Hoppa yfir valmynd
16. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillögur Velfarðarvaktar um bætta stöðu barna

Velferðarvaktin lauk þann 3. september síðastliðinn yfirferð sinni á rannsóknarskýrslunni Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 sem Kolbeinn Stefánsson, félagsfræðingur, vann fyrir Velferðarvaktina og birt var 28. febrúar síðastliðinn.

Yfirferðin fólst meðal annars í sameiginlegri umfjöllun í báðum undirhópum vaktarinnar, en hóparnir fjalla annars vegar um málefni efnalítilla barnafjölskylda, sérlega einstæðra foreldra og barna þeirra og hins vegar þeirra sem búa við sára fátækt. Velferðarvaktin tekur undir meginefni tillagnanna sem fram koma í skýrslunni og gerir þær að sínum.

Þær eru að:

  • brúa umönnunarbilið frá því fæðingarorlofi lýkur þar til börn fá leikskólapláss
  • auka tilfærslur til einstæðra foreldra
  • tryggja að börn sem búa við fjárhagsþrengingar geti fengið ókeypis skólamáltíðir
  • auka niðurgreiðslur vegna tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar
  • bæta hag öryrkja og barna þeirra

Börn eiga tilkall til stuðnings

Börn sem búa við fátækt, bera ekki ábyrgð á sinni stöðu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki fátækt foreldra þeirra. Vegna þessa eiga börn mjög sterkt tilkall til stuðnings frá samborgurum sínum. Annað sem knýr á um að brugðist sé við er að fátækt í æsku hefur margvísleg áhrif á lífshlaup fólks. Dæmi eru um að fátækt og félagslegur vandi erfist milli kynslóða. Mikilvægt er að rjúfa slíkt meðal annars með auknum stuðningi og tilkomu svokallaðra málstjóra sem hafa reynst vel þegar taka þarf á flóknum vanda. Styðja þarf sérstaklega vel við skólagöngu barna. Góð skólaganga er lykill að bættum lífsgæðum og þarf sérlega að líta til barna sem búa við fátækt og barna innflytjenda í þessu tilliti.

Bæði ríki og sveitarfélög fjalli um tillögurnar

Velferðarvaktin beinir því til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, að vinna að framgangi tillagnanna sem fram koma í skýrslunni, en þeim er nánar lýst í kafla 4.4. Hefur Velferðarvaktin lagt til að félags- og barnamálaráðherra feli stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna að fjalla um tillögurnar. Sá hópur er vel til þess fallinn þar sem unnið verður að stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum barna undir forystu hans á næstu misserum. Í stýrihópnum eru fulltrúar þeirra lykilráðuneyta sem fjalla um málefni barna og með stýrihópnum starfar fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Velferðarvaktin óskar einnig eftir því að tillögurnar verði skoðaðar hjá öllum sveitarfélögum og hefur sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga erindi þess efnis. Þá leggur Velferðarvaktin til að þær verði skoðaðar í þeirri vinnu sem nú stendur yfir í stýrihópi um aðgerðir gegn sára fátækt barna og fjölskyldna þeirra á vegum velferðarráðs Reykjavíkurborgar og hefur komið því á framfæri við formann ráðsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta