Fundargerð velferðarvaktarinnar 23. ágúst 2016
Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Ellý Alda Þorsteinsdóttir frá Reykjavíkurborg, Angelique Kelley frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Lovísa Arnardóttir frá Unicef, Vildís Bergþórsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Garðar Hilmarsson frá BSRB, Ellen Calmon frá Öryrkjabandalagi Íslands, Héðinn Jónsson frá VIRK, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstofnun kirkjunnar, Sigurrós Kristinsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jenný Ingudóttir frá Heimili og skóla, Sunna Diðriksdóttir frá innanríkisráðuneyti, Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu, Eðvald Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Jóna Pálsdóttir frá menntamálaráðuneyti og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.
Dagskrá fundar:
- Fréttir úr baklandinu frá fulltrúum.
- Hvatningarbréf Velferðarvaktar til skólasamfélagsins vegna kostnaðarþátttöku foreldra í ritfangakaupum og áhrif bréfsins.
- Undirbúningur morgunfundar með PEP- Íslandi (People Experience Poverty) um fyrirkomulag mataraðstoðar föstud. 21. okt.
- TINNA, stutt kynning á stöðu verkefnisins.
- Áherslumál í vetur.
- Önnur mál.
___
- Fréttir úr baklandinu
Fulltrúar vaktarinnar fóru yfir þau mál sem eru efst á baugi í þeirra baklandi og sögðu frá helstu verkefnum sem eru í gangi.
- Afgreiðsla milli funda, hvatningarbréf Velferðarvaktar til skólasamfélagsins vegna kostnaðarþátttöku foreldra í ritfangakaupum og áhrif bréfsins
Formaður þakkaði fulltrúum vaktarinnar fyrir góð viðbrögð og samvinnu við undirbúning hvatningarbréfs Velferðarvaktarinnar til skólasamfélagsins vegna ritfangakaupa. Áhrifa bréfsins gætir víða en fjölmiðlar sýndu málinu mikinn áhuga. Viðbrögð frá skólakerfinu hafa verið jákvæð og vonast er til að breytinga verði enn frekar vart í upphafi næsta skólaárs. Rætt var um að bréfið sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi til skólayfirvalda í byrjun maí hefði haft góð áhrif.
- Undirbúningur morgunfundar með PEP á Íslandi (People Experience Poverty) um fyrirkomulag mataraðstoðar – Vilborg Oddsdóttir Vilborg sagði frá fyrirhuguðum morgunfundi og mikilvægi þess að opna fyrir umræðuna um fyrirkomulag matargjafa. Á fundinum verða erindi, kynntar verða niðurstöður óformlegrar könnunar sem lögð verður fyrir þau hjálparsamtök sem veita mataraðstoð og gert er ráð fyrir umræðum á borðum í lok fundar.
- TINNA, stutt kynning á stöðu verkefnisins Ellý Þorsteinsdóttir frá Reykjavíkurborg sagði frá stöðunni á verkefninu en unnið verður næstu tvö árin í Breiðholti með ákveðinn hóp einstæðra foreldra, sem eru notendur fjárhagsaðstoðar, og börnum þeirra. Verkefnið er bæði hóp- og einstaklingsmiðað og miðar að því að allt kerfið vinni saman og að haldið sé markvisst utan um þátttakendur.
- Áherslumál í vetur Rætt var um störf vaktarinnar á komandi vetri og hvað fulltrúar hefðu áhuga á að leggja áherslu á. Í því samhengi var eftirfarandi nefnt: a) fylgja eftir tillögunum sex frá síðustu skýrslu b) viðbrögð við sárafátæktarskýrslu og hvort vaktin ætti í því samhengi að skoða lýðheilsumál c) staðan í málefnum flóttafólks/hælisleitenda d) fylgja eftir umræðu um búsetuskerðingar e) skoða geðheilbrigðismál í skólum Áætlað er að vaktin sendi frá sér stöðuskýrslu á næstu vikum. Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.
Næstu fundir verða haldnir 4. október og 15. nóvember.