Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 27. nóvember 2012

Fundargerð 74. fundar, haldinn hjá skrifstofum Rauða krossins á Íslandi, þriðjudaginn 27. nóvember 2012, kl. 14.00 – 16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ellý A. Þorsteinsdóttir varam. Stellu K. Víðisdóttur tiln. af Reykjavíkurborg, Árni Egilsson varam. Garðars Hilmarssonar, tiln. af BSRB, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Guðríður Ólafsdóttir tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp og Hrefna Óskarsdóttir varam., Salbjörg Bjarnadóttir varam. Landlæknis, Unnar Stefánsson tiln. af Landssambandi aldraðra, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir tiln. af velferðarráðherra, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Hrafnhildur Tómasdóttir varam. Gissurar  Péturssonar tiln. af velferðarráðherra, Valgerður Halldórsdóttir tiln. af Bandalagi háskólamanna, Ragnheiður Bóasdóttir tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Gyða Hjartardóttir varam. Gunnars R. Sigurbjörnssonar tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurrós Kristinsdóttir tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir tiln. af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar.

Fundurinn var tileinkaður atvinnumálum og var undirbúningshópi þakkað fyrir sína vinnu en í hópnum voru Kristján, Stella, Sigurrós, Guðrún, Garðar og Salbjörg.

Hópurinn fékk nokkra aðila sem þekkja vel til og geta gefið góða mynd af stöðunni og horfum í atvinnumálum, til þess að koma með erindi inn á fundinn.

1. Staða fólks án atvinnu, úrræði sem gripið hefur verið til og árangur af þeim

Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, hélt erindi um þróun og umfang atvinnuleysis og þær aðgerðir gegn atvinnuleysi sem ráðist hefur verið í. Einstaklingar undir 30 ára eru fjölmennastir á atvinnuleysisskrá og hafa úrræði mikið til beinst að þeim hópi. Fólk hefur t.d. átt kost á að fara í nám á atvinnuleysisbótum sem hefur verið vel nýtt. Þá hafa vinnumarkaðsaðgerðir meira beinst að þeim sem minnsta menntun hafa en mjög stór hópur sem er á atvinnuleysisskrá er einungis með grunnskólamenntun. Átakið Vinnandi vegur stendur nú yfir en í gegnum það hafa skapast 1400 störf og flest þeirra starfa krefjast einungis grunnmenntunar. Á næsta ári munu á milli 3500-3700 einstaklingar klára bótarétt sinn hjá Vinnumálastofnun.

Ellý Alda Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg, ræddi um stöðu atvinnuleitenda með fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg. Atvinnuleitendur án bótaréttar eru stærsti hópur þeirra sem leita eftir fjárhagsaðstoð og þeim sem þurfa á langtímafjárhagsaðstoð að halda fer fjölgandi, sem er mikið áhyggjuefni. Annar hópur sem fer stækkandi eru sjúklingar en til þess að geta aðstoðað þann hóp betur þarf meiri samvinnu við til dæmis heilsugæsluna og VIRK. Sveitarfélög hafa ekki haft aðgang að öllum úrræðum sem eru í boði eins og t.d. hjá Vinnumálastofnun. Borgin hefur þó boðið upp á ýmis virkniúrræði, námsaðstoð, námskeið og fl. Einnig hefur Atvinnutorgið gengið mjög vel hjá Reykjavíkurborg en 175 einstaklingar hafa nýtt sér það úrræði. 43% þeirra höfðu verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur.

2.     Staða vinnumarkaðarins og framtíðarhorfur

Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hjá ASÍ,  hélt erindi um stöðuna á vinnumarkaði. Eitt helsta áhyggjuefnið er langtímaatvinnuleysi meðal einstaklinga. Einnig hefur fjölda þeirra sem eru starfandi á vinnumarkaði fækkað töluvert frá árinu 2008, en fer þó hægt hækkandi. Aðgerðir hafa vissulega gert sitt gagn en hafa ekki dugað til, það vantar fleiri störf til lengri tíma og það þarf líka að reyna að skapa atvinnu fyrir þá sem fóru af vinnumarkaðnum - ekki bara fyrir þá sem eru núna á atvinnuleysisskrá. Atvinnuleysisspár gera ráð fyrir að í lok ársins 2015 verði atvinnuleysi 4,5-5%. Fjárfestingar ráða einnig miklu um það hvernig atvinnulífið þróast og er vonast til þess að ráðist verði í mannaflsfrekari framkvæmdir á borð við álver, byggingu nýs spítala og fangelsis svo dæmi séu nefnd. 

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, ræddi um hvað þarf til þess að störfum fjölgi en það er fyrst og fremst öflugri nýsköpun og fjölgun öflugra fyrirtækja. Hér á landi hefur verðmætasköpun á mann vaxið hægar en annarsstaðar. Það þarf til dæmis að reyna að horfa á fleiri möguleika í útflutningi aðra en í sjávarútvegi, áli og ferðaþjónustu. Við þurfum meiri hagvöxt til þess að draga úr atvinnuleysi.

Til þess að bæta stöðuna þarf samspil nokkurar mikilvæga þátta:

  • stöðugleika, bæði efnahagslegan og pólitískan
  • hagstæð skilyrði atvinnulífs
  • erlenda fjárfesta
  • samstarf stjórnvalda og atvinnulífs 
  • Glærur Hannesar

Umræður

Rætt var um hvernig hægt sé að bæta samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Bent var á að í mörgum verkefnum hefði samstarf stjórnvalda og atvinnulífs gengið vel en oft hefur verið skortur á trausti á milli þessara aðila og það er eitthvað sem þarf að bæta úr.

Undirbúningshópurinn lagði til að velferðarvaktin kæmi eftirfarandi á framfæri við stjórnvöld:

Það er ljóst að það stefnir í erfiðan vetur á vinnumarkaði þrátt fyrir að spár gefi til kynna að til lengri tíma fari staða á vinnumarkaði batnandi.

Störfum fjölgar of hægt og enn eru of margir án atvinnu. Talið er að það þurfi um 2000 ný störf á ári til að halda í við fjölgun á vinnumarkaði, auk starfa fyrir þá sem misst hafa vinnu og/eða þá sem flutt hafa úr landi.

Í ljósi þess telur velferðarvaktin mikilvægt að stjórnvöld skapi aðstæður sem hvetja fyrirtæki og einstaklinga til fjárfestinga og atvinnuskapandi verkefna. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld hraði þeim aðgerðum sem að þeim snúa þannig að þær auki atvinnustig.

Huga þarf sérstaklega að svæðum þar sem atvinnuástand er erfitt s.s. Suðurnesjum og hópum sem höllum fæti standa á vinnumarkaði s.s. fólki með lágt menntunarstig og innflytjendum.
Áfram þarf að hlúa að vinnumarkaðs- og menntunarúrræðum. Nauðsynlegt er að mótuð verði skýr stefna um hvernig fjölga eigi störfum á næstu árum.

Ákveðið var að ræða betur á næsta fundi hvernig velferðarvaktin telji að best sé að vinna áfram með það sem komið hefur fram á þessum fundi.

Fundargerð ritaði Lovísa Lilliendahl.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta