Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 15. október 2013
1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð 88. fundar var samþykkt með örfáum breytingum. Rætt var um heimsókn landlæknis á síðasta fundi en hann greindi frá því að heilbrigðismálin væru almennt í lagi hér á landi en þó væri ekki hægt að líta framhjá vandanum sem steðjar að Landspítalanum en sá vandi er enn óleystur.
2. Kynning á fjárlögum 2014
Dagný Brynjólfsdóttir staðgengill skrifstofustjóra í velferðarráðuneyti og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í velferðarráðuneyti kynntu fjárlögin 2014. Í kynningu Dagnýjar kom meðal annars fram að velferðarráðuneytið væri með um helming útgjalda ríkissjóðs en tryggingamál (almannatryggingar) eru þar stærsti hlutinn. Dagný fór m.a. yfir fyrirhugaðar breytingar á útgjöldum sem fela í sér niðurfelldar tímabundnar heimildir, aðahaldskröfur og fl. Aðhaldskrafan mun mikið til fara fram í gegnum gjaldtöku, sameiningar, hagkvæmari innkaup, breytingar í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og fl. Þá verður verulega dregið úr framlögum til Vinnumálastofnunar sem farið hafa í átaksverkefni.
Í umræðum komu m.a. fram áhyggjur af fyrirhuguðum legugjöldum en þau munu koma sér illa fyrir efnaminni einstaklinga. Margir eru nú þegar í skuld við heilbrigðisstofnanir og eru farnir að veigra sér við að leita til læknis. Í framhaldi af því var rætt um hvort réttmætt væri að senda slíkar skuldir í innheimtu. Bent var á að útfærslu á legugjöldum væri ekki lokið og sennilega myndu þeir sem oftar þurfa að leggjast á sjúkrahús greiða minna en hinir.
Lýst var yfir áhyggjum af niðurskurði til Vinnumálastofnunar vegna átaksverkefna. Mikilvægt sé að missa ekki sjónar á þeim einstaklingum sem eru á atvinnuleysisskrá og að þeim sé haldið í virkni af einhverju tagi. Þá komu fram áhyggjur af því hvað yrði um þann hóp sem er að ljúka bótarétti og einnig þyrfti að huga að erlenda hópnum sem á oft minni rétt til bóta. Einnig var bent á að ekki sé rétt að atvinnuleysi sé að fara niður á við þar sem einstaklingar í átaksverkefnum væru ekki taldir til atvinnulausra.
Rætt var um að í fjárlagafrumvarpinu kæmi fram að efla ætti heilsugæsluna m.a. í gegnum þjónustustýringu og þjónustusíma. Einnig kom frá hjá Sveini og Dagný að reyna ætti að draga úr notkun ávanabindandi lyfja eins og t.d. Ritalin en notkun þess hefur aukist meðal fullorðinna og sömuleiðis misnotkun. Fram kom að það vantaði í umræðuna hvað hægt sé að gera annað en að taka lyf og hvort ætti ekki að leggja meiri áherslu á forvarnir. Það verða litlar framfarir hjá einstaklingum sem eru einangraðir og þunglyndir og fá einungis lyf og hafa svo ekkert annað fyrir stafni. Það þarf að skoða betur kostnað við forvarnir á móti kostnaði við ávísun lyfja.
Bent var á að margir bótaþegar hefðu ekki efni á því að leysa út lyf, leita sér læknis- og tannlæknaþjónustu, kaupa hjálpartæki og ýmsa þjálfun. Þessi þjónusta hefur hækkað sem gengur ekki upp á sama tíma og verið er að skerða bætur.
Rætt var um að það kæmi ekki skýrt fram í fjárlögum hvað lífeyrisþegar megi vinna mikið án þess að bætur skerðist. Það þarf a.m.k. að breyta því fyrirkomulagi sem er í dag.
Ákveðið var að velferðarvaktin myndi ekki álykta um fyrirhugað legugjald þar sem ekki væri rétt að taka einungis þann eina þátt út úr frumvarpinu. Áhrifaríkara væri að koma þessu og öðrum athugasemdum til skila í gegnum skýrslu vaktarinnar.
Lagt var til að fá Pétur Blöndal á fund vaktarinnar en hann fer fyrir nefnd um heildarendurskoðun á greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu.
3. Önnur mál
Skýrsla – Skýrsla velferðarvaktarinnar er enn í vinnslu og þeir sem eiga eftir að skila inn efni voru minntir á það.
Ekki meira rætt og fundi slitið.