Hoppa yfir valmynd
11.01.2022

Fundur Velferðarvaktarinnar 11. janúar 2022

53. fundur Velferðarvaktarinnar (fjarfundur)

11. janúar 2022 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna (WOMEN), Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásgerður Jóna Flosadóttir frá Fjölskylduhjálp Íslands, Ásta S. Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Þórdís Skjalddal og Bergþór H. Þórðarson frá Pepp á Íslandi, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Eðvald Einar Stefánsson frá umboðsmanni barna, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum, Elísabet Linda Þórðardóttir frá dómsmálaráðuneytinu, Erla Ósk Guðjónsdóttir frá Menntamálastofnun, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf A. Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Hjördís Kristinsdóttir frá Hjálpræðishernum á Íslandi, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, María Ingibjörg Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigrún Sigurðardóttir frá Geðhjálp, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir frá Heimili og skóla, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Þuríður Harpa Sigurðardóttir og Þórdís Viborg frá ÖBÍ og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.


 

1. Heimsókn félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr félags- og vinnumarkaðsráðherra, var gestur fundarins. Ráðherra sagði frá sínum helstu áherslumálum sem öll ríma vel við þá umræðu sem hefur verið að eiga sér stað innan Velferðarvaktarinnar.

Meðal helstu áherslumála ráðherra eru endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu með það að markmiði að gera það einfaldara, gagnsærra, að það bjóði upp á meiri sveigjanleika á vinnumarkaði o.s.frv. Þá verði farið í að skoða hvernig bæta megi stöðu eldra fólks t.d. með þróun fjölbreyttari þjónustuleiða. Slíkar aðgerðir, ásamt fleirum, þurfi að skoða í samráði og samstarfi við heilbrigðisráðuneytið. Þá verði að skoða hvernig bregðast skuli við mismunandi félagslegum aðstæðum eldra fólks eins og t.d. einmanaleika og styðja betur við hinsegin eldra fólk. Ráðherra ræddi einnig um áherslu á stöðu langveikra barna og foreldra þeirra og vilja til þess að tryggja foreldrum sem missa barn sorgarlífeyri.

Fulltrúar vaktarinnar tóku vel undir þessar áherslur ráðherra og bentu á ýmislegt í þeim efnum sem taka mætti til skoðunar, sem og innan annarra málaflokka. Nefndar voru sérstaklega áhyggjur af vistun ungs fólks inni á hjúkrunarheimilum, skort á félagslegum stuðningi við 16-18 ára börn, félagslega stöðu fatlaðs fólks og stöðu heimsmarkmiða um fátækt.

2. Skólaforðun

Hákon Sigursteinsson, sérfræðingur á skóla, frístunda- og velferðarsviði Reykjavíkurborgar, kynnti verkefni sem borgin hefur verið að þróa síðustu misseri og miðar að því að draga úr skólaforðun. Í máli Hákons kom fram að skólaforðun þarf að vakta mun betur og bregðast við með markvissum og góðum hætti. Reykjavíkurborg hefur sett sér stefnu í þessum málum og unnið að gerð viðmiða og ferla. Hákon benti einnig á verkefnið Betri borg fyrir börn sem hægt er að kynna sér nánar á vef Reykjavíkurborgar.

Sjá glærur.

3. Kynning á skýrslunni Upplifanir og reynsla ungra NEET-kvenna af erlendum uppruna

Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar Upplifanir og reynsla ungra NEET-kvenna af erlendum uppruna. Um var að ræða rýnihóparannsókn þar sem rætt var við ungar konur af erlendum uppruna sem voru eða höfðu verið í NEET-hópnum (Erlendar konur utan vinnumarkaðs og menntakerfis). Í ljós kom að þær búa við margþættar hindranir í íslensku samfélagi í gegnum kerfisbundna aðgangsstýringu og útilokun sem hvíla einna helst á tveimur tegundum hindrana þ.e. samfélagslegum og stofnanabundnum hindrunum.

Sjá glærur.

4. Skýrsla um brotthvarf og námstafir á framhaldsskólastigi

Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur og Helgi Eiríkur Eyjólfsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, kynntu niðurstöður rannsóknar á brotthvarfi og námstöfum á framhaldsskólastigi sem unnin var fyrir Velferðarvaktina. Horft var til félagslegs og efnahagslegs bakgrunns nemenda ásamt námsárangri á grunnskólastigi með það fyrir augum að kortleggja þætti sem spá fyrir um brotthvarf og námstafir. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að menntun foreldra og heildartekjur fjölskyldunnar eru helstu áhrifaþættir þegar kemur að brotthvarfi og námstöfum. Skýrslan kemur út á næstu dögum, ásamt tillögum til úrbóta.

5. Önnur mál

Næsti fundur Velferðarvaktarinnar verður haldinn í febrúar.

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta