Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 11. desember 2012
Fundargerð 75. fundar, haldinn í velferðarráðuneyti þriðjudaginn 11. desember 2012, kl. 14.00–16.00.
Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Björg Bjarnadóttir, tiln. af KÍ, Svanborg Sigmarsdóttir, varamaður Ástu S. Helgadóttur umboðsmanns skuldara, Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Gyða Hjartardóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Hugrún Jóhannesdóttir, varamaður Gissurar Péturssonar, án tiln., Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður landlæknis, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttur, án tiln., Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir og Ingibjörg Broddadóttir.
1. Fundargerðir
Fundargerðir 73. og 74. fundar voru samþykktar.
2. Ályktun um atvinnumál framhald umræðu frá 74. fundi
Tillaga sem lögð var fyrir 74. fund var rædd nánar og fylgdi Kristján Sturluson umræðunni úr hlaði og greindi frá starfi hópsins. IB mun senda hópnum yfirfarna tillöguna með breytingum sem samþykktar voru á fundinum og leitast við að stytta ályktunina svo sem kostur er.
Lagt var til að velferðarvaktin haldi málþing um atvinnumál og atvinnusköpun og undirbúi það með aðilum vinnumarkaðarins. Í undirbúningshópi yrðu: Sigurrós, Kristján, Valgerður, Guðrún og Gissur. Málþingið yrði haldið í lok janúar eða byrjun febrúar 2013.
3. Staða Íbúðalánasjóðs og fjármál heimilanna
Vísað er til umræðu á 72. fundi velferðarvaktarinnar. Vanskil eru vaxandi hjá Íbúðalánasjóði en ekki hjá fjármálafyrirtækjum og var bent á að neyslulán eru líka í vanskilum. Vanskil munu hafa aukist þegar lán voru ekki lengur fryst en geta Íbúðalánasjóðs til að leysa úr vanda er mjög takmörkuð gagnvart þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Dregið hefur úr nýjum málum hjá Umboðsmanni skuldara, en þó ekki eins mikið og gert var ráð fyrir. Breytingar á húsaleigubótum, sem framundan eru um áramótin, eru til bóta þar sem fleiri munu eiga rétt á bótum og fjárhæðir hækka. „Millihópurinn“ stendur illa og er ástæða talin til að vekja athygli á stöðu hans. Niðurstaða umræðunnar er að velferðarvaktin kanni þessi mál nánar og munu Svanborg og Gyða undirbúa umræðu á næsta fundi vaktarinnar þann 15. janúar 2013 um fjármál heimilanna.
4. Önnur mál
a) Fjölskyldustefna: Vísað var til umræðu á fyrri fundi og hafa Valgerður og Salbjörg tekið að sér að fjalla um þetta viðfangsefni á fundi vaktarinnar 29. janúar nk.
b) Greint var frá ungmennum sem eiga í alvarlegum geðrænum erfiðleikum og að biðlistar á barnageðdeildum hafi lengst verulega. Rætt um að kalla saman aðila sem veita börnum þjónustu í skólum, heilbrigðiskerfinu, félagsþjónustu, barnavernd og víðar og safna saman upplýsingum frá þeim um stöðu barna í dag. Velferðarvaktin stóð fyrir slíkum fundi vorið 2009 og á vel við að endurtaka það nú að fjórum árum liðnum. Samhliða var bent á að rannsóknir sýni að börn standi almennt vel, en hópur barna sem átti í erfiðleikum fyrir bankahrunið standi líklega verr.
Næstu fundir:
15. janúar og 29. janúar.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.