Hoppa yfir valmynd
14.02.2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 14. febrúar 2012

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Björg Bjarnadóttir, tiln. af KÍ, Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem, varamaður Ástu Sigrúnar Helgadóttur, umboðsmanns skuldara, Fanney Karlsdóttir, tiln. af Rauða krossi Íslands, Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Gyða Hjartardóttir, varamaður hans, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af velferðarráðherra, Ellý Alda Þorsteindóttir, varamaður Stellu K. Víðisdóttur, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, og Páll Ólafsson, varamaður hennar, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Þorbjörn Guðmundsson, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir.

Gestir á fundinum voru: Margrét Þórarinsdóttir frá Biskupsstofu, Stefán Baldursson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðmundur Sigmarsson frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Katrín S.D. Ólafsdóttir og Guðbjörg S. Bergsdóttir frá ríkislögreglustjóra, Margrét Þórarinsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Margrét Gunnarsdóttir frá Vinnumálastofnun, Guðrún Kr. Guðfinnsdóttir frá embætti landlæknis, Halla Björk Marteinsdóttir frá Barnaverndarstofu, Börkur Hansen og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir frá Háskóla Íslands, Kristinn Karlsson og Sigríður Vilhjálmsdóttir frá Hagstofu Íslands, Ingunn S. Þorsteinsdóttir frá ASÍ, Sigríður Jónsdóttir, Þór G. Þórarinsson, Sveinn Magnússon, Íris Björg Kristjánsdóttir, Þorgerður Benediktsdóttir, Vilborg Ingólfsdóttir, Rósa G. Bergþórsdóttir, Margrét Björk Svavarsdóttir og Anna Lilja Gunnarsdóttir frá velferðarráðuneyti.

Kynning á nýrri skýrslu um félagsvísa.
Lára Björnsdóttir bauð fulltrúa velferðarvaktarinnar og gesti velkomna til þessa tímamótafundar þar sem ný skýrsla um félagsvísa var kynnt. Verkefnið var unnið að frumkvæði og í umsjón velferðarvaktarinnar sem lagði til við velferðarráðherra árið 2009 að fengnir yrðu sérfræðingar til að setja saman íslenska félagsvísa. Tillagan var kynnt í ríkisstjórn og samþykkt að ráðast í slíka vinnu á vegum velferðarvaktarinnar undir stjórn Margrétar Sæmundsdóttur, fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í velferðarvaktinni, og Sigríðar Jónsdóttur frá velferðarráðuneyti. Stofnaðir voru sex vinnuhópar um eftirtalin viðfangsefni: Afkomu, félags- og menntaþætti, fjármál heimilanna, heilbrigðismál, lýðfræði og vinnumarkað. Enn fremur var stofnaður rýnihópur með fulltrúum háskólasamfélagsins. Alls komu um 20 stofnanir að gerð félagsvísanna. Allir forstöðumenn stofnana sem leitað var til veittu góðfúslega leyfi til að sérfræðingar þeirra legðu sitt af mörkum og náðist afar gott samstarf um þetta flókna verkefni. Án þessa framlags hefðu félagsvísarnir ekki orðið að veruleika. Þakkaði formaður velferðarvaktarinnar þetta góða framlag. Enn fremur greindi Lára frá því að velferðarvaktin leggur ríka áherslu á að þessu verki verði viðhaldið og það þróað áfram í samræmi við þarfir og kröfur á hverjum tíma og nauðsynlegt væri að fela tiltekinni stofnun þetta verkefni til frambúðar.

Sigríður Jónsdóttir kynnti félagsvísana og greindi frá vinnunni við verkið undanfarin tæp þrjú ár.

Megintilgangur félagsvísa er að birta á einum stað safn tölulegra upplýsinga til að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Lögð er áhersla á að birta tölur um tiltekna hópa þegar það á við og þegar því er við komið. Má þar nefnda áhrif opinberra aðgerða og þjóðfélagsbreytinga á einstaklinga og þjóðfélagshópa á ólíkum aldri, af ólíku kyni og einnig að draga fram stöðu þeirra sem verst standa í samfélaginu hverju sinni. Uppsetning félagsvísanna er í samræmi við verklag hjá OECD (Society at a Glance).

Félagsvísarnir eiga að einfalda aðgengi almennings, stjórnvalda, hagsmunaaðila og rannsakenda að skilgreindum upplýsingum sem varpa ljósi á þjóðfélagsástandið á hverjum tíma. Þeir eiga jafnframt að styðja við stefnumótun stjórnvalda.
Tímarammi félagsvísanna er 10 ár (2001–2010) ef tiltækar samræmdar eru upplýsingar eru fyrir hendi 10 ár aftur í tímann.

Skýrslunni um félagsvísa er skipt í fjóra meginkafla:

Lýðfræði: Fjallað er um samsetningu þjóðarinnar og um bakgrunnsbreytur fyrir sértækari vísa sem koma fram í köflunum um jöfnuð, sjálfbærni, heilsu og samheldni.
Jöfnuður: Hér er að finna vísa um tekjur, eignir, skuldir og húsnæðisstöðu heimila eftir fjölskyldugerð, kyni og aldri þegar það á við. Vísar um jöfnuð eiga að greina hvernig efnahagslegum gæðum er dreift í samfélaginu og varpa ljósi á stöðu þeirra hópa sem verst eru settir efnahagslega í samfélaginu.
Sjálfbærni: Í kaflanum eru vísar um fjölda barna í leikskólum, frammistöðu í grunnskólum, skólasókn og brautskráningar á framhalds- og háskólastigi, vinnumarkaðinn, félagsaðstoð, örorku- og ellilífeyrisþega og útgjöld. Vísum um sjálfbærni er ætlað að mæla þátttöku og virkni fólks í samfélaginu.
Heilsa: Hér er að finna vísa um heilsu barna, heilsugæslu, lyfjanotkun, áhættuþætti, göngudeildir og innlagnir, aldraða í hjúkrunarrýmum og útgjöld. Heilsuvísum er ætlað að gefa mynd af heilsufari þjóðar í ljósi félagslegra og efnahagslegra aðstæðna og lífsstíls fólks.
Samheldni: Í kaflanum eru birtir vísar um viðhorf fólks, þátttöku barna í íþróttum og tómstundum, samveru barna og foreldra, áhættuhegðun, afbrot og útgjöld. Vísum um samheldni er ætlað að mæla viðhorf og traust í samfélaginu, félagslega þátttöku og áhættuhegðun barna og unglinga. Einnig eru þeir mikilvægir vegvísar um hvar þörf er á forvarnaaðgerðum.

Í framhaldi af kynningu Sigríðar voru fóru fram áhugaverðar og uppbyggilegar samræður og þakkaði ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins fyrir gott verk og upplýsti einnig hún hefði orðið vör við mikinn áhuga samstarfsaðila erlendis á störfum velferðarvaktarinnar.
Í lok fundar var samþykkt að óska eftir því að velferðarráðherra kynni skýrsluna í ríkisstjórn og að félagsvísunum verði fundinn samastaður til frambúðar. Það er mat velferðarvaktarinnar að eitt stöðugildi sérfræðings sé nauðsynlegt til að viðhalda verkinu með viðunandi hætti.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta