Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 15. nóvember 2011
Formaður bauð tvo nýja fulltrúa velkomna í hópinn, þær Brynju Dögg Guðmundsdóttur Briem varamann Ástu S. Helgadóttur, umboðsmanns skuldara, og Fanneyju Karlsdóttur varamann Kristjáns Sturlusonar, Rauða krossi Íslands.
1. Fundargerð
Fundargerðir 56. fundar var samþykkt.
2. Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum
Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, kynnti reglugerðina sem gefin var út á degi gegn einelti 21. október 2011. Við gerð reglugerðarinnar var áhersla lögð á víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Reglugerðinni er ætlað víðtækt hlutverk hvað varðar skólabrag, agamál, eineltismál, ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í þeim efnum og málsmeðferð þegar misbrestur verður. Markmið reglugerðarinnar er meðal annars að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. Hér er má finna regluferðina: http://www.menntamalaraduneyti.is/log-og-reglugerdir/
3. Félagsþjónustuskýrsla Sambands íslenskra sveitarfélaga
Gyða Hjartardóttir, félagsþjónustufulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, kynnti fyrstu heildstæðu skýrslu sambandsins um félagsþjónustu sveitarfélaga. Skýrslan er umfangsmikil og fjallar um alla helstu þætti félagsþjónustunnar og barnaverndar.
Í umræðum í framhaldi kom fram að á síðastliðnu ári var stofnuð nefnd á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fjallar sérstaklega um félagsþjónustu og samtímis var ráðinn félagsþjónustufulltrúi. Við það urðu þáttaskil í starfi sambandsins og hefur málaflokkurinn fengið meira vægi í umræðum á þeim vettvangi og verðskuldaða athygli.
4. Velferðarvaktin á Facebook
Lovísa Lilliendahl greindi frá athugun á hvort og með hvaða hætti velferðarvaktin gæti farið á Facebook. Í framhaldi var samþykkt að velferðarvaktin færi á
Facebook í tilraunaskyni og mun Lovísa halda utan um verkefnið. Samþykkt var hópur sem standi að baki facebook og í honum verða auk Lovísu, Gyða Hjartardóttir, Garðar Hilmarsson, Guðríður Ólafsdóttir og Brynja Dögg Briem.
Næsti fundur verður 29. nóvember næstkomandi hjá Samtökum atvinnulífsins.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.