Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölmennt málþing Velferðarvaktarinnar um stöðu tekjuminni hópa á húsnæðismarkaði

Frá málþingi Velferðarvaktarinnar í dag.  - mynd

Velferðarvaktin stóð fyrir fjölmennu málþingi í dag sem bar yfirskriftina Tjaldað til einnar nætur? Þar var fjallað um stöðu tekjuminni hópa á húsnæðismarkaði.

Erfiðleikar á húsnæðismarkaði og einkum aðstæður þeirra sem búa við það óöryggi sem fylgir því að eiga í húsnæðisvanda, hafa lengi verið til umræðu í samfélaginu. Markmiðið með málþinginu var að fá fram raunsæja mynd af stöðunni og ræða hvernig bregðast megi við henni. Málþinginu var streymt – sjá upptöku hér að neðan. 

„Við höfum áhyggjur af húsnæðismarkaðnum á Íslandi í dag. Of hátt húsnæðisverð, allt of há leiga, of mikið af óboðlegu húsnæði og of langir biðlistar, eru verkefni sem þarf að vinna hratt á. Á sama tíma sjáum við mikinn samdrátt í uppbyggingu húsnæðis. Oft var þörf, en nú er nauðsyn. Allir verða að leggjast á eitt til að mæta þessu áskorunum,“ segir Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, héldu erindi á málþinginu þar sem upplýst var um stöðu og eftirfylgni rammasamnings um húsnæðisuppbyggingu sem undirritaður var í júlí 2022.

Lífið á leigumarkaði 

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, fjallaði um stöðuna á leigumarkaði og kynnti einnig niðurstöður könnunar á stöðu leigjenda sem framkvæmd var í maí sl. Ragnar Þór Ingólfsson fór yfir stöðuna hjá Bjargi íbúðafélagi, sem ætlað er að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar, sagði frá því hvernig staðan á húsnæðismarkaði hefur áhrif á þann hóp sem höllustum fæti stendur og þarf að leita aðstoðar hjálparsamtaka. 

Margvísleg erindi og umræður á borðum

Þórólfur Júlían Dagsson, stofnandi hóps heimilislausra Íslendinga, flutti erindi á málþinginu og María Pétursdóttir, formaður húsnæðismálahóps ÖBÍ réttindasamtaka, kynnti nýja skýrslu samtakanna um húsnæðismál fatlaðs fólks. 

Þá voru fluttar nokkrar örsögur en þær sannar sögur fólks sem félagsráðgjafar tóku saman í tilefni Alþjóðadags félagsráðgjafar fyrr á þessu ári og lýsa afar vel þeim veruleika sem tekjulágir hópar búa við á Íslandi í dag.

Að loknum erindum fóru fram umræður á borðum þar sem gestum gafst kostur á að ræða þær upplýsingar sem fram komu í erindum dagsins og ræða hvaða úrbætur væru brýnastar. 

 

 

Á málþinginu í dag.

 

Umræður á borðum.

 

Málin rædd á málþinginu í dag.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta