Hoppa yfir valmynd
20.12.2016 15:43 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samtök atvinnulífsins - minnisblað um viðbrögð við kreppunni

Stutt samantekt

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög samtakanna, Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess ásamt Viðskiptaráði Íslands stofnuðu vinnuhóp til að fylgjast náið með afleiðingum fjármálakreppunnar á fólk og fyrirtæki. Náið samráð hefur verið haft við fulltrúa ríkisstjórnar, sveitarfélög og ýmsar stofnanir.

Fréttir af fjármálahruninu

Á vef Samtaka atvinnulífins er að finna fjölmargar fréttir af fjármálahruninu og afleiðingum þess fyrir fyrirtæki og starfsmenn þess. Hafa Samtök atvinnulífsins leitast við að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri við aðildarfélög og aðildarfyrirtæki sín. Þá hafa samtökin staðið fyrir kynningarfundum um afleiðingar fjármálahrunsins og hvernig fyrirtæki geta brugðist við jafnt opnum fundum sem og fundum innan aðildarfyrirtækja. Einstök aðildarfélög eins og Samtök iðnaðarins, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök verslunar og þjónustu hafa einnig unnið mikið starf í tengslum við afleiðingar fjármálahrunsins.

Hlutastörf í stað uppsagna

Samtök atvinnulífsins hafa hvatt forsvarsmenn fyrirtækja til að bjóða fólki hlutastörf í stað þess að segja því upp ef tök eru á. Þá hafa Samtök atvinnulífsins aðstoðað fjölmörg fyrirtæki við að endurskipuleggja starfsmannamál sín til að lágmarka uppsagnir starfsmanna.

Áhersluatriði um brýn úrlausnarefni

Í nóvember tóku Samtök atvinnulífsins saman áhersluatriði um brýn úrlausnarefni fyrir atvinnulífið í tengslum við aðgerðir fyrri ríkisstjórnar í þágu fyrirtækja. Þau má nálgast á vef SA en þau snúa m.a. að gjaldeyrisviðskiptum, samskiptum við erlenda lánadrottna, lækkun vaxta, uppstokkun atvinnulífsins, nýsköpun og skapandi hugsun, kjarasamningum og skilyrðum fyrir fjárfestingar. Einnig um ársreikninga í erlendri mynt, fjárfestingasjóði, fasteignagjöld, refsiákvæði, opinberar framkvæmdir og ráðdeild í ríkisrekstri.

Atvinnustefna

Samtök atvinnulífsins hafa markað hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu sem innlegg í umræðu um hvernig hægt er að snúa vörn í sókn. Í núverandi ástandi verður að bregðast rétt við þegar í stað, lágmarka skaðann og auðvelda nýja uppbyggingu. Gefið var út sérstakt rit í janúar 2009 af þessu tilefni sem einnig er hægt að nálgast á vef SA.

Framhald kjarasamninga

Eftir fjármálakreppuna varð ljóst að mörg fyrirtæki gætu ekki staðið undir launahækkunum sem fyrirhugaðar voru 1. mars 2009. SA settu fram hugmyndir um frestun allra launahækkana til hausts eða jafnvel fram í byrjun næsta árs þegar staða efnahagsmála væri orðin skýrari. ASÍ hefur nú samþykkt slíka frestun en verið er að vinna að nánari útfærslu hjá Ríkissáttasemjara.

Vinnumarkaðsaðgerðir

SA sat í undirbúningshópi fyrir reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir í kjölfar fjármálakreppunnar ásamt fleirum undir stjórn félagsmálaráðuneytisins.

SA á svo sæti í starfshóp um vinnumarkaðsaðgerðir á vegum félagsmálaráðuneytisins. Starfshópurinn skilaði af sér fyrstu tillögum sínum í lok janúar.

Fræðslumál

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) setti strax á vakt varðandi kreppuna og menntunarúrræði. Eins og vitað er kemur atvinnuleysi harðast niður á þeim sem minnsta menntun hafa og það er einmitt markhópur starfs FA. Á heimasíðu FA er sérstök undirsíða um þetta starf.

Starfsmenntaráð auglýsti styrki til námsefnisgerðar og námskeiðahalds í tveimur flokkum; efni til að bregðast við erfiðri stöðu á vinnumarkaði og í opnum flokki. Úthlutað verður fljótlega en það fer eftir afdrifum frumvarps um framhaldsfræðslu hversu há upphæð kemur til úthlutunar.

SA hefur enn fremur stutt við verkefnið Nýttu kraftinn sem ætlað er sem stuðningur til þeirra sem misst hafa atvinnu.

Viðskiptasetur opnað til að efla atvinnulíf

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur opnað viðskiptasetur í samvinnu við Landsbankann og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja. Viðskiptasetrið er kallað Torgið en opnun þess er liður í samningi sem Samtök atvinnulífsins undirrituðu ásamt Nýsköpunarmiðstöð og SSF í október. Á Torginu munu einstaklingar fá aðstöðu og umgjörð til að vinna að viðskiptahugmyndum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta