Hoppa yfir valmynd
24.11.2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 24. nóvember

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Eiríkur Jónsson, tiln. af KÍ, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Gissur Pétursson, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Guðrún Ögmundsdóttir frá menntamálaráðuneyti, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Héðinn Unnsteinsson frá heilbrigðisráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir tiln. af viðskiptaráðuneyti, Matthías Halldórsson tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Rafn Sigurðsson tiln. af fjármálaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Ásthildur Knútsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Í upphafi bauð formaður Gissur Pétursson forstjóra Vinnumálastofnunar velkominn í hópinn.

1.Kynning á niðurstöðum rannsóknar um tilkynningar til barnaverndarnefnda

Halldór S. Guðmundson, lektor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, kynnti helstu niðurstöður könnunar Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Félags- og tryggingamálaráðuneytið gerði samning við setrið um þessa könnun fyrir hönd velferðarvaktarinnar, sbr. ályktun vaktarinnar frá 12. júní 2009.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:

  • Á landinu öllu hefur tilkynningum til barnaverndar á árunum 2005–2009 fjölgað um 20–32% á fyrstu sex mánuðunum hvers árs, nema árið 2008 þegar þeim fækkaði.
  • Sú fjölgun sem varð á tilkynningum til barnaverndar fyrri hluta árs 2009 er því sambærileg við fjölgun á undanförnum árum, að frátöldu árinu 2008.
  • Ekkert í gögnum bendir til að fjölgun tilkynninga fyrri hluta árs 2009 sé afleiðing efnahagsþrenginga eða aukins atvinnuleysis í kjölfar efnahagskreppunnar. Svo virðist sem ástæður hennar séu þær sömu og fyrir aukningu undanfarin ár.
  • Samkvæmt sískráningu er ekki að sjá meginbreytingar milli ára á eðli þess vanda sem tilkynntur er eða hverjir það eru sem tilkynna til barnaverndar á fyrstu mánuðum áranna 2005–2009.

Helstu tillögur rannsakanda eru:

  • Við sískráningu barnaverndarnefnda verði bætt upplýsingum um atvinnustöðu/fjölskyldustöðu beggja foreldra barna sem tilkynnt er um og gerð er könnun á.
  • Stýrihópur velferðarvaktarinnar leiti samstarfs við Barnaverndarstofu um að halda sérstaklega utan um og birta á þriggja mánaða fresti yfirlit um fjölda umsókna um úrræði á vegum Barnaverndarstofu og fjölda barna sem ráðstafað er í fóstur. Tilgangur þess væri að nema breytingar og vekja umræðu um fósturráðstafanir barna sem úrræði við atvinnu-, fjárhagslegum og/eða persónubundnum vanda fjölskyldna.
  • Stýrihópur velferðarvaktarinnar kalli sérstaklega eftir samstarfi við sveitarfélögin um að hraða úrvinnslu og skilum á ársskýrslum til Barnaverndarstofu. Þannig fengist fyrr en ella yfirlit um þróun mála og möguleiki til að bregðast við.
  • Stýrihópur velferðarvaktarinnar efni til og/eða beini því til sveitarfélaga á landsvísu að beita sér fyrir umræðu meðal starfsfólks og nefndarmanna barnaverndar um önnur úrræði, sbr. reynslu Finna um tengsl atvinnuleysis og fósturvistana.

Einnig var rætt um 2. áfanga rannsóknarinnar.
Samþykkt að fjalla nánar um niðurstöðurnar á næsta fundi stýrihópsins.

2. Framhaldsskólakönnun menntamálaráðuneytis kynnt

Guðrún Ögmundsdóttir kynnti niðurstöður nýrrar könnunar menntamálaráðuneytisins: Velferðarvísar í framhaldsskólum. Könnunin var framkvæmd á þann hátt að 30 skólastjórnendur voru meðal annars spurðir um skólasókn, fjármál og félagsstarf. Einnig var sérstaklega spurt um nemendur af erlendum uppruna. Almennt virðist ástand gott meðal framhaldsskólanema samkvæmt skólastjórnendum og er gert ráð fyrir að könnunin verði endurtekin á hverri önn framvegis.

3. Málstofa velferðarvaktarinnar um úrræði og aðgerðir fyrir ungt fólk án atvinnu í Reykjanesbæ

Málstofan tókst vel og sóttu hana um 50 manns. Fundargerðum vinnuhópanna þriggja var dreift á fundi stýrihópsins. Samþykkt var að velferðarvaktin sendi frá sér ályktun til félags- og tryggingamálaráðherra um úrræði og aðgerðir fyrir ungt fólk án atvinnu. Ingibjörg og Lára setji saman ályktun og sendi hópnum til skoðunar og samþykktar.

Næsti fundur verður haldinn 8. desember. Fundarstaður verður kynntur síðar.

Fundargerð skráði Ingibjörg Broddadóttir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta