Hoppa yfir valmynd
07.09.2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 7. september 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Einar Jón Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Stefán Stefánsson, tiln af menntamálaráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, Margrét Erlendsdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Í upphafi fundar bauð formaður Guðrúnu Eyjólfsdóttur, nýjan fulltrúa Samtaka atvinnulífsins, og Einar Jón Ólafsson, fulltrúa heilbrigðisráðuneytis, velkomin í hópinn.

1. Fundargerð

Fundargerð 33. fundar samþykkt.

Umræður í framhaldi af fundargerð

Rætt um bréf velferðarvaktarinnar til sveitarfélaga um velferð barna í skólum í upphafi skólaárs og skort á starfsfólki

  • Stella mun fylgja bréfinu eftir hjá borginni.
  • Rætt um að stuðningsnet við börn í skólum hafi hugsanlega veikst og starfsfólki fækkað vegna samdráttar hjá sveitarfélögunum. Þetta gæti leitt til aukins eineltis í skólum og tímabært sé að fá stöðumat frá skólunum frá Börnin í borginni, Kópavogi og hugsanlega fleiri.
  • Greint frá því að Reykjavíkurborg, Efling og Mímir vinni nú saman að því að kynna fyrir ungu atvinnulausu fólki hvað felist í þessum störfum hjá skólunum.
  • Rætt um langan vinnudag foreldra og samspil fjölskyldu- og atvinnulífs. Skiptar skoðanir eru um hvort tímabært sé að hvetja til styttri vinnudags út frá þörfum barna og fjölskyldulífs.
  • Rætt um aðstæður þeirra sem verst eru settir; stöðu fátækra einstæðra mæðra meðal annars á vinnumarkaði. Dæmi eru einnig um aldrað fólk sem er illa statt fjárhagslega og aldraða sem eru í mikilli þjónustuþörf, en slíkar aðstæður leiði til aukins álags á fjölskyldur þeirra.
  • Lagt til að fara sérstaklega yfir stöðu jaðarhópanna/þeirra sem verst standa og stóðu verst fyrir kreppu.

2. Tilraunaverkefni – hvernig má sporna við neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis á ungt fólk

Samstarfsverkefni í Reykjavík
Stefán Stefánsson greindi frá verkefninu sem velferðarvaktin ýtti úr vör í nóvember 2009. Markmið verkefnisins var ekki síst að styrkja samstarf Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar í þágu ungs atvinnulauss fólks með virkri þátttöku fjölmarga annarra, svo sem fræðslusmiðstöðvanna. Drög að skýrslu verkefnisstjóra liggja fyrir og mun skýrslunni verða dreift til stýrihópsins þegar aðilar verkefnisins hafa farið yfir hana. Þegar velferðarvaktin tók ákvörðun um að hefja tilraunaverkefnið var um ár liðið frá efnahagshruninu og atvinnuleysi hafði nær fjórfaldast. Skömmu síðar hófst mjög kraftmikið starf Vinnumálastofnunar undir heitinu Ungt fólk til athafna sem skaraðist að hluta til við þetta tilraunaverkefni. Í starfinu komu ýmsir samstarfshnökrar í ljós, sem draga má lærdóm af, og verður nánar fjallað um þegar skýrslan liggur fyrir.

3. Að tveimur árum liðnum frá efnahagshruni – viðbrögð velferðarvaktarinnar

ÞG hóf máls á því að tímabært sé að taka stöðuna nú að tveimur árum liðnum frá bankahruni og kanna hverjar séu afleiðingar kreppunnar. Miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu og nauðsynlegt að leggja mat á hvað sé á jákvæðri leið og hvað á neikvæðri leið. Meðal annars var rætt um eftirfarandi:

  • Greining á ástandinu þarf að fara fram og í framhaldi ætti velferðarvaktin að setja fram framtíðarsýn.
  • Tími skammtímaviðbragða er liðinn – þörf er á varanlegum lausnum.
  • Virkja ætti vinnuhópana á ný.
  • Huga að aðstæðum atvinnulausra á aldrinum 58–65 ára og horfast í augu við að til séu fátæk gamalmenni á Íslandi.
  • Hópur ungs fólks er í skuldafjötrum og mun verða næstu 40 árin.

Niðurstaða umræðunnar: Samþykkt að endurvekja vinnuhópana og stefna að því að sömu formenn haldi áfram. Fá fræðasamfélagið til liðs við vinnuhópana og skilgreina vel hvert verði verkefni þeirra. Framkvæmdahópur vaktarinnar (LB, IB, ÞG) vinni að þessu og undirbúi samhliða starfsdaginn

4. Önnur mál

Starfsdagurinn
Starfsdagurinn verður haldinn 21. september nk. Sjónum verður einkum beint að verklagi velferðarvaktarinnar framundan.

Fundatíminn í vetur
Fastir fundir stýrihópsins verða áfram annan hvern þriðjudag kl. 14.00–16.00.

Næsti fundur verður haldinn 21. september nk.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta