Fundur Velferðarvaktarinnar 3. nóvember 2020
44. fundur Velferðarvaktarinnar
3. nóvember 2020 kl. 13.15-15.00.
Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásgerður Jóna Flosadóttir frá Fjölskylduhjálp Íslands, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Erla Ósk Guðjónsdóttir frá Menntamálastofnun, Eva Bjarnadóttir frá Unicef, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Silja Björk Björnsdóttir frá RKÍ, Sólveig Anna Jónsdóttir frá ASÍ, Steinunn Bergmann frá BHM, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Þuríður Sigurðardóttir frá ÖBÍ, Valgerður Bjarnadóttir frá frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.
---
1. Skólastarf barna í grunnskólum með tilliti til nýjustu sóttvarnareglna vegna Covid-19.
Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, ræddi um skólastarf barna í grunnskólum með tilliti til nýjustu sóttvarnareglna vegna Covid-19. Eftirfarandi kom m.a. fram í máli Þorsteins:
- Með bæði skýrari reglugerð, sem nú er til staðar, ásamt reynslu af því að ganga í gegnum fyrstu bylgju veirunnar gengur betur að halda skólastarfinu gangandi upp að því marki sem hægt er.
- Mun færri börn eru heima núna en á vormánuðum. Í fyrri bylgju var talsvert um að börn af erlendum uppruna væri haldið heima við þar sem foreldrar mótuðu gjarnan sína hegðun eftir sínu heimalandi. Skólaskrifstofur eru að koma betri og markvissari skilaboðum á framfæri.
- Huga þarf sérstaklega að nemendum sem eru í hættu á að einangrast eða eru með undirliggjandi vanda. Þá hafa verið áhyggjur af því að minna tækifæri gefist fyrir starfsfólk skólanna að vera vakandi fyrir vanlíðan barna sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður.
2. Fréttir af uppbyggingarteymi félags- og atvinnumála vegna Covid-19
Tryggvi Haraldsson, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og starfsmaður uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála vegna Covid-19, fór yfir nýjustu störf uppbyggingarteymisins. Þegar er búið að gefa út sex stöðuskýrslur og von er á þeirri næstu í vikunni. Sveitarfélög hafa upplýst að núna í þriðju bylgju veirunnar séu þau almennt betur í stakk búin hvað varðar verklag og vinnuferla til þess að geta brugðist við auknu álagi í þjónustunni. Hinsvegar eru áskoranir aðrar en í fyrri bylgjum en álag hefur aukist mikið og vandi fólks að þyngjast. Bent hefur verið á að líta þurfi sérstaklega til málefna barna, langveikra barna og framhaldsskólanema með fötlun. Í næstu stöðuskýrslu verður skoðaður fjöldi þeirra sem er að ljúka bótarétti hjá Vinnumálastofnun og hvert sá hópur fer en gera má ráð fyrir að hluti hans fari á fjárhagsaðstoð. Tryggvi minnti á netfangið [email protected] fyrir ábendingar til teymisins.
3. Aðgerðateymi gegn ofbeldi
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, sögðu frá verkefnum sem undanfarna mánuði hafa komið til framkvæmda á vegum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra skipuðu í byrjun sumars í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Aðgerðirnar miða sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með talið börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki, sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu en aðrir á að verða fyrir ofbeldi.
Aðgerðateymið skipa Sigríður Björk og Eygló Harðardóttir en við undirbúning aðgerða hefur verið haft víðtækt samráð við opinbera aðila, stofnanir, hagsmunasamtök, frjáls félagasamtök, fræðasamfélagið og fleiri aðila. Hér má sjá tillögur aðgerðateymisins sem samþykktar hafa verið af fyrrnefndum ráðherrum og komnar eru til framkvæmda.
Fleiri aðgerðir eru í undirbúningi sem kynntar verða á næstunni en starfstími aðgerðateymisins er til janúarloka 2021 og skilar teymið þá samantekt á aðgerðum og árangri af vinnu sinni.
4. Örkynningar úr baklandinu
Samtök um kvennaathvarf – Sigþrúður Guðmundsdóttir sagði stuttlega frá stöðunni. Fjöldi dvalarkvenna hefur verið nokkuð jafn undanfarið. Hlutfall erlendra kvenna hefur hækkað. Konurnar dvelja alla jafna skemur í athvarfinu sem skýrist m.a. af auknu framboði á húsnæði. Verið er að bæta aðgengi að athvarfinu svo hægt sé að taka á móti konum með hreyfihömlun. Þá er nýtt áfangaheimili í byggingu sem tekið verður í notkun næsta sumar.
Hjálparstarf kirkjunnar - Vilborg Oddsdóttir sagði frá helstu verkefnum um þessar mundir. Það hefur reynst samtökunum mikil áskorun að halda úti starfsemi á þessum erfiðu tímum en gengur þó ágætlega. Aðstæður eru öðruvísi en í hruninu þegar mikil reiði var meðal fólks en kórónaveirufaraldurinn hefur haft öðruvísi áhrif, fólk er óttaslegið og lifir í mikilli óvissu.
Fjölskylduhjálp Ísland - Ásgerður Jóna Flosadóttir sagði frá því að mikið væri að gera hjá samtökunum og eftirspurn eftir matargjöfum mikil og færi vaxandi í aðdraganda jóla. Gert væri ráð fyrir fleiri úthlutunardögum í nóvember.
Hjálpræðisherinn - Hjördís Kristinsdóttir sagði frá því að samtökin væru nú loks að flytja í nýtt húsnæði sem býður upp á mun betri aðstöðu m.a. til þess að bjóða upp á heitar máltíðir í hádeginu. Einnig er gert ráð fyrir baðaðstöðu fyrir þá sem á þurfa að halda o.s.frv. Jólaundirbúningur fer einnig að hefjast en Hjálpræðisherinn hefur undanfarin ár tekið á móti allt að 300 einstaklingum í jólamat. Samtökin verða vör við mikinn kvíða og einsemd meðal fólks um þessar mundir.
Tryggingastofnun Ríkisins - Sigrún Jónsdóttir sagði frá því helsta í starfseminni um þessar mundir en stofnunin þjónustar árlega 40-50 þúsundir umsóknir. Sigrún upplýsti að fyrir stuttu hefði verið kynntur sérstakur félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða, sjá nánar hér.
Þar sem þjónustumiðstöðin er lokuð um þessar mundir hefur verið mikil aukning í rafrænni þjónustu.
5. Önnur mál
- Unnið er að tillögum Velferðarvaktarinnar til stjórnvalda um leiðarljós á tímum Covid-19 faraldursins, sem lúta einkum að þeim hópum sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þær verða kynntar á næstunni.
- Næsti fundur verður haldinn 1. desember. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, verður gestur fundarins.
Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.