Fundur Velferðarvaktarinnar 25. október 2023
64. fundur Velferðarvaktarinnar
haldinn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og á Teams
25. október 2023 kl. 13.15-15.00.
1. Bakslag í réttindabaráttu LGBTI+
Hvernig má sporna við hatursorðræðu og ofbeldi?
- Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var meðal gesta fundarins og ræddi við vaktina um málið. Ráðherra ræddi um að það væri sárt að fylgjast með því bakslagi sem átt hefur sér stað í réttindabaráttu hinsegin fólks. Það væri hins vegar verið að vinna að mörgum verkefnum á þessu sviði þ.m.t. vitundarvakningu, bæði hér innanlands og á norrænum vettvangi. Þá væri verið að vinna að fyrstuframkvæmdáætluninni í málefnum hinsegin fólks. Ráðherra sagði frá fyrirhuguðum samráðsfundi um jafnréttismál þann 6. des nk. þar sem þema fundarins verður hatursorðræða. Ráðherra upplýsti að þingsályktun um aðgerðir gegn hatursorðræðu væri ekki lengur á þingmálaskrá.
- Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökunum 78, fjölluðu um gagnreyndar leiðir til að milda hatursorðræðu og mikilvægi félagasamtaka í því samhengi. Orð eru til alls fyrst. Rætt var um hugtakið „hatursorðræða“ og hvort það væri hið rétta eða ekki. Fólk upplifir oft ekki að það sé hatursfullt. Til dæmis mætti vísa til „hættulegrar umræðu“. Leggja þurfi meiri áherslu á vitundarvakningu. Framkvæmdastjóri ræddi um starfsemina og baráttuna við að tryggja starfseminni fjármagn. Umfangið hefur aukist verulega undanfarin ár en samtökunum berast um 400-500 erindi á viku.
- Kristín Ólafs Önnudóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, kynnti vitundarvakninguna Meinlaust? Vitundarvakningunni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki. Í vitundarvakningunni er áhersla lögð á hegðun sem mörg telja saklausa og er ætlunin að draga fram samfélagslegt mynstur sem er alls ekki eins meinlaust og halda mætti. Sagðar eru sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna.
Glærur
2. Nýjung í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni til að ná tökum á kvíða
Sigurrós Jóhannsdóttir, leiðtogi sálfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og dr. Brynjar Halldórsson, dósent í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, kynntu samstarfsverkefni heilsugæslunnar og háskólans. Um er að ræða nýtt meðferðarúrræði sem er foreldramiðuð hugræn atferlismeðferð (FHAM) sem er gagnreynt úrræði fyrir börn á aldrinum 5-12 ára sem glíma við kvíða og hefur verið veitt hér á landi um nokkurt skeið með góðum árangri. Nýmæli þessa verkefnis felst í því að nýta stafrænar lausnir við meðferðina og meta árangur þess fyrirkomulags. Markmiðið er að gera þessa þjónustu aðgengilega öllum, óháð búsetu og að fólk geti nálgast hana hvenær sem því hentar best. Verkefnið byggist á niðurstöðum nýlegra rannsókna á meðferð við kvíðaröskunum barna og þróun stafrænna heilbrigðislausna.
3. Viðburðir á vegum Velferðarvaktar
- Morgunverðarfundar Velferðarvaktar um stöðu og aðstæður foreldra sem ekki deila lögheimili með barni. Formaður fór yfir það helsta sem fram kom á morgunverðarfundinum sem haldinn var þann 10. október sl. Á fundinum voru kynntar helstu niðurstöður rannsóknar á stöðu og aðstæðum foreldra sem deila ekki lögheimili með barni.
- Málþings Velferðarvaktar um húsnæðismál, Tjaldað til einnar nætur? - Staða tekjulágra og efnaminni á húsnæðismarkaði. Vilborg Oddsdóttir fór yfir dagskrá málþingsins sem haldið verður 9. nóvember nk.
4. Önnur mál
- Næsti fundur verður haldinn 9. janúar 2024.
- Gert er ráð fyrir að barnahópur haldi einn fund fyrir jól.