og í haust verða í boði nýjar námsbrautir við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem sérstaklega eru sniðnar að ungmennum sem standa illa að vígi í bóklegu námi, nemendum með slakan námsárangur úr grunnskóla og yngra fólki sem hætti námi á fyrsta ári í framhaldsskóla en hefur hug á að taka upp þráðinn að nýju.
Aukið samstarf og samvinna með tilkomu Suðurnesjavaktarinnar
Fulltrúar í Suðurnesjavaktinni voru á einu máli um að stofnun hennar hefði leitt til aukins samráðs og samstarfs, jafnt milli sveitarfélaga og eins milli stofnana og félagasamtaka. Þótt erfitt gæti verið að mæla árangurinn væri óhætt að fullyrða að samráð milli aðila í gegnum Suðurnesjavaktina bætti yfirsýn þeirra sem störfuðu að velferðarmálum yfir aðstæður fólks, stöðu mála og hvað þyrfti að gera betur. Í ljósi þess væri líklegt að þjónusta við notendur hefði batnað. Suðurnesjavaktin hefur gefið út bæklinginn Úrræði og athafnir á sviði velferðarmála á Suðurnesjum sem var settur saman í tenglum við af afar velheppnað samstöðumálþing Suðurnesjavaktarinnar haustið 2011.
Stöðufundurinn á Suðurnesjum var haldinn í Duushúsum; lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar. Í lok fundarins gafst gestum færi á að skoða húsakynnin, stórglæsilega bátasýningu sem þar er og listsýningu barna á Suðurnesjum.