Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 23. nóvember 2010
Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Lovísa Ósk Þrastardóttir, varamaður Ástu Sigrúnar Helgadóttur, án tiln., Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gyða Hjartardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln af RKÍ, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af menntamálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttur, tiln. af Reykjavíkurborg, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, og Ingibjörg Broddadóttir, starfsmaður vaktarinnar.
Gunnlaugur Júlíusson, hagfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Haukur Haraldsson, sálfræðingur hjá Hafnarfjarðarkaupstað, sátu einnig fundinn.
1. Fundargerð
Fundargerð 39. fundar var samþykkt.
2. Velferðarþjónusta, fjárhagsstaða og hagræðingaraðgerðir sveitarfélaganna
Gyða Hjartardóttir og Gunnlaugur Júlíusson lögðu fram yfirlit yfir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og niðurskurð á árinu 2011 með yfirliti yfir hagræðingaraðgerðir í rekstri grunnskóla*. Tekjur margra sveitarfélaga hafa dregist saman og útgjöld aukist, meðal annars vegna aukinnar þjónustu og álagningar tryggingagjalds. Mest af þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita telst til grunnþjónustu og litlir möguleikar eru á að stækka tekjurammann. Fram kom að ef ríkið grípur til þess að skerða húsaleigubætur munu sveitarfélögin ekki geta tekið á sig afleiðingar þess. Eitt sveitarfélag stendur sýnu verst fjárhagslega en eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur kallað eftir upplýsingum frá tólf sveitarfélögum. Bent var á að það eru bæði fjölmenn og fámenn sveitarfélög sem standa illa.
3. Þjónusta við börn og ungmenni í Hafnarfirði
Haukur Haraldsson fjallaði um „stöðu barna og unglinga í þorpinu Hafnarfirði á krepputímum"**. Hann greindi frá að starfsmenn sveitarfélagsins byggðu, svo sem kostur væri, áætlanir sínar og stefnumótun í þjónustu við börn og ungmenni á niðurstöðum rannsókna. Samráðshópar hafa verið stofnaðir til að standa vörð um velferð barna: a) almannaheillahópur þar sem saman vinna fulltrúar félagsþjónustu, lögreglu, kirkju og heilsugæslu auk forvarnafulltrúa og fulltrúa Rauða krossins og skólakerfisins b) líðan hópur sem stofnaður var í kjölfar aukinnar tíðni sjálfsvíga meðal ungs fólks og c) jarðsambandshópur sem miðlar upplýsingum og samhæfir aðgerðir annarra hópa. Mikil áhersla er lögð á samvinnu og samstarf og nota Hafnfirðingar líkingu við kóngulóarvef í þessu sambandi.
4. Áfangaskýrsla starfshóps um fátækt í Reykjavík
Stella K. Víðisdóttir kynnti nýútkomna áfangaskýrslu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um fátækt***. Í skýrslunni er að finna skilgreiningar og mælingar á fátækt, sérstaka umfjöllun um fátækt á Íslandi og um fjárhagsaðstoð Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Einnig er fjallað um stöðu atvinnuleitenda og lífeyrisþega og dæmi sett fram um ráðstöfunartekjur einstaklinga sem búa við mismunandi aðstæður og úrræði í boði af hálfu ríkis, borgar og félagasamtaka.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.
Fylgiskjöl:
* http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/20380
* * http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/20379
*** http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/20393