Hoppa yfir valmynd
20.04.2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð velferðarvaktarinnar 20. apríl 2015

Fundargerð

7. fundur velferðarvaktarinnar
20. apríl 2015
Umboðsmaður skuldara

Viðstödd: Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Viðar Helgason, tiln. af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Hjálparstarfi kirkjunnar, Sólveig Hjaltadóttir, tiln. af Tryggingastofnun ríkisins, Lovísa Arnardóttir, tiln. af UNICEF, Guðni Olgeirsson, tiln. af mennta- og menningarmálaráðneytinu, Eðvald Einar Stefánsson, tiln. af umboðsmanni barna, Ásgerður Jóna Flosadóttir, tiln. af Fjölskylduhjálp Íslands, Ingigerður Jenný Ingudóttir, tiln. af Heimili og skóla, landssamtökum foreldra, Hrafnhildur Tómasdóttir, tiln. af Vinnumálastofnun, Margrét Steinarsdóttir, tiln. af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Gyða Hjartardóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Nína Helgadóttir varam. Þóris Guðmundssonar, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Sigþrúður Guðmundsdóttir, tiln. af Samtökum um kvennaathvarf, Þórður Hjaltested, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Svanborg Sigmarsdóttir varam. Ástu S. Helgadóttur, tiln. af Umboðsmanni skuldara, Anna Rós Jóhannsdóttir, tiln. af Félagi fagfólks í fjölskyldumeðferð, Ellý A. Þorsteinsdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg og Lovísa Lilliendahl, starfsmaður velferðarvaktarinnar, sem ritaði fundargerð.

Gestir: Tryggvi Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Anna E. Sæmundsdóttir og Sigrún Friðfinnsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins.

Dagskrá fundar:

1. Búseturskerðingar

2. Kynning frá Tryggingarstofnun ríkisins

3. Næstu skref í starfinu

Siv bauð gesti velkomna og hóf fundinn á að segja frá því að skýrsla velferðarvaktarinnar hefði verið kynnt víða í stofnunum og meðal embættismanna. Einnig hefur skýrslan vakið athygli fjölmiðla.

Búsetuskerðingar
Tryggvi Þórhallsson og Margrét Steinarsdóttir fjölluðu um búsetuskerðingar. Fjöldi Íslendinga sem búið hafa erlendis sem og einstaklingar af erlendum uppruna eru stækkandi hópur á fjárhagsaðstoð vegna búsetuskerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þessi staða samræmist ekki upprunalegum hugmyndum um fjárhagsaðstoð og því tilefni til þess að skoða betur og finna út hvernig bregðast eigi við. Reglur varðandi þetta eru ólíkar í nágrannalöndunum. Mikilvægt er að geta brugðist rétt við og þá skiptir máli að geta greint hópinn betur en sveitarfélögin hafa hingað til ekki haldið sérstaklega utan um þessa þróun. Hagstofan gæti gefið upplýsingar.

Bakgrunnur þessara einstaklinga er ólíkur, þetta eru t.d. Íslendingar sem hafa verið búsettir lengi erlendis, útlendingar sem flust hafa hingað til lands vegna vinnu (sumir komnir á ellilífeyri), fjölskyldusameiningar, mannúðarástæður og svo frv. Þarna á meðal er einnig týndur hópur sem sækir ekki um og einangrast. Staða þessara einstaklinga getur líka verið ólík eftir því hvort þeir standi innan EES eða utan. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki þessa umræðu heildstætt og skoði hvað hægt sé að laga í kerfinu til þess að bæta úr þessari stöðu. Bent var á Jónsmessunefndina í þessu samhengi en Jónsmessunefndin er samstarfsnefnd um samskipti ríkis og sveitarfélaga á grunni samstarfssáttmála þessara aðila. Tilgangur hennar er að auka traust og formfestu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, bæta stjórnsýslu hins opinbera og efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörfum hvors aðila fyrir sig.

Fara þarf varlega í að greina þennan hóp og mikilvægt er að allar upplýsingar séu réttar þannig að umræðan fari ekki á villigötur. Fulltrúar á fundinum voru sammála um að velferðarvaktin ætti að skoða þetta nánar og koma með hugmyndir um hvernig bæta eigi úr þessari stöðu. Sárafátæktarhópurinn gæti mögulega byrjað á að skoða þetta nánar.


Kynning frá Tryggingastofnun ríkisins

Sólveig Hjaltadóttir kynnti starfsemi stofnunarinnar og þá þjónustu sem býðst einstaklingum sem eiga í fjárhagserfiðleikum m.a. sérstaka uppbót sem lyftir einstaklingum upp í lágmarksframfærslu, þetta á einnig við um þá sem eru búsetuskertir. Fram kom að einstaklingar á endurhæfingarlífeyri eru stærstur hluti þeirra sem veitt er þessi sérstaka uppbót.
Þá kynnti Sigrún Friðfinnsdóttir sérstaka þjónustu sem stendur mjög veikum einstaklingum til boða. Í henni felst m.a. aðstoð við að halda fjármálunum á réttu róli og sækja um sinn rétt. Þetta hafa verið u.þ.b. 30 einstaklingar á ári en gætu verið fleiri ef markvisst yrði reynt að ná til þeirra. Þessi þjónusta er í anda 5. tillögu úr síðustu skýrslu Velferðarvaktarinnar frá 28. janúar um samhæfingaraðila máls.

Næstu skref
Formaður bað fulltrúa um að koma á framfæri því sem þeir teldu eiga erindi við vaktina og eftirfarandi kom m.a. fram:

· Ellý benti á að Reykjavíkurborg er búin að gera góða greiningu á þjónustu við börn og barnafjölskyldur í Reykjavík. Einnig er að koma út rannsókn á vegum RBF (Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd) á aðstæðum barnafjölskyldna.

· Guðni kom með tillögu hvort barnahópurinn gæti mögulega skoðað „leikskóla að loknu fæðingarorlofi“ en áhugavert væri að skoða hvað slíkt myndi kosta fyrir ríki og sveitarfélög samanborið við þær leiðir sem eru farnar. Þetta mál hefur verið skoðað á grundvelli þingsályktunartillögu.

· Vilborg benti á að skoða þyrfti stöðu ungmenna sem ekki komast í framhaldsskóla vegna greininga, neyslu og fl. Geta sveitarfélögin aðstoðað þessa einstaklinga við að komast í nám við hæfi?

Næsti fundur verður haldinn 31. ágúst í velferðarráðuneytinu. Lagt var til að undirhóparnir myndu halda a.m.k. einn fund fyrir sumarleyfi.
Á næsta fund er hugmyndin að fá Kolbein Stefánsson frá Hagstofunni til þess að ræða og skoða betur hópana tvo sem vaktin er að leggja áherslu á, hvernig mætti skoða betur samsetningu þeirra og svo frv.
Einnig var rætt um að Agnar Helgason kæmi á fundinn og kynnti samanburð á kreppuviðbrögðum Íslands og Írlands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta