Hoppa yfir valmynd
20.12.2016 15:44 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Menntamálaráðuneyti - minnisblað

2. mars 2009

Upplýsingar frá menntamálaráðuneyti

Almenn atriði

Menntamálaráðuneytið hefur gripið til ýmissa aðgerða frá því í október sl. vegna efnahagsástandsins. Send hafa verið út tilmæli og leiðbeiningar til skóla, stofnan og samtaka og fjöldi funda verið haldinn. Einnig hefur reglum verið breytt og leitað eftir tillögum og hugmyndum um frekari aðgerðir.

Eftirfarandi gögn eru öll aðgengileg á vefsíðu ráðuneytisins:

Menningar-, íþrótta- og æskulýðsmál

  • Fræðslufundir í samstarfi við sveitarfélög og frjáls félagasamtök á íþrótta- og æskulýðssviði fyrir starfsfólk, þjálfara, forystufólk og foreldra í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Skipan samráðshóps til að leggja drög að áherslum ráðuneytisins á sviði menningarmála til að bregðast við breyttum aðstæðum í atvinnu- og efnahagsmálum, dags. 28. janúar 2009. Hópurinn skal m.a. leggja fram tillögur um hvernig skapa megi tækifæri og virkja þekkingu og reynslu atvinnulausra listamanna til virðisskapandi starfsemi og atvinnuuppbyggingar.
  • Opinberar menningarstofnanir hafa veitt afslátt á aðgöngumiðum til fólks á atvinnuleysisskrá.

Háskólastig

  • Breytingar á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna aðstæðna námsmanna erlendis, dags. 31. október 2008:
    - Aðgerðir vegna erfiðrar stöðu íslenskra námsmanna erlendis
    - Auglýsing um breytingu á úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2008-2009
  • Skipan vinnuhóps sem ætlað er að gera tillögur um hvernig laga megi lánareglur LÍN þannig að atvinnulausir geti stundað lánshæft nám í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur, dags. 18. febrúar 2009.
  • Reglulegir samráðsfundir með samstarfsnefnd háskólastigsins (rektorar allra háskóla).
  • Skipan verkefnisstjórnar til að leggja drög að stefnumótun ráðuneytisins á sviði háskólamála og vísinda til að bregðast við breyttum aðstæðum í atvinnu- og efnahagsmálum, dags. 10. desember 2008. Verkefnisstjórnin skal m.a. leggja fram tillögur um hvernig skapa megi tækifæri og virkja þekkingu og reynslu háskólamenntaðara einstaklinga, sem misst hafa vinnuna, til að virðisskapandi starfsemi og atvinnuuppbyggingar.

Leikskóli, grunnskóli og framhaldsskóli

  • Innan skólaskrifstofu menntamálaráðuneytisins hefur verið starfandi sk. velferðarhópur síðan í haust. Í hópnum hafa verið Arnór Guðmundsson, Ragnheiður Bóasdóttir og Guðni Olgeirsson. Jafnframt hafa tekið þátt í störfum hópsins fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Heimili og skóla, Menntasviði Reykjavíkurborgar og skólasmeisturum framhaldsskóla. Velferðarmálin hafa sérstaklega verið tekin upp á fundi með skólameisturum framhaldsskóla þar sem Jóhann Thoroddsen sálfræðingur hélt m.a. fyrirlestur. Einnig var rætt við þá um mikilvægi þess að tryggja öllum framhaldsskólanám, fylgjast vel með brottfalli o.fl. Sérstökum tilmælum var beint frá ráðuneytinu til framhaldsskóla vegna innritunar um síðast liðin áramót og beðið um að reynt yrði eftir föngum að koma til móts við óskir nemenda um skólavist.
  • Velferðarmál vegna efnahagsástandsins voru til umfjöllunar á kynningarfundum um ný lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla sl. haust, bæði þar sem ráðherra var með borgarafundi og einnig á 7 almennum kynningarfundum til skólakerfisins um land allt.
  • Fundir hafa verið haldnir og samstarf átt sér stað með Heimili og skóla og Blátt áfram. Heimili og skóli hefur haft frumkvæði að því að kalla til óformlegra samráðsfunda, u.þ.b. á mánaðarfresti til að ræða um málefni barna og ungmenna, ekki síst til að skiptast á skoðunum og upplýsingum um málið frá ýmsum hliðum. Þessir fundir hafa verið afar gagnlegir þar sem fólk hefur greint frá helstu málum sem upp hafa komið á þeirra vettvangi m.a. til að vakta hvort bregðast þurfi við eða stilla saman strengi. Þetta nær einkum til barna á leik- og grunnskólaaldri. Á þessum fundum hafa verið fulltrúar frá Heimili og skóla, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi grunnskólakennara, menntamálaráðuneyti og umboðsmaður barna. Næsti fundur er fyrirhugaður í apríl.

Fullorðinsfræðsla og símenntun

  • Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) átti sl. haust frumkvæði að stofnun samráðshóps um menntunarúrræði vegna efnahagasástandsins og hóf hann formlega störf 28. október sl. Í hópnum sitja tveir fulltrúar menntamálaráðuneytisins auk fulltrúa ASÍ, SA, BSRB, SVÞ, SI, Iðunnar og Vinnumálastofnunar . Hópurinn hefur haldið 12 fundi. Hann vaktar breytingar á vinnumarkað og metur það sem hægt er að gera til að bregðast við þróuninni, athugar jafnframt hvar og hvernig megi beita þeim úrræðum sem þegar eru tiltæk, gerir tillögur um úrræði fyrir einstaka hópa og breytingar á forgangsröðun í þeim málefnum sem til góða geta komið.
  • Menntamálaráðuneytið og FA hafa í tengslum við vinnu hópsins komist að samkomulagi um endurskilgreiningu á forgangsröðun verkefna skv. samningi ráðuneytisins og FA þar sem sérstök áhersla verður lögð á ráðgjöf og námsframboð fyrir fólk sem misst hefur vinnuna. Samtals eru 65 m.kr. til ráðstöfunar í þeim hluta samningsins sem um ræðir að endurskilgreina. FA hefur aflað upplýsinga frá símenntunarmiðstöðvum um allt land og fylgst er með þróun mála vegna vinnu hópsins og brugðist við m.a. með endurskilgreiningu á forgangsröðun verkefna eftir því sem ástæða þykir til.
  • Menntamálaráðuneytið tilnefndi á sínum tíma forstöðumenn og -konur símenntunarmiðstöðva um allt land í Vinnumarkaðsráð á hverju svæði. Þannig hafa skapast mikilvæg tengsl fræðsluaðila og vinnumiðlunar um staðbundin úrræði í atvinnu- og fræðslumálum. Náið samstarf hefur verið um opin hús og upplýsingamiðstöðvar milli viðkomandi aðila um allt land.
  • Í Reykjavík verður haldið fyrsta Menntatorg í Skeifunni 8, föstudaginn 6. mars, kl. 14:00 til 18:00. Menntatorgið er upplýsingamiðlun um nám fyrir atvinnulausa með áherslu á þá sem hafa stutta formlega menntun. Jafnframt verður opnuð sérstök upplýsingavefsíða unnin að frumkvæði samráðshópsins.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta