Hoppa yfir valmynd
27. desember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kostnaðarþátttaka afnumin hjá 94% grunnskólabarna

Velferðarvaktin fól Maskínu að gera könnun á kostnaðarþátttöku grunnskólabarna í skólagögnum, s.s. ritföngum og pappír, í júlí og ágúst sl.  Leiddi hún í ljós að sveitarfélög sem ráku skóla fyrir um 38% grunnskólabarna landsins höfðu afnumið kostnaðarþátttöku þeirra í skólagögnum frá og með yfirstandandi skólaári.

Í kjölfar könnunarinnar hvatti Velferðarvaktin öll sveitarfélög til þess að skoða niðurstöður hennar í tengslum við gerð fjárhagsáætlana sinna fyrir næsta skólaár, 2018-2019.

Frá því að könnunin var gerð hafa fjölmörg sveitarfélög, þar sem alls búa um 56% grunnskólabarna landsins, bæst í hóp þeirra sem afnema kostnaðarþátttöku af þessu tagi og hafa komið þeim upplýsingum á framfæri við Velferðarvaktina eða á opinberum vettvangi. Þar vegur Reykavíkurborg þyngst, með um 14.000 grunnskólanemendur á sínum snærum.

Alls búa því nú að minnsta kosti 40.859 börn, eða 94% grunnskólanemenda landsins ,  í sveitarfélögum þar sem búið er að taka ákvörðun um að afnema kostnaðarþátttöku vegna námsgagna á næsta skólaári, 2018-2019.

Þau börn sem eftir standa búa, samkvæmt könnuninni, í sveitarfélögum sem hafa ýmist dregið úr kostnaðarþátttökunni, svöruðu ekki könnuninni, sögðust ekki hafa stefnu í málinu eða gætu ekki svarað. Einnig er hugsanlegt að í einhverjum þessara sveitarfélaga hafi verið tekin ákvörðun um að afnema kostnaðarþátttöku án þess að Velferðarvaktinni sé kunnugt um það.

Samkvæmt upplýsingum Velferðarvaktarinnar er kostnaðarþátttakan mjög mismunandi og getur farið upp í 22.300 krónur þar sem hún er hæst. Velferðarvaktin hefur áður komið því á framfæri að kostnaðarþátttaka upp á tugi þúsunda króna samrýmist hvorki anda Barnasáttmálans né grunnskólalaganna og lagði til sl. vor að menntamálaráðherra beiti sér fyrir endurskoðun 31. greinar grunnskólalaganna.

Velferðarvaktin hefur í hyggju að gera nýja könnun um kostnaðarþáttttöku grunnskólabarna næsta sumar.

Grunnskólabörn á Íslandi voru 43.418 árið 2016 og er stuðst við þær tölur í ofangreindri samantekt.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta