Fundur Velferðarvaktarinnar 9. apríl 2024
67. fundur Velferðarvaktarinnar
haldinn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og á Teams
9. apríl 2024, kl. 13.15-14.30.
1. Örkynningar úr baklandinu
- Jafnréttisstofa
Kristín Ólafs Önnudóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, kynnti helstu hlutverk og verkefni Jafnréttisstofu.
- Mennta- og barnamálaráðuneytið
Þór Hauksson Reykdal, verkefnastjóri á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar, kynnti stuttlega nokkur verkefni sem koma inn á viðfangsefni sem Velferðarvaktin hefur verið með til umfjöllunar. Kynnt var frumvarp um námsgögn, frumvarp um inngildandi menntun og áform um frumvarp til laga um æskulýðs og frístundastarf.
2. Kynning á endurskoðun örorkulífeyriskerfisins
- Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, skrifstofustjóri í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, kynnti frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi – sérstaklega fyrir þau sem einungis fá greiðslur frá almannatryggingum eða eru með litlar aðrar tekjur.
Markmiðið er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, einfalda kerfið, draga úr tekjutengingum, auka hvata til atvinnuþátttöku og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
Vefsíða um breytingarnar
- Bergþór H. Þórðarson, fulltrúi ÖBÍ réttindasamtaka á fundinum, kynnti sjónarmið samtakanna gagnvart frumvarpinu. Samtökin eru almennt hlynnt breytingum en telja ýmislegt varðandi frumvarpið enn vera óljóst svo taka megi fulla afstöðu til þess.
Í framhaldinu fóru fram umræður um frumvarpið.
3. Önnur mál
- Næsti fundur verður haldinn 21. maí.