Hoppa yfir valmynd
15.05.2018

Fundur Velferðarvaktarinnar 15. maí 2018

25. fundur Velferðarvaktarinnar

Haldinn í velferðarráðuneytinu 15. maí 2018 kl. 9.00-11.30.

Viðstaddir: Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, Margrét J. Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Angelique Kelley frá W.O.M.E.N, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigurrós Kristinsdóttir frá ASÍ, Eðvald Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Nína Helgadóttir frá RKÍ, Ásta S. Helgadóttir frá Umboðsmanni skuldara, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ásta Dís Guðjónsdóttir frá PEPP-samtökum, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Sigurrós Gunnarsdóttir frá Sjónarhóli, Steinunn Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Sesselja Guðmundsdóttir frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ingvi Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Sigrún Þórarinsdóttir frá Samandi íslenskra sveitarfélaga, Jóna Pálsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Eva Bjarnadóttir frá Unicef og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.

---

Formaður hóf fundinn á að kynna tvo nýja fulltrúa í Velferðarvaktinni, þau Sesselju Guðmundsdóttur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Ingva Skjaldarson frá Hjálpræðishernum.

1. Umræða um úrræði fyrir börn í fíknivanda
Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra, ræddu um viðbrögð stjórnvalda vegna barna í fíknivanda.

Iðunn upplýsti að heilbrigðisráðherra væri að fara yfir þessi mál og að á næstu dögum myndi ráðherra eiga fund með fulltrúum SÁÁ og landlækni. Í júní væri einnig fyrirhugað að halda vinnustofu með ýmsum aðilum sem koma að þessum málaflokki meðal annars LSH, Embætti landlæknis, heilsugæslunni, SÁÁ, Umboðsmanni barna, Barnaverndarstofu, Olnbogabörnum o.fl.

Aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra upplýsti að í undirbúningi væri bygging nýs meðferðarheimilis fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda. Einnig væri verið að skoða í samvinnu við sveitarfélög og Barnaverndarstofu búsetuúrræði fyrir börn sem lokið hafa meðferð. Þá er hafin vinna við stefnumótun í barnavernd til 2030 sem unnin er af ráðgjafafyrirtækinu Expectus. Í ráðuneytinu er einnig búið að setja af stað heildarendurskoðun á þjónustu við börn með áherslu á snemmtæka íhlutun en umsjón með því verkefni hefur Erna Kristín Blöndal.

Í framhaldinu fóru fram umræður m.a. um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og eflingu forvarnarstarfs, geðheilbrigðismál barna, skort á meiri stuðningsþjónustu í skólakerfinu og stuðning við foreldra veikra barna. Einnig var rætt um að það þyrfti betri stuðning í skólakerfinu við börn af erlendum uppruna. Vísað var til SIMBA ráðstefnunnar í maí sl. sem miðaði sérstaklega að snemmtækri í hlutun í málefnum barna en ráðstefnan þótti almennt takast mjög vel.

2. Fréttir úr baklandinu
Fulltrúar fóru yfir það helsta sem er að gerast á þeirra sviði. Það sem kom meðal annars fram:

  • Áhyggjur af fjármálum ungs fólks en algengt er að ungt fólk sé að steypa sér í miklar skuldir. Smálánafyrirtæki koma þar oft við sögu og brýnt sé að fara í meiri forvarnarvinnu og leggja áherslu á fjármálafræðslu.
  • Rætt var um að það vantaði hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólana en fram hefur komið að margir framhaldsskólanemar upplifa mikinn kvíða, streitu og vanlíðan. Mikilvægt sé að bregðast við geðheilbrigðisvanda barna og unglinga.
  • Rætt var um þjónustu við börn af erlendum uppruna og sérstaklega við börn hælisleitenda en hún getur verið mismunandi meðal sveitarfélaga annars vegar og Útlendingastofnunar hins vegar. Í þessu samhengi var einnig rætt um jafna stöðu flóttafólks hvað þjónustu varðar.
  • Fram kom að atvinnuleysi er að dragast saman meðal Íslendinga en aukast meðal erlendra íbúa.
  • Verið er að endurútgefa bæklinginn „Réttur þinn“ sem er upplýsingabæklingur fyrir erlenda ríkisborgara á Íslandi. Einnig verður gefinn út á næstunni bæklingurinn „Réttarstaða aldraðra“.
  • Fram komu áhyggjur af einkavæðingu grunnþjónustu.
  • Upplýst var um að fleiri sveitarfélög væru komin í samstarf við Bjarg íbúðafélag um byggingu íbúðahúsnæðis þar sem leiguverð miðast við u.þ.b. 25% af ráðstöfunartekjum.
  • Sagt var frá því að verið væri að leggja áherslu á innleiðingu Barnasáttmálans sem víðast og að nokkur sveitarfélög teljist nú „barnvæn sveitarfélög“ að mati Unicef.
  • Sagt var frá nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk. Í kjölfar kosninga verða haldin námskeið fyrir nýja sveitarstjórnafulltrúa.

3. Áskoranir sem fylgja skólastarfi og þjónustu við börn í grunnskólum, með áherslu á börn sem höllum fæti standa.
Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla í Breiðholti, ræddi um áskoranir sem fylgja skólastarfi og þjónustu við börn í grunnskólum, með áherslu á börn sem höllum fæti standa.

Málefnið var tengt tillögum vaktarinnar um brotthvarf úr skólum (framhalds- og grunnskólum).

https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/velferdarvaktin/frettir/stok-frett-velferdarvaktar/2017/11/30/Tillogur-Velferdarvaktarinnar-gegn-brotthvarfi-nemenda-ur-framhaldsskolum/

Í máli Sigurlaugar kom m.a. fram að í Fellaskóla eru 350 nemendur frá 30 löndum og eru 80% þeirra með annað móðurmál en íslensku. Mörg barnanna eru með félagslegan vanda. Skólaumhverfi hefur breyst á undanförnum árum með tilliti til þessa og mikilvægt er að styðja vel við þessi börn og styrkja kennara í að kenna fjölbreyttum nemendahópum, breyta kennsluháttum og fá fjölbreyttari fagstéttir inn í skólana. Íslenskukennsla þarf einnig að ná til foreldra barna af erlendum uppruna. Samvinnu skólans, velferðarkerfisins og fjölskyldunnar þarf að efla því hún dregur einnig úr líkum á brotthvarfi úr skóla síðar meir. Í Fellaskóla er unnið með hagsmuni hvers og eins nemanda. Mikilvægt er að skólaþjónustan fari fram í skólanum. Hugmynd hefur verið uppi um fjölskyldumiðstöð í skólanum þar sem fram færi m.a. íslenskukennsla o.fl.

Ekki meira rætt og fundi slitið. Næsti fundur verður haldinn í ágúst/LL.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta