Hoppa yfir valmynd
02.12.2020

Fundur Velferðarvaktarinnar 1. september 2020

42. fundur Velferðarvaktarinnar

1. september 2020 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá W.O.M.E.N, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Erla Ósk Guðjónsdóttir frá Menntamálastofnun, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Ingvi Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Silja Björk Björnsdóttir frá Geðhjálp, Sólveig Anna Jónsdóttir frá ASÍ, Steinunn Bergmann frá BHM, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu, Viðar Helgason frá efnahags- og fjármálaráðuneyti og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

__

 

1. Formaður hóf fundinn á að bjóða nokkra nýja fulltrúa velkomna í vaktina.

2. Kynning á starfi uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála vegna Covid-19.
Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis og formaður uppbyggingarteymis, upplýsti um nýjustu stöðuskýrsluna og starf teymis frá síðustu kynningu. Haldnir hafa verið 6 fundir og gefnar út 4 stöðuskýrslur. Markmiðið með starfi teymisins og skýrslunum er að hafa til staðar nýjar og uppfærðar upplýsingar um áhrif Covid-19, mat á aðgerðum sem gripið hefur verið til á vegum stjórnvalda, einkum þegar kemur að félags- og atvinnumálum og efnahagi heimilanna. Staða innflytjenda og flóttafólks verður tekin sérstaklega fyrir í næstu skýrslu en stór hópur fólks af erlendum uppruna er atvinnulaus, fólk á takmörkuð réttindi og fjölmargir leita nú til hjálparsamtaka eftir stuðningi, svo rík ástæða þykir til að skoða betur stöðu þessa hóps í þessu samhengi.

Gissur mun upplýsa Velferðarvaktina um stöðuna reglulega í vetur og minnti að lokum á netfangið [email protected] þar sem koma má upplýsingum, athugasemdum o.fl. á framfæri til uppbyggingarteymisins.


3. Samvinnuverkefni þjónustukerfanna (4DX)
Klara Baldursdóttir Briem, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, kynnti samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Tryggingastofnunar ríkisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs um innleiðingu árangurskerfis sem nefnist The 4 Disciplines of Execution (4DX).

Ákvörðun um að hefja þetta samstarfsverkefni var m.a. tekin til að bregðast við ákalli í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem framkvæmdi rannsókn á stöðu ungs fólks (18-39 ára) með örorku- eða endurhæfingarlífeyri, um aukna samvinnu ólíkra þjónustukerfa sem koma að þjónustu við einstaklinga með fjölþættan vanda í því skyni að fá betri yfirsýn yfir þá þjónustu sem einstaklingurinn er að fá og að umrædd þjónusta sé samþætt. Markmiðið er að þjónustukerfin hafi sameiginlega stefnu og framtíðarsýn sem miði að því að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsgetu og stuðli þannig að innleiðingu stefnu stjórnvalda.

Verkefnið heldur áfram í vetur og er markmiðið að auka enn frekar þátt starfsendurhæfingar hjá ungu fólki og mæta áhrifum Covid-kreppunnar fyrr en gert var eftir hrun. Þá er Hagstofan um þessar mundir að framkvæma afdrifakönnun þar sem afdrif einstaklinga sem hafa á síðastliðnum fimm árum fengið synjun á örorku könnuð.


4. Samráð vegna skýrslu um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi
Sunna Diðriksdóttir, fulltrúi dómsmálaráðuneytis í Velferðarvaktinni, kynnti vinnu sem að hefjast við skrif á skýrslu til Sameinuðu þjóðanna (SÞ) vegna samnings SÞ um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Inni á samráðsgátt er nú kallað eftir tillögum og ábendingum frá hagsmunaaðilum um atriði sem leggja ætti áherslu á við gerð skýrslunnar. Sjá nánar hér.

Þá er hafinn undirbúningur fyrir þriðju allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi og er einnig óskað eftir tillögum og ábendingum varðandi áherslur. Sjá nánar hér.


5. Samráðfundur um áframhaldandi aðgerðir vegna Covid-19
Ásthildur Knútsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, kynnti niðurstöður samráðsfundarins „Að lifa með veirunni“ sem heilbrigðisráðherra, í samvinnu við forsætis- og dómsmálaráðuneytið, efndi til þann 20. ágúst sl. Markmiðið með fundinum var að stilla saman strengi og móta áherslur og leiðarljós sem geti nýst í áframhaldandi vinnu við mótun aðgerða vegna Covid-19 á næstu misserum, í ljósi þess að áhrifa veirunnar komi til með að gæta í samfélaginu um  óákveðinn tíma.

 

6. Önnur mál.

  • Mataraðstoð. Upplýst var um fyrirhugað málþing um mataraðstoð síðar í haust. Þar verði m.a. tekinn upp þráðurinn frá morgunverðarfundi um sama viðfangsefni á vegum Pepp-Ísland, í samstarfi við Velferðarvaktina, haustið 2016.

    Þá hyggst félagsmálaráðuneytið, í samvinnu við Velferðarvaktina, fela Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera rannsókn á fyrirkomulagi matarúthlutana þar sem meðal annars verði kortlagt, í samvinnu við félagsþjónustu, hjálparsamtök og aðra fagaðila, hvaða hópar eru að sækja þjónustu á borð við matarúthlutanir og ráðgjöf, og hverjir þeirra búa við sérstaklega erfiðar aðstæður. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði framkvæmd með haustinu. Vísað var til skýrslunnar Matarúthlutanir hjálparstofnana frá árinu 2010.

  • Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar. Formaður mun kynna rannsókn á skólaforðun sem Velferðarvaktin fól Maskínu að framkvæma á síðasta ári. Upplýst var um að mennta- og menningarmálaráðherra hefði nú sett af stað vinnuhóp sem m.a. skal skilgreina þarfir skólasamfélagsins fyrir miðlægt skráningarkerfi grunnskólanemenda. Hópurinn mun m.a. skoða hversu umfangsmikið skráningarkerfið skuli vera, til að mynda hvort skrá skuli skólasókn, fjarvistir og aðrar ástæður þeirra, upplýsingar um skólasókn íslenskra grunnskólabarna erlendis og upplýsingar um fjölda sérkennslustunda. Einnig er hafin endurskoðun á 16. kafla aðalnámskrár grunnskólans, sem er kaflinn um undanþágur frá m.a. skólasókn.
  • Suðurnes. Ákveðið var að á næsta fundi yrði fundi vaktarinnar á Suðurnesjum í júní sl. fylgt eftir og kannað hvernig mál hafa þróast.
  • Fundir vaktarinnar. Ákveðið var að bóka 3 fundi fram að áramótum, sem gert er ráð fyrir að verði í fjarfundarformi, 6. október, 3. nóvember og 1. desember. Undirhóparnir munu funda þess á milli eftir því sem þörf krefur. Þá var lagt til að á hverjum fundi yrði afmörkuðum tíma varið í fréttir úr baklandinu. Einnig gefst fulltrúum tækifæri á að vera með kynningu á verkefnum sem þeir koma að.

 

Næsti fundur verður haldinn 6. október kl. 13.15-15.00/LL.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta