Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð velferðarvaktarinnar 31. ágúst 2015

Fundargerð

8. fundar velferðarvaktarinnar, haldinn 31. ágúst 2015
í velferðarráðuneytinu.


Dagskrá fundar:

1. Kolbeinn Stefánsson frá Hagstofunni – könnun á lífskjörum barna.

2. Texti frá barnahóp Velferðarvaktarinnar – verkefnið TINNA.

4. Agnar Freyr Helgason – kreppuviðbrögð Íslands og Írlands, samanburður.

5. Önnur mál

· Mögulegt bréf til Sambands íslenskra sveitarfélaga.


1. Könnun á lífskjörum barna og greining á hóp sem býr við sárafátækt
Kolbeinn Stefánsson frá Hagstofunni kynnti nokkrar niðurstöður könnunar á lífskjörum barna sem Hagstofan og Unicef unnu í sameiningu en könnunin náði yfir um 3000 heimili og um 8200 einstaklinga. Niðurstöður könnunarinnar í heild sinni verða birtar í október. Í niðurstöðunum vakti athygli að mesti skorturinn sem börn bjuggu við var í tengslum við húsnæði, sérstaklega á meðal einstæðra foreldra en Kolbeinn benti á að hlutfall einstæðra foreldra í leiguhúsnæði væri að aukast. Fram kom hjá fulltrúa Barnaheilla að þessar upplýsingar rími við niðurstöður sem fram komu í skýrslu á vegum Barnaheilla þar sem skýrt kom fram að börn búa mörg hver við lélegan húsakost. Meðal annars sem fram kom í niðurstöðunum var að á milli mælinga hefði dregið úr þátttöku barna einstæðra foreldra í tómstundum og félagslífi.

Kolbeinn sagði einnig frá fyrirhugaðri greiningu á sárafátæktarhópnum, svokallaða 2% hóp, eftir að Velferðarvaktin fór þess á leit við Hagstofuna að reyna að greina samsetningu þessa hóps frekar. Gert er ráð fyrir að greiningin verði tilbúin í byrjun næsta árs.

2. Texti frá barnahóp Velferðarvaktarinnar – verkefnið TINNA
Barnahópur Velferðarvaktarinnar hefur skoðað hvernig efla megi úrræði einstæðra foreldra og barna þeirra og í því sambandi m.a. fjallað um rannsóknina Jaðarstaða foreldra - velferð barna. Á fundinum var samþykkt að vaktin sendi félags- og húsnæðismálaráðherra bréf þar sem lagt er til að ráðherrann, í samvinnu við sveitarfélögin, finni leiðir til að tilraunaverkefnið TINNA fari af stað einstæðum foreldrum, sem eru notendur fjárhagsaðstoðar, og börnum þeirra til hagsbóta. TINNU verkefnið er ákveðið virkniprógramm sem býður ungum einstæðum foreldrum upp á fjölþættan stuðning með víðtækri aðkomu kerfisins.

3. Samanburður á kreppuviðbrögðum Íslands og Írlands
Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði, kynnti samanburð á kreppuviðbrögðum Íslands og Írlands. Þar voru ytri aðstæður sambærilegar en viðbrögð stjórnvalda ólík þar sem Írar beittu flötum niðurskurði á á meðan Ísland lagði áherslu á að verja velferðarkerfið með auknum vinnumarkaðsaðgerðum o.fl. Agnar vakti athygli á erindi sem hann mun halda á kynningu á Norrænu velferðarvaktinni þann 17. september nk. en þá verða fleiri lönd komin inn í samanburðinn.

4. Önnur mál

· Bréf til Sambands íslenskra sveitarfélaga
Rætt var um áskorun Barnaheilla og Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra, til þingmanna og sveitarstjórna um að tryggja börnum rétt til að stunda grunnnám án endurgjalds. Fram hefur komið að Samband íslenskra sveitarfélaga mun, vegna hennar, fjalla um þetta mál á stjórnarfundi þann 11. september nk. næstunni og einnig skólamáltíðir. Í ljósi þess að Velferðarvaktin hefur áður fjallað um þessi mál, m.a. í tillögum frá 28. janúar 2015 (í tillögu 4 á bls. 20) ásamt erindum fyrri Velferðarvaktar, samþykktu fulltrúar að útbúa bréf frá Velferðarvaktinni til Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem bent er á þessar tillögur, áður en framangreindur fundur verður haldinn. Afrit af bréfinu verður sent menntamálaráðherra.

Áætlað var að Bolli Þór Bollason, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, kæmi á fundinn og skýrði frá stöðunni á tillögunum sex sem vaktin lagði fram í skýrslu sl. vetur. Bolli komst ekki og er gert ráð fyrir að hann komi á næsta fund.

Næsti fundur verður haldinn 9. nóvember kl. 13-16 hjá Rauða krossinum á Íslandi.

LL

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta