Fyrirspurn um ritfangakostnað barnafjölskyldna
Nýlega var vakin athygli á því að eitt af stærri sveitarfélögum landsins standi að stefnubreytingu vegna kostnaðar við grunnskólagöngu frá og með næsta hausti. Í tilefni þessa var eftirfarandi fyrirspurn send til að grennslast fyrir um málið:
Ágæti bæjarstjóri, bæjarfulltrúar, fulltrúar og áheyrnarfulltrúar í fræðsluráði.
Vakin hefur verið athygli Velferðarvaktar á stefnubreytingu hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem sveitarfélagið hyggst láta barnafjölskyldur standa á ný að kostnaði vegna ritfanga grunnskólabarna. Slíkur kostnaður var afnuminn á sínum tíma.
Í fundargerð fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar frá 25. október sl. kemur fram: „Fræðsluráð samþykkir að gera breytingar á innkaupum á ritföngum og leggur til að frá og með næsta hausti mun grunnskólinn útvega allar vinnubækur og pappír en börn komi sjálf með ritföng, tryggt verður að til verði ritföng í skólunum ef börn koma ekki með með sér.“
Velferðarvaktin, sem fylgist m.a. með velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, fjallaði um þessi mál á sínum tíma og hvatti til þess að kostnaður barnafjölskyldna vegna ritfanga og pappírs yrði almennt afnuminn hjá sveitarfélögum landsins. Í framhaldinu var kostnaður afnuminn hjá 99% grunnskólabarna. Þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbær hyggist tryggja börnum sem ekki koma með ritföng með sér, ritföng á staðnum, getur slíkt sett börn í flókna og erfiða stöðu gagnvart öðrum. Gera má ráð fyrir því að börn sem ekki koma með ritföng í skólann komi frá efnaminni fjölskyldum og upplifi því jaðarsetningu með stefnubreytingunni. Almennt má segja að nú sé reynt að stefna að því að minnka kostnað barnafjölskyldna vegna skólagöngu með boðuðu frumvarpi stjórnvalda.
Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
- Hver eru rökin á bak við breytingar á fyrri stefnu um að skólinn útvegi grunnskólabörnum í Hafnarfjarðarbæ ritföng?
- Hve há fjárhæð sparast í rekstri grunnskólans með stefnubreytingunni í krónum talið alls, sem og brotið niður á hvert grunnskólabarn í Hafnarfjarðarbæ?
- Hvernig hyggst Hafnarfjarðarbær fyrirbyggja að börn, sem ekki koma með ritföng í skólann, upplifi jaðarsetningu?
Óskað er svara fyrir 9. ágúst nk.