Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 7. maí 2013
Fundargerð 83. fundar, haldinn hjá Eflingu Guðrúnartúni 1, Reykjavík þriðjudaginn 7. maí 2013, kl. 14.00 – 16.00.
Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ingibjörg Broddadóttir, velferðarráðuneyti, Lovísa Lilliendahl, velferðarráðuneyti, Þórhildur Þorleifsdóttir, skipuð af velferðarráðherra, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af Embætti landlæknis, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gyða Hjartardóttir, varamaður Gunnars R. Sigurbjörnssonar, Hugrún Jóhannesdóttir, varamaður Gissurar Péturssonar, Ásta Sigrún Helgadóttir, tiln. af Umboðsmanni skuldara, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir, velferðarráðuneyti sem ritaði fundargerð.
Formaður setti fund og vakti athygli á því að dagskráin væri helguð stöðu mála. Formaður upplýsti að það væri áhyggjuefni að fjármálaráðuneytið væri enn ekki búið að ganga formlega frá samningi við Tannlæknafélag Íslands um ókeypis tannlækningar barna og ungmenna sem taka á gildi 15. maí nk. og gerði tillögu um að ráðherrum fjármála- og velferðarráðuneytis yrðu send bréf af þessum sökum.
1. Fundargerð
Fundargerð síðasta fundar borin upp og samþykkt.
2. Velferðarvaktin á nýjum tímum
Formaður sagði frá fundi sem hún átti með fráfarandi velferðarráðherra að loknum kosningum og að hugsanlega yrði starfi velferðarvaktarinnar hætt. Ráðherra mun leggja til við næsta ráðherra að vaktin haldi áfram störfum sínum og að það yrði að vera sjálfstæð ákvörðun ef vaktin yrði lögð niður. Jafnframt hafi komið fram hjá velferðarráðherra að honum finnist að eftir sé að ganga í fátæktarmálin og taka á þeim. Nú sé starfandi hópur innan ráðuneytisins sem sé að rýna í Farsældarskýrsluna. Þá benti formaður á að Félagsvísarnir, sem hýstir eru hjá Hagstofunni, verði uppfærðir í september nk. Formaður velti fyrir sér að óska eftir afstöðu baklands velferðarvaktarinnar til þess hvort vilji sé fyrir því að halda starfinu áfram eða hvort rétt sé að skipa nýja aðila. Þá kom fram að núverandi formaður velferðarvaktarinnar fer með formennskuna til 1. september 2013.
Að loknum þessum inngangi var orðið gefið laust þar sem eftirfarandi sjónarmið og skoðanir komu fram:
- Ekki væri tímabært nú að endurnýja umboðið heldur skyldi beðið til haustsins með að skipa nýja fulltrúa eða skipta út.
- Það sé jákvætt að sambærilegt fyrirkomulag og velferðarvaktin sé að störfum, starfið þróist og upp komi ný mál. Ennþá sé þörf fyrir starfsemi eins og starfsemi velferðar-vaktarinnar. Hún sé mikilvægur samráðsvettvangur og því megi spyrja hvers vegna nýr ráðherra ætti ekki að vilja halda starfinu áfram.
- Bent var á að upp eru að koma hópar sem sérstaklega þarf að halda utan um, einkum börnin. Vakin var athygli á sjúklingahópi sem nýtur fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar og hefur gert í langan tíma.
- Vakin athygli á því hvernig velferðarvaktin getur látið rödd sína heyrast betur. Full þörf á eftirfylgd mála.
- Mikilvægt sé að halda starfi velferðarvaktarinnar áfram og hún sé góður vettvangur til að deila og miðla upplýsingum og að við séum sterkari saman.
- Bent var á að nýr ráðherra mun skipa nýja velferðarvakt og væntanlega muni honum hann þá eiga meiri hlutdeild.
- Þá var rætt um hvort velferðarvaktin ætti að vera sjálfstæðari í störfum eða tengd ráðuneytinu, hvernig hún ætti að vera og hvernig ætti að skilgreina hana. Þá kom einnig fram að ef pólitísk afskipti yrðu höfð af störfum nefndarinnar þá ætti hún að leggja sig niður. Sömuleiðis kom fram að ef vaktin verður of sjálfstæð þá sé hætta á að enginn beri ábyrgð og jarðtengingu myndi skorta. Það er ljóst að það verður nýr ráðherra sem tekur ákvörðun um það hvort velferðarvaktin heldur áfram að starfa eða verður lögð niður.
