Hoppa yfir valmynd
25.06.2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 25. júní 2013

Mætt:

Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ingibjörg Broddadóttir, velferðarráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir tiln. af Reykjavíkurborg, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Hermann Ottósson frá Rauða krossinum á Íslandi, Hrefna Óskarsdóttir varam. Guðríðar Ólafsdóttur tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Salbjörg Bjarnadóttir varam. Landlæknis, Björg Bjarnadóttir tiln. af Kennarasambandi Íslands, Unnar Stefánsson tiln. af Landssambandi aldraðra, Þórhildur Þorleifsdóttir tiln. af velferðarráðherra, Valgerður Halldórsdóttir tiln. af Bandalagi háskólamanna, Ragnheiður Bóasdóttir tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Gunnar R. Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Margrét Steinarsdóttir, tiln. af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ásta Sigrún Helgadóttir, tiln. af Umboðsmanni skuldara, Svanborg Sigmarsdóttir frá Umboðsmanni skuldara, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Páll Ólafsson frá Barnaverndarstofu, Kristín Ástgeirsdóttir og Hugrún Hjaltadóttir frá Jafnréttisstofu, Hera Ósk Einarsdóttir frá Reykjanesbæ, Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður nefndarinnarog Lovísa Lilliendahl, velferðarráðuneyti og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar sem ritaði fundargerð.

1.    83. og 85. fundargerðir samþykktar.


2.    Heimsókn Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, nýr félags- og húsnæðismálaráðherra, kom á fundinn og lýsti yfir ánægju með störf velferðarvaktarinnar. Ráðherra lét í ljós þá skoðun að vaktin ætti að halda áfram störfum þar sem þar komi fram fjölbreytt sjónarmið varðandi hin ýmsu mál og ábendingar um hvað betur megi fara. Það má hinsvegar ekki gleyma að benda einnig á hvað vel sé gert.

Á fundinum kynnti ráðherra sín helstu áherslumál en skulda- og húsnæðismál eru í forgangi. Tryggja þurfi lausn til framtíðar varðandi húsnæðismarkaðinn en mikilvægt sé að fólk búi við öryggi og hafi val um í hverskonar rekstrarformi það býr í. Einnig þurfi að fara fram heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu og málum er snúa að skuldavanda heimilanna.

Ráðherra hefur sett af stað vinnu við fjölskyldustefnu. Bent var á að slík stefna hefði verið gerð á sínum tíma og verður hún nýtt við þessa vinnu ásamt öðrum fyrirliggjandi gögnum og skýrslum. Fjölskyldustefnan mun taka til allra þeirra þátta er snúa að fjölskyldunni t.d. fjölskyldurformi, fjölbreytileika, jafnrétti, efnahag, félagslegri stöðu og svo frv. Fram kom að hlúa verði vel að þeim hópi sem oft vill sitja eftir eins og til dæmis einstæðingar, erlendar konur og fleiri sem hafa ekki bakland eða annað stuðningsnet. Peningar eru oft ekki lausnin heldur verður að vinna betur með hvern og einn einstakling. Vonast er til þess að drög að fjölskyldustefnunni geti farið fyrir þingið fyrir jól.

Ráðherra benti einnig á að það þyrfti að nýta betur þann kraft sem býr innan allra frjálsu félagasamtakanna eða þriðja geirans svokallaða. Þriðji geirinn er að sinna velferðarþjónustu á margan hátt en mikilvægt sé að koma á meiri samhæfingu og jafnvægi innan hans.

Ráðherra lauk máli sínu með því að fullyrða að vörður yrði staðinn um  velferðina og að mikil samstaða ríkti meðal þeirra sem færu með þau mál. Vinna, vöxtur, velferð er það samspil sem hafa þarf að leiðarljósi til þess að bæta og viðhalda öflugu samfélagi.  

Í umræðum fögnuðu fulltrúar vaktarinnar því að nýr ráðherra ætlaði sér að setja fjölskyldumálin á oddinn. Fram kom að við gerð fjölskyldustefnu þyrfti að líta til margra þátta og voru nefnd dæmi eins og að reyna að tengja betur saman fjölskylduna og atvinnulífið, taka tillit til breytt fjölskylduforms, umönnun aldraðra foreldra og fleira sem oft reynist erfitt að samræma.

Fram kom að mikilvægt væri að hraða niðurstöðu varðandi hvernig greiða eigi úr húsnæðisvandanum. Mörg dæmi séu um að fólk eigi í verulegum vandræðum því það geti hvorki keypt né leigt húsnæði. Margir skjólstæðinga Umboðsmanns skuldara eiga í þessum vanda sem farinn er að koma niður á andlegri líðan þeirra. Fram kom að það væri tilefni til þess að gera rannsókn á líðan fólks í greiðsluaðlögun.

Tekið var undir skoðun ráðherra á mikilvægi þriðja geirans og bent var á að hann væri vannýttur sem er mjög miður vegna þess að innan hans hafa skapast fjölmargar hugmyndir og nýsköpunarverkefni.

Ráðherra var hvött til þess að rannsaka betur aðstæður kvenna og draga þær fram í dagsljósið.

Lára sagði frá fundi hennar og Ingibjargar með ráðherra um framtíð velferðarvaktarinnar þar sem fram kom vilji ráðherrans til að halda starfinu áfram. Þó væri æskilegt að fá nýtt umboð í haust frá öllum aðilum. Fulltrúar í vaktinni voru sammála um að það mætti jafnvel endurskoða hvaða aðilar eiga að eiga fulltrúa í vaktinni. Í framhaldinu kom á ný upp sú umræða hvort velferðarvaktin væri nægjanlega sýnileg úti í samfélaginu. Bent var á að sýnileiki hefði aldrei verið markmiðið með velferðarvaktinni en hinsvegar væri mikilvægt að fulltrúar vaktarinnar stæðu sig vel í að koma upplýsingum og öðru sem fram fer í velferðarvaktinni heim í sitt bakland.  

3.    Fréttir frá ráðstefnu ESN (European Social Network)

Ingibjörg sagði frá ráðstefnu sem hún sótti í Dublin í júní sl. Þar var hún með kynningu á störfum velferðarvaktarinnar sem vakti mikla athygli, þó sérstaklega verklag vaktarinnar og vinnan við félagsvísana.
Á ráðstefnunni kom meðal annars fram að eitt helsta áhyggjuefnið í Evrópu um þessar mundir er atvinnuleysi unga fólksins, einkum þeirra sem hvorki eru virk í námi né starfsþjálfun.

4.    Staða skýrslu velferðarvaktarinnar 2013

Minnt var á skýrslu velferðarvaktarinnar en hóparnir eiga að vera búnir að skila inn innleggi fyrir 8. ágúst.
·    Lagt var til að hlutur sveitarfélaga í skýrslunni fengi meira vægi og var samþykkt að Gunnar, Gyða og Stella tæku að sér þennan hluta skýrslunnar.
·    Bætt verður við kafla er varðar öldrunarmál og mun Unnar sjá um það.
·    Lagt var til að skrifaður yrði sérstakur pistill um húsnæðisvandann.

5.    Önnur mál

·    Lára sagði frá góðum fundum í Árborg og á Akureyri. Á báðum stöðum komu fyrst og fremst fram áhyggjur af heilsugæslunni og þá sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu.
Ekki meira rætt og fundi slitið.
Næsti fundur velferðarvaktarinnar verður haldinn í ágúst.

Fundargerð ritaði Lovísa Lilliendahl.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta