Fundur Velferðarvaktarinnar 30. janúar 2018
23. fundur Velferðarvakarinnar
Haldinn í velferðarráðuneytinu 30. janúar 2018, kl.9.00-12.00
1. Skýrsla um hagi utangarðsfólks í Reykjavík
Vilborg Oddsdóttir, formaður sárafátæktarhópsins, kynnti umfjöllun hópsins um skýrslu Reykjavíkurborgar um hagi utangarðsfólks í Reykjavík.
http://reykjavik.is/frettir/hagir-utangardsfolks-i-reykjavik
2. Viðbrögð Sambands íslenskra framhaldsskólanema við tillögum um brotthvarf
Davíð Snær Jónsson, formaður og Einar Hrafn Árnason, varaformaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema kynntu viðbrögð sambandsins við tillögum Velferðarvaktar frá 29. nóvember 2017 um brotthvarf. https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/velferdarvaktin/frettir/stok-frett-velferdarvaktar/2017/11/30/Tillogur-Velferdarvaktarinnar-gegn-brotthvarfi-nemenda-ur-framhaldsskolum/
Í máli Davíðs og Einars kom m.a. fram
- Íslenskir námsmenn vinna mikið miðað við námsmenn erlendis. Meira er um styrki á Norðurlöndunum. Gott væri að taka upp styrkjakerfi til að sporna við brotthvarfi. Því þyrfti hins vegar að fylgja fjármálalæsi.
- Hér á landi er meira um kvíða og þunglyndi meðal námsmanna. Sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum er mikið hagsmunamál.
- Smálán eru algeng meðal nemenda.
- Nám og heimanám er íþyngjandi og hefur öfug áhrif. Finnar tóku t.d. út heimanám, styttu skóladaginn og leggja meiri áherslu á hreyfingu og menningu.
- Hinsegin fræðslu er ábótavant.
- Bæta þarf aðgengi fatlaðra, í sumum framhaldsskólum er ófullnægjandi aðgengi fyrir fatlaða. Þarf að skoða stöðu fatlaðra innan framhaldsskólanna.
- Kostnaður við skólabækur er allt of hár. Verk- og iðnnámi fylgir einnig mikill kostnaður.
- Þátttaka í ákvarðanatöku er mikilvæg. Í Finnlandi er í lögum að við vinnslu nýrra laga um framhaldsskóla verði að hafa samráð við sambönd framhaldsskólanema.
- Það þarf sér úrræði fyrir erlenda nemendur.
- Náms- og starfsráðgjöf er ekki fullnægjandi, nemendur þurfa að fá betri menningarfræðslu.
3. Örstutt umræða um tvö mál:
a) Viðbrögð við samantekt Velferðarvaktar frá 27. desember 2017 um kostnaðarþátttöku barna í ritföngum og pappír í grunnskóla
Alls búa nú að minnsta kosti 94% grunnskólanemenda landsins, í sveitarfélögum þar sem búið er að taka ákvörðun um að afnema kostnaðarþátttöku vegna námsgagna á næsta skólaári, 2018-2019. https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/velferdarvaktin/frettir/stok-frett-velferdarvaktar/2017/12/27/Kostnadarthatttaka-afnumin-hja-94-grunnskolabarna/
b) Eftirfylgni við tillögu Velferðarvaktar frá 11. apríl 2017 vegna Þróunarsjóðs innflytjendamála.
Velferðarvaktin: Nýtt nafn sjóðsins gæti þar af leiðandi orðið Þróunarsjóður innflytjenda- og flóttamannamála. Reglur sjóðsins verði endurskoðaðar í samræmi við útvíkkun á hlutverki sjóðsins. Samhliða auknu hlutverki sjóðsins verði stofnframlag hans tvöfaldað úr 10 milljónum króna í a.m.k. 20 milljónir króna.
Ársskýrsla innflytjendaráðs 2017 (útg. jan. 2018): Innflytjendaráð telur tímabært og mikilvægt að hækka fjárhæð sjóðsins sem hefur verið sú sama frá stofnun hans, enda hefur fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi fjölgað umtalsvert á liðnum árum eins og sést á mynd 1. Ef stofnframlag sjóðsins er reiknað miðað við vísitölu neysluverðs frá árinu 2007 til dagsins í dag ætti árlegt framlag til hans að vera 17 milljónir kr. Þróunarsjóðurinn er eini sjóðurinn sem leggur sérstaka áherslu á fjölmenningarsamfélagið og er því mikilvægur til að stuðla að rannsóknum og þróun varðandi málefni innflytjenda og samfélagsins. Verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt hafa leitt til þekkingarauka og reynslu sem vert er að hlúa að. Jafnframt hafa afleiður verkefnanna oft verið samfélaginu til hagsbóta.
Innflytjendaráð telur afar brýnt að styrkja stöðu sjóðsins og leggur því til að stofnframlag hans verði hækkað í 20 milljónir kr.
4. Neyslurými fyrir langt leidda vímuefnaneytendur
Gestir undir þessum lið voru: Einar Magnússon, lyfjamálastjóri í velferðarráðuneytinu, Regína Ásvaldsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Svala Jóhannesdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi og Ingibjörg Sveinsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Í máli Svölu Jóhannesdóttur, verkefnastýru Frú Ragnheiðar, kom fram að neyslurými sem sett hafa verið á laggirnar erlendis hafa gefið góða raun þegar kemur að persónulegum, samfélagslegum og fjárhagslegum ávinningi. Rætt var um að opnun neyslurýma væri mikið samfélagsmál og mjög umdeilt að setja slíka starfsemi á laggirnar. Farin er af stað vinna við að skoða möguleikana á að setja upp neyslurými á höfuðborgarsvæðinu.
5. Heimsókn félags- og jafnréttismálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra settist með fulltrúum og lagði áherslu á mikilvægi samstarfs á þeim vettvangi sem Velferðarvaktin er. Ráðherra sagði frá því að hans helstu áherslumál væru börn og fátækt. Stjórnarsáttmálinn kveður á um að bregðast eigi við fátækt. Þá sé þörf á bæði kerfisbreytingu og stefnubreytingu í málefnum barna.
Fulltrúar vaktarinnar upplýstu ráðherra um það helsta sem brennur á í þeirra störfum s.s. fátækt barna, ungt fólk í greiðsluvanda, jaðarsettir hópar (innflytjendabörn og fötluð börn), ungt fólk á örorku, áhyggjur af börnum sem búa við geðrænan vanda foreldra, mikilvægi snemmtækrar íhlutunar o.fl.
Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.