Velferðarvaktin vekur athygli í Færeyjum
Velferðarvaktin var kynnt félagsmálaráðherra Færeyja, Eyðgunn Samuelsen, í Þórshöfn í Færeyjum sl.föstudag, en stjórnvöld í Færeyjum hafa sýnt henni áhuga.
Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði íslenskra stjórnvalda árið 2009 í kjölfar efnahagshrunsins. Hún er skipuð af félags- og jafnréttismálaráðherra og er hlutverk hennar að huga að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna og þeirra sem búa við sárafátækt. Velferðarvaktin er óháður greiningar- og álitgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda um úrbætur. Að henni standa ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og frjáls félagasamtök.
Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, sem kynnti vaktina fyrir færeyska ráðherranum, segir að Velferðarvaktin hafi frá upphafi vakið athygli út fyrir landssteinana. Hún sé nýsköpunarverkefni og eigi sér enga fyrirmynd erlendis. „Færeyski ráðherrann vildi heyra hvernig samráðsvettvangur ólíkra aðila vakir yfir stöðu þeirra sem höllum fæti standa á Íslandi og skilar árangri. Okkur þykir gott að Velferðarvaktin skuli vekja jákvæða athygli erlendis. Ef færeyskum stjórnvöldum hugnast að setja upp svipaðan vettvang þá erum við tilbúin til frekari kynninga og aðstoðar.“
Að kynningarfundi loknum sagði Eyðgunn Samuelsen, félagsmálaráðherra Færeyja, áhugavert að heyra að frekar auðvelt sé að koma slíkum vettvangi á. Frjáls félagasamtök fylgist daglega með stöðunni og geti því fljótt sagt til breytist þarfirnar í samfélaginu. „Það sem okkar vantar kannski í Færeyjum er að ná saman vitneskju sem ekki má lesa úr hagtölunum, en liggur úti í samfélaginu hjá frjálsum félagasamtökum, stofnunum og fleirum. Ef við fáum þá , sem þekkja á ýmsan hátt stöðu fjölskyldna í vanda, til að tala saman þá náum við betri og heildstæðari yfirsýn og getum fundið betri lausnir“.