Hoppa yfir valmynd
29.03.2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 29. mars 2011

Fundargerð 48. fundar, haldinn hjá Vinnumálastofnun, Kringlunni 1, Reykjavík
þriðjudaginn 29. mars 2011, kl. 14.00–16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Einar Jón Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Gissur Pétursson, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln af Samtökum atvinnulífsins, Gyða Hjartardóttir, varamaður Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar, tiln af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Hulda Dóra Styrmisdóttir, varamaður Stellu K. Víðisdóttur, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Þorbjörn Guðmundsson, Ingibjörg Broddadóttir og Lovísa Lilliendahl verkefnisstjóri samstarfsverkefnis velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum.

1. Fundargerðir
Fundargerð 47. fundar var samþykkt.

Í umræðum um 2. lið fundargerðarinnar þar sem fjallað var um starfsemi smálánafyrirtækja var greint frá því að formaður velferðarvaktarinnar hafi sent efnahags- og viðskiptaráðuneyti bréf, dags. 23. mars sl. þar sem greint var frá afstöðu velferðarvaktarinnar, sbr. umræður á fundinum. Orðalag bréfsins var ekki borið undir stýrihópinn áður en það var sent út, en bréfið er að finna á slóð vaktarinnar: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/32734

2. Atvinnumál - kynning á starfsemi Vinnumálastofnunar
Gissur Pétursson forstjóri og sviðsstjórarnir Karl Sigurðsson og Hrafnhildur Tómasdóttir kynntu starfsemi Vinnumálastofnunar.

Stofnunin hefur fengið nýtt skipurit sem tók gildi 15. mars sl. og skiptist hún í fjögur svið, en þjónustuskrifstofurnar, átta talsins, eru dreifðar um landið. Í höfuðstöðvunum er enn fremur umsjón með tveimur mikilvægum úrræðum: Ungt fólk til athafna (UFTA) sem ætlað er fólki á aldrinum 16–29 ára og Þekking og reynsla (ÞOR), sem er fyrir 30 ára og eldri, svo og teymi um framkvæmd Atvinnu með stuðningi (AMS) og um Eures. Stofnuninni bárust um 50.000 umsóknir á síðastliðnum tveimur árum en virkir viðskiptavinir eru nú um 15.000. Um 30 starfsmenn starfa á Skagaströnd en þar er unnið úr umsóknunum. Nánar má lesa um kynninguna hér: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/32731 Fulltrúi Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar gerði athugasemd við það að vinnuframlag starfsmanna AMS við öflun atvinnutækifæra væri samtímis nýtt þágu fólks með fötlun og annarra sem eru í atvinnuleit. Þetta geti leitt til þess að fólk með fötlun faí síður atvinnurækifæri. Þessir starfsmenn AMS voru áður starfsmenn svæðisskrifstofa um málefni fatlaðar. 

Heildarfjöldi sem kom á atvinnuleysiskrá á árinu 2010 var samtals 31.353 einstaklingar, en að meðaltali voru 14.503 skráðir atvinnulausir á því ári, þar af 8.249 karlar og 6.254 konur. Að jafnaði voru 2.378 manns í úrræðum á mánuði á árinu 2010, þar af 3.87 karlar og 992 konur. Heildarþátttaka í úrræðum var 12.771 en heildarfjöldi einstaklinga var ríflega 9.000 þar sem sumir tóku þátt í fleiri en einu úrræði. Ef litið er á þátttökuna sem hlutfall af fjölda án atvinnu á skrá þá tóku um 40% þátt í úrræðum og er hlutfallsleg þátttaka yngstu hópanna mest eða 54% hjá 16–24 ára og 42% hjá 25–29 ára.

Ráðherranefnd vinnur nú að tillögum um aðgerðir í mennta- og atvinnumálum ungs fólks og hugar sérstaklega að starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum. Þá er í gangi samstarf milli Vinnumálastofnunar og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um úrræði fyrir ungt fólk í atvinnuleit sem ekki á rétt til atvinnuleysisbóta.

Í umræðum í framhaldi var rætt um mikilvægi þess að kynna vel fyrir fólki að hætta ekki í verkalýðsfélögum við missi atvinnu og leitast við að tryggja, ef kostur er, að fólkið haldi áfram að greiða gjöld sín til verkalýðsfélaganna. Óskað var eftir því að Vinnumálastofnun afli upplýsinga um fjölda þeirra sem velja að hætta að greiða félagsgjöld þegar þeir missa vinnuna.

Rætt var um vísbendingar um að tiltekinn hópur kvenna skrái sig ekki á atvinnuleysisskrá í kjölfar uppsagnar. Ekki er vitað um umfang þessa en félagsvísar gætu náð yfir þetta að einhverju leyti. Fram kom að Starfsmennt og Vinnumálastofnun ætli að kanna þetta sérstaklega.

Að lokum var fjallað almennt um ástandið og að enn sé samdráttur í atvinnulífinu.

Sjá má tölur um atvinnuleysi hér: http://www.vinnumalastofnun.is/

Fundargerð
ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta