Fundur Velferðarvaktarinnar 29. nóvember 2017
22. fundur Velferðarvaktarinnar
Haldinn í velferðarráðuneytinu 29. nóvember 2017 kl. 9.00-12.00
Mætt: Siv Friðleifsdóttir formaður, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Sólveig Hjaltadóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Garðar Hilmarsson frá BSRB, Gústaf A. Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Erla Ósk Guðjónsdóttir frá Menntamálastofnun, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eðvald E. Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Sigurrós Kristinsdóttir frá ASÍ, Nína Helgadóttir frá RKÍ, Guðni Olgeirsson frá mennta- og menningarmálaráðaneytinu, Sigurrós Gunnarsdóttir frá Sjónarhóli, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Sigurður Jónsson frá Landsambandi eldri borgara, Sigþrúður Guðmundsdóttir frá Kvennaathvarfinu, Sara Jasonardóttir frá Umboðsmanni skuldara, Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ, Ásta Dís Guðjónsdóttir frá PEPP-samtökunum, Margrét J. Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Jenný Ingudóttir frá Heimili og skóla, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.
1. Kynning á rannsóknarskýrslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar: Kortlagning á fjölda og högum utangarðsfólks í Reykjavík.
Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir og Erla Björg Sigurðardóttir kynntu niðurstöður rannsóknarskýrslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. http://reykjavik.is/frettir/hagir-utangardsfolks-i-reykjavik Þátttakendur í gerð rannsóknarskýrslu voru starfsmenn þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar, Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands, Samhjálp, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Fangelsismálastofnun og SÁÁ sem ýmist þjónusta utangarðsfólk og/eða þekkja vel til aðstæðna þeirra.
Meginniðurstaða var sú að þeir sem eru heimililausir eru með heilbrigðisvanda (geðræn vandamál og vímuefnavandamál). Heilbrigðisvandinn mun aukast ef ekkert verður gert. Ungur hópur er mikið áhyggjuefni.
Rætt var um að nauðsynlegt væri að stöðva þessa þróun. Efna þyrfti til meira samstarfs á milli allra viðkomandi aðila og ná heildarsýn á stöðuna. Niðurstöður skýrslunnar ríma við niðurstöður skýrslunnar um sárafátækt þ.e. þeir verst settu eru alla jafna að glíma við mikinn heilsubrest.
Lagt var til að sárafátæktarhópur taki boltann og komi með tillögur um aðgerðir.
2. Tillögur til þess að koma í veg fyrir brotthvarf úr námi
Salbjörg Bjarnadóttir, formaður barnahóps kynnti tillögur hópsins vegna brotthvarfs úr námi og voru þær ræddar.
3. Kynningar frá Kolbeini Stefánssyni, félagsfræðingi:
a) Sérhefti félagsvísa 2017
Hagstofan er að undirbúa útgáfu tveggja sérhefta félagsvísa fyrir lok árs 2017. Áherslan er á vinnumarkaðinn en fyrra heftið varðar umfang vaktavinnu á Íslandi en vaktavinna hefur áhrif á ýmsa þætti svo sem samspil vinnu og heimilis, heilsufar og líðan fólks í starfi. Seinna heftið fjallar um ungt fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. NEET). Heftin munu sýna þróunina yfir tíma, setja stöðuna á Íslandi í evrópskt samhengi og greina bakgrunnsþætti sem kunna að hafa áhrif.
b) Rannsókn á lífskjörum og fátækt barna.
EDDA öndvegissetur við Háskóla Íslands mun vinna rannsókn á lífskjörum og fátækt barna á Íslandi fyrir Velferðarvaktina á grundvelli evrópsku lífskjararannsóknarinnar. Megin afurð rannsóknarinnar verður skýrsla sem mun innihalda nýjar mælingar úr lífskjararannsókninni sem hafa ekki birst áður á Íslandi. Staða barna á Íslandi verður borin saman við stöðu annarra þjóðfélagshópa og stöðu barna í öðrum Evrópulöndum en einnig verður munurinn á milli ólíkra hópa barna greindur og helstu áhrifaþættir á lífskjör barna metnir. Þá verður bent á hvaða upplýsingar skortir til að bæta reglubundna gagnasöfnun sem varpar ljósi á lífskjör barna. https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/velferdarvaktin/frettir/stok-frett-velferdarvaktar/2017/11/06/-Rannsokn-a-lifskjorum-og-fataekt-barna-/
4. Fréttir úr baklandinu
Fulltrúar Velferðarvaktar sögðu stuttlega frá stöðunni í baklandinu.
5. Önnur mál
Formaður hyggst bjóða nýjum ráðherra á næsta fund vaktarinnar sem haldinn verður í lok janúar nk.