- Spurning um að velferðarvaktin vinni með Almannavörnum sem hefur ákveðið áfalla-teymi og tengslanet.
- Fram kom að velferðarvaktin hefur haft mikil óbein áhrif m.a. á börnin og skólamáltíðir, vaktin er hlutlaus og getur sent tilmæli til sveitarfélaga sem ekki er á færi ráðherra. Velferðarvaktin er öflugur samráðsvettvangur þar sem allir eru jafn réttháir. Ábendingar og tilmæli frá velferðarvaktinni hafa haft áhrif hjá sveitarfélögunum.
3. Innlegg frá formönnum hópa (vegna skýrslunnar)
Vilborg: Í kjölfar skýrslunnar um Farsæld var velferðarvaktin sett á laggirnar og tillögur vaktarinnar eru í aðgerðaáætluninni. – Hún dreifði til fundarmanna ritinu Aðgerðir til að vinna gegn fátækt sem kom út í mars 2013 á vegum velferðarráðuneytisins. Gagnrýnt hefur verið hvers vegna fulltrúar sveitarfélaganna komu ekki að þeirri vinnu. – Hlutverk vaktarinnar sé að fylgja þessum tillögum eftir svo að skýrslan lendi ekki ofan í skúffu. – Spurning um að fá fulltrúa ráðuneytisins, Sigríði Jónsdóttur, til að kynna þssi mál betur.
Salbjörg: Hún fór yfir stöðuna í málefnum barna og lýsti áhyggjum af brottfalli barna af erlendum uppruna úr skóla. Lýsti yfir ánægju með námskrár menntamálaráðuneytis. Talaði um börn með langvinna sjúkdóma og foreldra þeirra. Barnasáttmálinn. Hefur áhyggjur af barnabótunum. Finnst ókeypis tannlækningar barna vera gleðiefni.
Ingibjörg: Hún ræddi stöðu barna með sértækan vanda og að um væri að ræða ótrúlega þung og erfið mál. Um sé að ræða fámennan hóp barna með mjög geð- og þroskaraskanir og á einhverfurófi. Þá ræddi hún úrlausn mála fyrir sakhæf börn sem fengið hafa dóma og að ekki væri búið að tryggja fjármagn en um var að ræða þingmannafrumvarp sem fór í gegnum þingið rétt fyrir kosningar. Um væri að ræða eitt til tvö ungmenni á ári. Gunnar Rafn: Finnst óþolandi þegar sveitarfélögin lenda í þrasi um skilgreiningar. Benti á að sveitarfélögin eru ekki öll í stakk búin til að takast á við öll vandamál.
Ragnheiður: Talaði um fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna í haust.
Stella: Sveitarfélögin hafa verið að glíma við stór og þung vandamál í kjölfar yfirfærslunnar til sveitarfélaga.
Sigurrós: Ræddi um þann hóp fólks sem er að missa bótaréttinn og fara í úrræði en hvað svo? Hefur miklar áhyggjur af þessu fólki sem er á aldrinum 60+ og missir vinnuna. Þetta er fólk sem hefur starfsgetu en fær ekki vinnu. Hún upplýsti að mikil ásókn væri í endurhæfingarlífeyri og ástæðan fyrir því væri oft geðrænir sjúkdómar. Þetta væri einnig oft skýringin á brottfalli úr skóla. Þá benti hún á að ef litið er til Finnlands og reynslu Finna þá verður vandinn erfiðastur fjórum til fimm árum eftir upphaf kreppu. Þetta sé sá tími sem setja þarf fókusinn á.
4. Önnur mál
Eins og fram kom hjá formanni í upphafi fundarins hefur fjármálaráðuneytið ekki enn gengið formlega frá samningi við Tannlæknafélag Íslands um ókeypis tannlækningar íslenskra barna og ungmenna. Af því tilefni samþykkti velferðarvaktin eftirfarandi ályktun sem send verður forsætisráðherra, fjármálaráðherra og velferðarráðherra:
Velferðarvaktin lýsir þungum áhyggjum af því að ekki hafi endanlega verið gengið frá öllum formsatriðum varðandi samning um fyrirkomulag tannlækninga barna sem taka eiga gildi 15. maí nk. Skorað er á stjórnvöld að ljúka málinu án tafar þannig að ekki myndist enn á ný óvissa í þessu mikilvæga máli sem enn á ný gæti fært það á byrjunarreit með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Fundi slitið kl. 16:30.