Fundur Velferðarvaktarinnar 22. ágúst 2023
63. fundur Velferðarvaktarinnar
haldinn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og á Teams
22. ágúst 2023 kl. 13.15-15.00.
1. Kynning á skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað.
• Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við Háskóla Íslands.
• Halldór S. Guðmundsson, dósent við Háskóla Íslands.
Kolbeinn kynnti helstu niðurstöður greininga og Halldór kynnti forsendur og mat á samfélagslegum kostnaði vegna fátæktar. Upplýst var um að búið væri að samþykkja að framkvæmdar yrðu viðbótargreiningar sem taka myndu til afmarkaðra hópa þ.m.t. innflytjenda, einstæðra foreldra og námsmanna.
2. Helstu áskoranir í móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Gísli Davíð Karlsson, sviðsstjóri fjölmenningarsviðs Vinnumálastofnunar og Áshildur Linnet, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, kynntu stöðuna í málaflokknum. Gísli fór yfir búsetuúrræði og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd en í dag eru 2900 einstaklingar í þjónustu á vegum Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga. Gísli ræddi einnig um helstu áskoranir í þessu samhengi, einkum þegar kemur að húsnæðis-, mennta- og heilbrigðismálum, og í kjölfarið spratt upp umræða um aukið álag á innviði einkum í þeim sveitarfélögum sem tekið hafa á móti flestum umsækjendum.
Þá fór Áshildur yfir stöðuna í málaflokknum hér á landi samanborið við önnur Norðurlönd. Áshildur benti á lykilupplýsingar um umsækjendur um alþjóðlega vernd inni á vef lögreglunnar og almennar upplýsingar um málefni flóttafólks inni á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins (mælaborðið).
Glærur Áshildar.
Glærur Gísla Davíðs.
3. Umræða um viðburði fyrir áramót.
• Rætt var um fyrirhugaðan vinnufund Velferðarvaktar 7. september nk. til undirbúnings málþings Velferðarvaktar um stöðu tekju- og eignalægri á húsnæðismarkaði, sem fyrirhugað er að haldið verði í nóvember nk. Í því samhengi var vakin athygli á húsnæðisþingi á vegum innviðaráðuneytis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þann 30. ágúst nk.
• Kynnt voru drög að dagskrá morgunverðarfundar Velferðarvaktar þann 9. október nk. um stöðu og aðstæður foreldra sem deila ekki lögheimili með barni. Fundurinn er haldinn í kjölfar útgáfu skýrslu þess efnis en að rannsókninni stóðu Velferðarvaktin og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, í samstarfi við Foreldrajafnrétti.
Önnur mál.
- Næsti fundur vaktarinnar verður haldinn 25. október.