Hoppa yfir valmynd
6. maí 2020

Fundur Velferðarvaktarinnar 6. maí 2020

39. fundur Velferðarvaktarinnar
Fjarfundur - með áherslu á Covid-19.

6. maí 2020


Þátttakendur: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá W.O.M.E.N., Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ásta Helgadóttir Umboðsmaður skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp, Dagbjört Höskuldsdóttir Landssambandi eldri borgara, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Eyþór Árnason frá ASÍ, Helen Símonardóttir frá Rauða krossinum, Ingvi Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Jón Ingi Cæsarson frá BSRB, Kristín Harðardóttir frá Samtökum atvinnulífsins, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sara Jasonardóttir frá umboðsmanni skuldara, Sesselja Guðmundsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Viðar Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ, Valgerður Bjarnadóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

---

1. Samtal við félags- og barnamálaráðherra
Fulltrúar Velferðarvaktarinnar fengu tækifæri til þess að koma á framfæri við Ásmund Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra því sem þeir telja að sé brýnast að leggja áherslu á í sumar og vetur vegna hópa í viðkvæmri stöðu í kjölfar Covid-19.

  • Hjálparstarf kirkjunnar – skjólstæðingum hefur fjölgað um 50%. Samstarf við Akureyri og Suðurnes er nú í undirbúningi en búist er við að staðan á Suðurnesjum verði sérstaklega erfið í haust. Hjálparstarfið býður börnum og fjölskyldum þeirra í sumarbúðir í sumar. Vakin var athygli á saumaverkefni fyrir erlendar konur – mikilvægt sé að koma því í gang aftur svo konurnar nái að viðhalda því tengslaneti sem þær hafa myndað.
  • ÖBÍ - benti á mikið álag á fötluð börn og fjölskyldur þeirra, skóla og frístundastarf hefur verið skert, auk ýmis þjónusta og stuðningur. Mikill kvíði er fyrir sumri og orlofsdagar búnir. Áhugi er fyrir því að gera könnun á högum barna og foreldra í kjölfar áhrifa Covid-19.
  • Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins – starfsemi er að færast í samt horf og skólahjúkrunarfræðingar á leið í skólana, en þeir eru beðnir um að vera vakandi fyrir ofbeldi og fræðsla er þar í forgangi. Á netspjalli heilsuveru.is er nokkuð um að fólki líður illa vegna ástandsins.
  • Embætti landlæknis -tekur undir með HH varðandi líðan fólks og mikill kvíði er fyrir haustinu. Áhyggjur eru af stöðu framhaldsskólanema. Áhyggjur eru af fólki með tvígreiningar, þar vantar samvinnu félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
  • Mannréttindaskrifstofa Íslands – bæði í innflytjenda- og kvennaráðgjöf eru áhyggjur af fjárhagslegri afkomu og því sem framundan er. Reynslan hefur sýnt að fólk leitar aðstoðar vegna ofbeldis síðar.
  • Barnaheill – mikilvægt að vel sé tekið utan um börn í sumar og að kostnaður verði ekki hindrun fyrir tekjulága. Ekki fara í niðurskurð í málefnum barna. Mikilvægt að vera á vaktinni í haust.
  • Reykjavíkurborg – áhyggjur eru af hópi sem er án bótaréttar og óvinnufær sá hópur hefur farið vaxandi. Skortur er á þjónustu fyrir óvinnufæra. Mikilvægt að styrkja barnavernd á næstunni.
  • Hjálpræðisherinn – mikil aðsókn í þjónustu. Nokkuð hefur verið um útlendinga/verkamenn sem hafa orðið innlyksa og eru í mikilli neyð.
  • Rauði krossinn – aukning hefur verið í hjálparsímanum, þyngri símtöl og fleiri símtöl um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum. Símtölum frá eldri borgurum hefur fjölgað. Gönguvinir eru í boði – reyna að vakta alla hópa.
  • Unicef – áhyggjur af börnum sem eru að sækja um alþjóðlega vernd. Hætt við að þessi hópur gleymist, utanumhald sveitarfélaga gengur misvel. Spurningakönnun til 3-18 ára ungmenna um Covid-19 leiddi margt jákvætt í ljós en hjá ungmennum 14+ voru verri niðurstöður og upplifun af afleiðingum Covid-19 verri. Huga þarf vel að langtímaáhrifum Covid-19.
  • Umboðsmaður barna – áhyggjur af brottfalli úr skóla og tómstundum. Áhyggjur af því að það halli á réttindi barna í þessum aðstæðum.
  • Landssamband eldri borgara – ekki setja alla eldri borgara undir einn hatt, margir hafa það gott en aðrir mjög slæmt, mikil hræðsla og einmanaleiki. Gera þarf athugun á kjörum eldri borgara af erlendum uppruna - eldri konur týnast í kerfinu.
    Eldri borgarar vilja orlofsuppbót eins og örorkulífeyrisþegar.
  • Umboðsmaður skuldara – meirihluti skjólstæðinga er á leigumarkaði, margir eru á uppsagnarfresti. Fólk er kvíðið fyrir því sem framundan er. Mikilvægt er að skoða húsnæðismálin – öruggar húsnæðisaðstæður eru grundvöllur fyrir allt annað. Mikilvægt að stjórnvöld geri langtímaáætlanir.
  • Þroskahjálp – áhyggjur af fötluðum börnum og aðstæðum foreldra. Margir foreldrar fatlaðra ungmenna sem eru orðin 18 ára þurfa að sinna þeim heima því starfsbrautir, frístund og skammtímadvalir eru lokaðar. Ráðuneytið þarf að hvetja sveitarfélög til þess að bjóða upp á þjónustu í sumar.
    Það er einnig mikilvægt að vernda störf AMS (Atvinna með stuðningi).
    Þrátt fyrir afléttingu banns mega fötluð börn ekki fara í íþróttir því þau mega ekki hafa fylgd – þetta þyrfti viðbragðshópur að skoða.
    Skoða þarf geðheilsuteymin, þau virðast ekki geta þjónustað fólk með þroskahömlun og einhverfu. Stór vandi sem þarf að taka á.
  • Kennarasamband Íslands – jákvæðar afleiðingar Covid-19 eru nýsköpun og ný hugsun. Vakin var athygli á viðtölum við kennara og skólastjórnendur á öllum skólastigum á vefsíðu sambandsins. Brotthvarf er síst meira nú en í venjulegu árferði, en gengið hefur verið lengra í að ná í nemendur í áhættuhópi. Helstu áskoranir nú eru velferð barna í viðkvæmum hópum, börn af erlendum uppruna. Námsgagnakostnaður barna og ungmenna í framhaldsskólum er einnig áhyggjuefni – hleypur á tugum þúsunda. Skólar eru besta jöfnunartækið í samfélaginu, því er mikilvægt að hlífa þeim.
  • W.O.M.E.N (Samtök kvenna af erlendum uppruna) - starfsemin er búin að vera í lágmarki vegna Covid. Áhyggjur af konum sem eru að leita aðstoðar vegna ofbeldis. Einnig mikið um fólk af erlendum uppruna sem er ekki lengur með vinnu og á ekki pening.
  • Pepp samtök fólks í fátækt – áhyggjur af minni mataraðstoð í júlí vegna sumarleyfa. Stór hluti þeirra sem sækja mataraðstoð eru öryrkjar. Börn og ungmenni sem búa við fátækt er hættara við brotthvarfi.

