Skýrsla um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016
Í dag var rannsóknarskýrsla um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016, sem unnin var af Kolbeini Stefánssyni félagsfræðingi, kynnt. Á síðasta ári fól Velferðarvaktin EDDU öndvegissetri að gera rannsókn á lífskjörum og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 og sá Kolbeinn um verkið. Í rannsókninni er þróun lífskjara og lífsgæða barna rakin yfir tímabilið 2004-2016 með megináherslu á þrjú tímabil, þ.e. uppgangstímabilið frá 2005-2007, árin um og eftir hrun, frá 2008 til 2011 og endurreisnartímann frá 2012-2016. Helstu niðurstöður eru að
- Á heildina litið eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Árið 2016 voru lífskjör barna mæld í jafngildum ráðstöfunartekjum þau sjöundu bestu í Evrópu, lágtekjuhlutfallið það þriðja lægsta og hlutfall barna sem bjuggu á heimilum í fjárhagsþrengingum var það sjöunda lægsta. Þá voru börn undir lágtekjumörkum á Íslandi ekki mjög langt undir mörkunum samanborið við flest önnur Evrópulönd. Það bendir til þess að vandinn sé ekki óyfirstíganlegur ef grípa á til aðgerða til að draga úr fátækt á meðal barna.
- Þó heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst vandamál. Það brýnasta er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Einnig þarf að huga að börnum öryrkja.
- Staðan á húsnæðismarkaði hefur veruleg áhrif á lífskjör barna, sérleg barna einstæðra foreldra og öryrkja.
- Lífskjör barna versnuðu hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins og þrátt fyrir að lífskjör barna hafi batnað mikið eftir 2011 þá áttu börn lengra í land árið 2016 með að ná aftur lífskjörum ársins 2008 en aðrir hópar.
- Versnandi lífskjör barna á Íslandi í kreppunni skýrast að mestu af því að atvinnutekjur heimila þeirra lækkuðu. Félagslegar greiðslur á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur gerðu lítið til að draga úr áfallinu og raunar jók þróun barnabóta á vandann, ef eitthvað er.
- Batnandi lífskjör barna eftir að kreppunni lauk skýrast einnig að stærstu leyti af vaxandi atvinnutekjum heimila þeirra eftir að uppsveiflan hófst á ný. Aftur á móti vann þróun félagslegra greiðslna á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur á móti batanum.
- Það að þróun hverskyns fjölskyldubóta skyldi hafa þessi áhrif er í samræmi við það sem kemur fram í 2. kafla skýrslunnar, að það var dregið umtalsvert úr útgjöldum í tilfærslur til fjölskyldumála og dregið verulega úr stuðningi við barnafjölskyldur með breytingum á upphæðum fæðingarorlofsins og aukinni lágtekjumiðun og minna örlæti barnabóta. Áhrifin voru þó ekki sérlega mikil sem skýrist af því að barnabótakerfið var fremur lágtekjumiðað jafnvel fyrir hrun. Ekkert af framangreindu bendir til þess að það hafi verið sérstök áhersla á að vernda börn á Íslandi fyrir áhrifum kreppunnar né heldur að það hafi verið reynt að bæta lífskjör barna í gegnum tæki fjölskyldustefnunnar þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast.
- Árið 2016 stóð Ísland hinum Norðurlöndunum að baki hvað varðar útgjöld til barnabóta, fæðingar- og foreldraorlofs og til daggæslu og raunar var Ísland ekki í fremstu röð hvað varðar útgjöld til barnabóta og fæðingar- og foreldraorlofs í víðara samhengi Evrópulanda og réttindi til fæðingar- og foreldraorlofs allnokkuð frá því sem best gerist.
- Börn sem búa á heimilum sem eru í viðkvæmri stöðu, svo sem börn einstæðra foreldra, öryrkja og atvinnulausra, voru mun líklegri til að búa við fjárhagsþrengingar en börn á heimilum sem ekkert ofangreint á við um. Hlutfall barna sem bjuggu við fjárhagsþrengingar jókst líka mun meira hjá börnum sem bjuggu á heimilum í viðkvæmri stöðu en þeim sem gerðu það ekki. Þar stóðu börn á heimilum sem urðu fyrir atvinnuleysi útúr, sem bendir til þess að viðbrögð stjórnvalda við kreppunni hafi ekki náð að hlífa börnum við afleiðingum kreppunnar sem skyldi. Börn komu verr út en almenningur, börn í viðkvæmri stöðu verr en þau sem voru það ekki.
- Til að fá skýrari mynd af lífskjörum og fátækt barna í framtíðinni er brýnast að nýta betur fyrirliggjandi gögn til að varpa ljósi á viðfangsefnið, fá upplýsingar um mat barna á ýmsum lífsgæðum, afla upplýsinga um fatlaða og langveika og fjölskyldur þeirra sem og um innflytjendur og fjölskyldur þeirra, og að lokum um hvernig gæðum er skipt innan heimila.
Í lok skýrslunnar setur höfundur fram fjórar tillögur um að 1) Brúa umönnunarbilið 2)Auka tilfærslur til einstæðra foreldra 3) Ókeypis skólamáltíðir fyrir börn sem búa við fjárhagsþrengingar 4) Aukin niðurgreiðsla tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar. Einnig varnaðarorð um að gæta verði að hag öryrkja og fjölskyldna þeirra við breytingar á tilfærslukerfum.
Að kynningu lokinni fagnaði formaður Velferðarvaktarinnar útgáfunni „ Skýrslan er gott innlegg í samfélagsumræðuna um stöðu barna. Enn á ný er sýnt fram á að einstæðir foreldrar og börn þeirra eru viðkvæmasti hópurinn. Einnig fjölskyldur öryrkja. Bæta þarf stöðuna á húsnæðismarkaði til að létta á þessum hópum ásamt fleiri aðgerðum. Tillögur í skýrslunni beinast að því að bæta lífskjör barna á Íslandi og mest þessara viðkvæmustu hópa. Velferðarvaktin mun skoða þær og skýrsluna í heild á næstunni.“
Frekari upplýsingar um innihald skýrslunnar veitir Kolbeinn Stefánsson í netfangi kolbeinn (hjá) hi.is
Velferðarvaktin hvetur alla áhugasama til að kynna sér efni skýrslunnar. Hér er skýrslan í heild sinni:
Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Hún er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka og fylgir þeim eftir. Að velferðarvaktinni standa samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.