Fundur Velferðarvaktarinnar 23. maí 2023
62. fundur Velferðarvaktarinnar
haldinn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og á Teams
23. maí 2023 kl. 13.15-15.00.
1. Rannsókn á stöðu umgengnisforeldra og barnafjölskyldna sem deila ekki lögheimili saman.
Velferðarvaktin og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóðu að rannsókninni í samstarfi við Foreldrajafnrétti.
- Ásdís Aðalbjörg Arnalds, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður rannsóknar. Glærur.
- Brjánn Jónsson, formaður Foreldrajafnréttis, fjallaði um niðurstöður rannsóknarinnar. Að mati samtakanna staðfesta helstu niðurstöður það sem samtökin hafa verið að benda á einkum þegar kemur að forsjár- og umgengnismálum.
2. Aðgerðir til að fyrirbyggja ótímabært brotthvarf ungs fólks með geðraskanir af vinnumarkaði og auka samfélagslega virkni ungmenna í NEET-hópi (hvorki í vinnu, námi eða starfsþjálfun).
- Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
- Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður efnahags- og samkeppnishæfnisviðs hjá Samtökum atvinnulífsins
Unnur og Páll sögðu frá verkefninu sem er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og VIRK. Í verkefninu er unnið eftir hugmyndafræði IPS (e. Individual Placement Support) en það er gagnreynd starfsendurhæfing sem skilað hefur góðum árangri hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndunum. Grunnhugmyndin er sú að hægt sé að finna störf fyrir öll þau sem vilja vinna óháð hindrunum, svo sem af geðrænum eða félagslegum toga. Verkefnið er liður í aðgerðum í tengslum við heildarendurskoðun í málefnum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.
3. Könnun á stöðu launafólks á Íslandi.
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar en þetta er þriðja árið í röð sem slík könnun er gerð. Meginmarkmið könnunarinnar er að varpa ljósi á fjárhagslega stöðu og heilsu launafólks á Íslandi sem og réttindabrot á vinnumarkaði. Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að þeim fer fjölgandi sem eiga erfitt með að ná endum saman. Þá býr meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna við slæma andlega heilsu og vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir leigjendum og ungu fólki.
4. Lokaathugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna við skýrslu Barnaréttanefndar Sameinuðu þjóðanna ásamt tilmælum til Íslands.
Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, kynnti lokaathugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna við skýrslu Barnaréttanefndar Sameinuðu þjóðanna ásamt tilmælum til Íslands. Lokaathugasemdirnar eru athugasemdir og tillögur frá Barnaréttarnefnd SÞ um framkvæmd Barnasáttmálans á Íslandi. Athugasemdirnar eru einnig leiðbeiningar um það hvernig sé hægt að tryggja betur réttindi barna samkvæmt sáttmálanum.
5. Málþing um stöðu tekju- og eignalægri á húsnæðismarkaði.
Vilborg Oddsdóttir, formaður sárafátæktarhóps Velferðarvaktar, kynnti tillögu hópsins um að Velferðarvaktin standi fyrir málþingi í haust um stöðu tekju- og eignalægri á húsnæðismarkaði. Gert er ráð fyrir að haldinn verði undirbúningsfundur með fulltrúum Velferðarvaktarinnar í september.
6. Önnur mál.