Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla Velferðarvaktarinnar til ráðherra

Frá síðasta fundi Láru  Björnsdóttur formanns með velferðarvaktinni
Frá síðasta fundi Láru Björnsdóttur formanns með velferðarvaktinni

Fráfarandi formaður Velferðarvaktarinnar hefur skilað félags- og húsnæðismálaráðherra skýrslu með umfjöllun um verkefni vaktarinnar, ásamt tillögum um úrbætur í velferðarmálum á þeim sviðum sem Velferðarvaktin telur brýnast að sinna á næstunni.

Velferðarvaktin stendur á tímamótum. Hún var stofnuð í mars 2009 sem ein af aðgerðum stjórnvalda til að takast á við efnahagshrunið haustið 2008 og hefur því starfað samfellt í tæp fimm ár. Á fundi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, með fulltrúum Velferðarvaktarinnar í júní á liðnu ári var lagt til að hugað yrði að framtíð og endurskipulagningu vaktarinnar þegar hún hefði skilað ráðherra skýrslu um störf sín. Nú hefur velferðarvaktin skilað skýrslunni og leggur þar til að vaktin starfi áfram í einhverri mynd en að skipað verði í hana á nýjan leik.

Í Velferðarvaktinni hafa setið fulltrúar fjölmargra stofnana, sveitarfélaga og félagasamtaka, sem allir eiga það sammerkt að sinna störfum og verkefnum sem snerta velferð landsmanna í víðu samhengi. Markmið vaktarinnar hefur verið að nýta þverfaglega þekkingu til að fylgjast sem best með þróun velferðar í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins og benda stjórnvöldum og hagsmunasamtökum á hvað betur má fara og hvar úrbóta er þörf.

Lára Björnsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu hefur stýrt starfi Velferðarvaktarinnar frá upphafi en lætur nú af formennsku samhliða skilum á skýrslu vaktarinnar sem hún afhenti Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra í vikunni. Ráðherra segir mikinn feng af því umfangsmikla starfi sem unnið hefði verið á vegum Velferðarvaktarinnar. Sérstaklega megi nefna þróun félagsvísa sem Hagstofan hefur tekið að sér að birta reglulega og stofnun og störf Suðurnesjavaktarinnar sem stuðlað hefur að auknu þverfaglegu samstarfi og samráði á sviði velferðarmála á Suðurnesjum. Velferðarvaktin hefur einnig látið vinna ýmis rannsóknarverkefni til að afla dýpri skilnings á stórum viðfangsefnum og má þar nefna sérstaklega athugun á umfangi barnaverndartilkynninga árin 2005 – 2009 og skýrsluna Konur í kreppu sem fjallar um vinnu og heimilislíf fyrir og eftir kreppu.

Þurfum áfram að vakta velferðina

Eygló Harðardóttir þakkar fráfarandi formanni, Láru Björnsdóttur, fyrir vel unnin störf með Velferðarvaktinni: „Það má segja að Velferðarvaktin hafi verið sá vinur sem til vamms segir. Hún hefur komið með margvíslegar ábendingar um áherslur og aðgerðir til að bæta úr aðstæðum hópa í samfélaginu sem standa illa að vígi og þarf að huga að sérstaklega. Ég tel mikilvægt að varðveita þá þekkingu sem skapast hefur með starfi Velferðarvaktarinnar og ekki síður þann merkilega samráðsvettvang stofnana og félagasamtaka sem þar hefur myndast. Við þurfum áfram að vakta velferðina. Mögulega er æskilegt að gera einhverjar breytingar á áherslum og verkefnum Velferðarvaktarinnar en hvort eða hvernig það verður ætla ég að ákveða að loknu samráði við þá sem starfað hafa í vaktinni á liðnum árum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta