Hoppa yfir valmynd
09.11.2021

Fundur Velferðarvaktarinnar 9. nóvember 2021

52. fundur Velferðarvaktarinnar (fjarfundur)

9. nóvember 2021 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Bergþór H. Þórðarson frá Pepp á Íslandi, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum, Elísabet Linda Þórðardóttir frá dómsmálaráðuneytinu, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf A. Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Lára G. Magnúsdóttir frá Sjónarhóli, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Ingibjörg Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigrún Sigurðardóttir frá Geðhjálp, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sólveig Anna Jónsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Viðar Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Þuríður Harpa Sigurðardóttir og Þórdís Viborg frá ÖBÍ og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

___

1. Farsæld barna.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, sérfræðingur í barnateymi skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu, kynnti ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem taka munu gildi 1. janúar nk. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að viðeigandi þjónustu um leið og þörf krefur og að sú þjónusta sé bæði samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra. Um er að ræða viðamiklar breytingar í barnaverndarkerfinu og er gert ráð fyrir að innleiðing laganna taki á bilinu 3-5 ár.

Sjá glærukynningu

2. Innleiðing farsældarlaga og verkefnið Betri borg fyrir börn.
Hákon Sigursteinsson, sérfræðingur á skóla-, frístunda- og velferðarsviði Reykjavíkurborgar kynnti hvernig Reykjavíkurborg hyggst innleiða ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, einkum með tilliti til verkefnisins Betri borg fyrir börn. Betri borg fyrir börn er þróunarverkefni sem miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi í Breiðholti en gert ráð fyrir að verði innleitt í önnur hverfi borgarinnar.

Sjá glærukynningu.

Kynningu á sérstöku átaksverkefni Reykjavíkurborgar varðandi skólaforðun var frestað til næsta fundar.

3. NEET-hópurinn
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu - Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar Staða og bakgrunnur ungmenna af erlendum uppruna utan vinnumarkaðar og skóla.  Niðurstöðurnar sýndu m.a. að staða erlendra ungmenna utan vinnumarkaðar og skóla hefur versnað nokkuð á síðustu árum. Það er samræmi við stöðuna á vinnumarkaði en að auki eru aðrir áhrifaþættir s.s. kyn, aldur, menntunarstig, félags- og efnahagsleg staða foreldra og fjölskyldugerð. Kynningu á skýrslunni Upplifanir og reynsla ungra NEET-kvenna af erlendum uppruna var frestað til næsta fundar.

Sjá glærukynningu.

4. Verkefni á vegum Geðhjálpar
Grímur Atlason og Sigríður Gísladóttir frá Geðhjálp kynntu ný verkefni sem miða að börnum og ungmennum.

  • Geðlestin. Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla um land allt þar sem markmiðið er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á vef Geðlestarinnar
  • Okkar heimur (Our time). Verkefnið Okkar heimur er verkefni að breskri fyrirmynd sem ætlað er að styðja betur við börn sem alast upp við það að eiga foreldra með geðrænan vanda en hingað til hefur þótt vera skortur á fjölbreyttari úrræðum fyrir þennan hóp barna, sem farið hefur stækkandi. Von er á sérstakri fræðslusíðu um verkefnið.

5. Örkynningar úr baklandinu

  • Bandalag háskólamanna. Steinunn Bergmann, fulltrúi BHM í Velferðarvaktinni, kynnti helstu verkefni BHM sem eru regnhlífarsamtök fag- og stéttarfélaga háskólamenntaðs fólks á íslenskum vinnumarkaði. Innan BHM eru 28 aðildarfélög með um það bil 16 þúsund félagsmenn sem starfa í ýmsum atvinnugreinum, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði.
  • Embætti landlæknis. Salbjörg Bjarnadóttir, fulltrúi Embættis landlæknis í Velferðarvaktinni, sagði frá helstu verkefnum sem eru í gangi einkum m.t.t. afleiðinga Covid-19 faraldursins. Áhyggjur eru af biðlistum hjá bæði Þroska- og hegðunarstöðinni og Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og auk þess í sértæk teymi eins og transteymi barna, átröskunarteymi og í geðheilsuteymi. Þá var vakin athygli á skorti á stuðningi við börn fanga.

6. Önnur mál

Fulltrúar sárafátæktarhóps og barnahóps sögðu stuttlega frá því sem verið hefur til umfjöllunar í undirhópunum.

  • Í sárafátæktarhópi hafa kjör öryrkja verið til umræðu, þar með talið tenging endurhæfingalífeyris við örorku.
  • Í barnahópi er áhugi fyrir að halda málþing á vormisseri. Rætt hefur verið um stöðu barna í skólum þar með talið barna af erlendum uppruna og börn með margþættan vanda.

Næsti fundur verður haldinn 11. janúar 2022 og voru fulltrúar hvattir til þess að senda ábendingu um efni sem áhugi er fyrir að taka til umræðu.

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta