Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 27. mars 2009
Mætt: Lára Björnsdóttir formaður (LB) fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra, Ása Ólafsdóttir, tiln. af dómsmálaráðuneyti, Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB), tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS), tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Páll Ólafsson, tiln. af Bandalagi háskólamanna, Sigurrós Kristinsdóttir (SK), tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, og Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, auk Þorbjarnar Guðmundssonar (ÞG) og Ingibjargar Broddadóttur (IB) starfsmanna.
1. Fundargerðir 4. og 5. fundar stýrihópsins
Fundargerðir samþykktar.
2. Áfangaskýrslan
Skýrslan lögð fram. GS benti á að betur þyrfti að koma fram í punkti 8 í tillögunum að um væri að ræða að þjónustustig heilsugæslunnar yrði ekki skert og verður það leiðrétt.
LB greindi frá að hún hefði fengið góð viðbrögð frá fulltrúum í vinnuhópunum um kynninguna sem fram fór á skýrslunni á síðasta fundi stýrihópsins, 20. mars sl., og hafi gestir fundarins verið ánægðir með að fá umfjöllun um hana áður en hún var kynnt út á við. Á hinn bóginn hefði komið fram innan stýrihópsins að betra hefði verið að fara fyrst yfir skýrsluna innan hópsins og að helstu niðurstöður væru ekki nógu skýrt framsettar. LB lagði áherslu á að mikilvægt væri að sem flestir kæmu að borðinu og af því tilefni hefðu vinnuhóparnir verið stofnaðir sem hefðu lagt fram mikla vinnu og góðar skýrslur á undra skömmum tíma. Allt verkið hefði verið unnið undir mikilli tímapressu og hafa verði hugfast að einungis sé um áfangaskýrslu að ræða.
LB upplýsti enn fremur að skýrslan hefði verið kynnt stýrihópi um velferð og almannaþjónustu, 23. mars sl., en í honum sitja menntamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra, þingmennirnir Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Þuríður Backman, auk félags- og tryggingaráðherra sem leiðir hópinn. Tók hópurinn almennt vel undir tillögur skýrslunnar og munu þær flestar birtast í heildstæðri aðgerðaáætlun sem kynnt verður innan skamms. Áætlun stýrihóps ráðherranna verður send stýrihópi velferðarvaktarinnar um leið og hún hefur verið kynnt.
3. Starfið framundan
Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn starfi áfram og einnig vinnuhóparnir. Meginverkefni vaktarinnar verður áfram að fylgjast með afleiðingum efnahagsástandsins á fjölskyldur og heimili. Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar varðandi einstaka tillögur velferðarvaktarinnar sem settar eru fram í áfangaskýrslu stýrihópsins er gert ráð fyrir að velferðarvaktin fái þær aftur til sín og fari yfir með hvaða hætti megi koma þeim í framkvæmd, en einhverjar tillagnanna fara beint til hlutaðeigandi ráðuneyta.
Fyrir liggur að farið verður af stað með undirbúning að gerð félagsvísa og samþykkt hefur verið að fá Sigríði Jónsdóttur félagsfræðing, Ellý A. Þorsteinsdóttur, skrifstofustjóra á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, og Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóra á Menntasviði borgarinnar, til að koma á næsta fund og ræða um söfnun tölulegra upplýsinga í tengslum við fyrstu skrefin við undirbúning að gerð félagsvísa.
Ljóst er að mótvægissjóður velferðarvaktarinnar verður að veruleika og munu reglur sjóðsins verða samdar hið fyrsta.
4. Önnur mál
LB vakti athygli á reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, hvatti fólk til að kynna sér hana og vekja athygli annarra á henni. Í reglugerðinni er að finna heimildir til að stunda nám á atvinnuleysisbótum, það er styttri námskeið, starfstengd úrræði, námsúrræði, atvinnutengda endurhæfingu og ráðgjöf.
Rætt var um samræmingu á starfsemi frjálsra félagasamtaka og að íþróttafélögin gætu tekið að sér verkefni í þessu sambandi.
Næsti fundur verður föstudaginn 3. apríl, 2009 kl. 14.00-16.00.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.