 

Ráðherra þakkaði góð innlegg. Mikilvægt væri að geta átt hreinskilið samtal við fulltrúana í Velferðarvaktinni um þessi brýnu mál, það hefur einnig tryggt að þjónustuskerðing hefur orðið minni en ella.
Ráðherra upplýsti að verið sé að bíða eftir að þingið afgreiði ýmis verkefni/aðgerðir sem munu hjálpa til, einkum núna í sumar. Mikilvægt sé þó að horfa til lengri tíma – það þarf að huga að endurreisn á félagslegum grunni. Viðbragðsteymið mun breytast í endurreisnarteymi.

2. Staðan í viðbragðsteymi
Þór Hauksson Reykdal, sérfræðingur á skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu, og María Kristjánsdóttir, félagsþjónustufulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, fóru yfir stöðuna í viðbragðsteyminu.
Nýjasta stöðuskýrslan er komin út þar sem meðal annars kemur fram að ekki hafi orðið rof í þjónustu. María upplýsti að aukning hafi orðið í umsóknum um fjárhagsaðstoð, einnig frá fólki sem á ekki rétt. Þá sé aukinn þungi kominn í mál.

Erna Kristín Blöndal, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, ræddi næstu skref, sem eru að fara úr viðbrögðum í viðspyrnu. Það breytist margt í haust, það þarf að fylgjast vel með, horfa á heildarmynd í þjónustu, stöðuna á vinnumarkaðnum, og passa upp á viðkvæma hópa.


Næsti fundur verður haldinn 27. maí kl. 14.00.
Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta