Hoppa yfir valmynd
17.01.1998 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Kynnisferð til Brussel

Mjög flóknar og strangar reglur eru í gildi í Evrópusambandinu og á hinu Evrópska efnahagssvæði sem eiga að tryggja jafnstöðu fyrirtækja í fjarskiptarekstri og að koma í veg fyrir að einum sé hyglað á kostnað annarra.

Einkaréttur ríkisins í talsímaþjónustu var numinn úr gildi 1. janúar sl. og opnað fyrir frjálsa samkeppni í fjarskiptum. Mjög flóknar og strangar reglur eru í gildi í Evrópusambandinu og á hinu Evrópska efnahagssvæði sem eiga að tryggja jafnstöðu fyrirtækja í fjarskiptarekstri og að koma í veg fyrir að einum sé hyglað á kostnað annarra. Í vinnslu eru tillögur að viðamiklum lagabálkum um frekari þróun þessara mála. Þá var ný og stefnumarkandi tilskipun um póstmál samþykkt nú í desember. Af þessu tilefni og til þess að alþingismenn ættu kost á fyllstu upplýsingum um þessi flóknu mál bauð samgönguráðherra samgöngunefnd Alþingis til kynnis- og vinnuferðar til Brussel.

Á dagskrá var m.a.:

1. Timo Lahteenmaki, forstjóri finnska fjarskiptafyrirtækisins Finnet Group fjallaði m.a. um stöðu smárra símafyrirtækja í Finnlandi, en þar hefur þegar fengist góð reynsla af frelsi í fjarskiptamálum.

2. Jan H. Guettler, ráðgjafi hjá Cullen International fjallaði um frjálsa samkeppni í fjarskiptamálum í Evrópu, forsendur, bakgrunn, aðferðir og framtíðarsýn.

3. De Cockborne, yfirmaður þeirrar skrifstofu Evrópusambandsins sem sér um fjarskiptalöggjöf innan stjórnardeildar 13. fjallaði um alþjónustu, nýja valkosti neytenda hjá fjarskiptafyrirtækjum, réttinn til að halda sama símanúmeri þótt viðskipti færðust frá einu fjarskiptafyrirtæki til annars og leikreglur aðildarríkja Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

4. Otto Björklund, forstöðumaður skrifstofu Nokia Group í Brussel fjallaði um framtíðarsýn í fjarskiptamálum.

5. Tom Riege, starfsmaður EFTA, fjallaði um samruna mynd- og hljóðmiðla við fjarskipti.

6. Tor Arne Solberg, yfirmaður hjá Eftirlitstofnun ESA, fjallaði um hlutverk og eftirlit ESA með fjarskiptamálum.

7. Tilskipun um póstþjónustu var samþykkt í desember sl. sem markar nýja stefnu í póstmálum. Þar er gert ráð fyrir að það verði meginregla að einkaréttur í póstþjónustu haldist til ársins 2003. Þessi tilskipun kallar á endurskoðun íslenskrar póstlöggjafar. Nauðsynlegt er fyrir Alþingi og handhafa einkaréttarins að fylgjast vel með framvindu þessara mála. Af þeim sökum var leitað til Fernandos Toledanos, yfirmanns þeirrar skrifstofu Evrópusambandsins sem sér um póstlöggjöf innan stjórnardeildar 13. Hann fjallaði um stöðu og framtíðarskipan póstmála innan Evrópusambandsins.

8. Paal Frisvold, fulltrúi hjá EFTA, ræddi um reglur sem gilda um landflutninga á Evrópska efnahagssvæðinu.

9. Þriðjudaginn 13. janúar heimsótti sendinefndin þing Evrópusambandsins og átti þar fund með Mr. Natscheradetz fulltrúa samgöngunefndar þingsins sem ræddi löggjöf og markmið Evrópusambandsins í flutningamálum.

10. Kjartan Jóhannsson, framkvæmdastjóri EFTA og Valgerður Bjarnadóttir, forstöðumaður samgöngu- og fjarskiptasviðs EFTA ræddu þau mál sem efst eru á baugi í samskiptum þjóðanna og stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu.

11. Kristófer Már Kristófersson, forstöðumaður Evrópuskrifstofu atvinnulífsins í Brussel, fjallaði um hlutverk og verkefni skrifstofunnar og tengsl íslensks atvinnulífs og verkalýðshreyfingar við Evrópusambandið.

12. Ingimar Ingimarsson, fréttamaður ræddi um reynslu sína sem fréttamaður í Brussel og aðgengi að upplýsingum hjá ESB og EFTA.

Samgönguráðuneytið og Jóhann Guðmundsson, starfsmaður þess í Brussel, áttu allan veg og vanda að undirbúningi og dagskrá ferðarinnar.

Rétt er að minna á að haustið 1995 bauð samgönguráðuneytið samgöngunefnd Alþingis til hliðstæðrar kynnisferðar til Noregs og
Danmerkur til þess að einstakir nefndarmenn gætu kynnt sér milliliðalaust þær breytingar sem þá voru að gerast í rekstrarumhverfi póst- og símafyrirtækja. Samgönguráðuneytið skipulagði ferðina á sama hátt og nú en kostnaður vegna samgöngunefndar Alþingis var greiddur af Pósti og síma og var það öllum kunnugt. Sú ferð þótti bæði gagnleg og upplýsandi.

Í ljósi þeirrar reynslu ákvað samgönguráðherra nú í desember að bjóða samgöngunefnd á ný í kynnisferð um málefni pósts og fjarskipta. Jafnframt var forstjórum og stjórnarformönnum Landssímans hf og Íslandspósts hf. gefinn kostur á að vera með í förinni til að þeir gætu nýtt sér þá kynningu sem undirbúin hafði verið. Það hefur komið fram að þessi ferð hefur einnig þótt gagnleg og upplýsandi. Á hinn bóginn hefur verið gagnrýnt að Landssíminn hf. og Íslandspóstur hf. standi undir ferðakostnaði þingmanna. Sjálfsagt er að koma til móts við þá gagnrýni með því að samgönguráðuneytið greiði þennan kostnað.

Þessi reynsla hlýtur eftir sem áður að skilja eftir sig þá spurningu hverjir eigi að bera kostnaðinn af því að þingnefndir geti fylgst með flóknum og erfiðum málefnum á vettvangi Evrópusambandsins. Samgönguráðuneytinu er ljúft að gera það að þessu sinni, en vill um leið minna á, að það er þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga og snertir virðingu Alþingis að þingnefndir séu ekki upp á aðra komnar ef þær meta það svo að þörf sé á vinnu- og kynnisferðum eins og þeirri sem nú var farin til Brussel. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að þær grundvallarreglur sem gilda í fjarskipta-, póst- og samkeppnismálum eru settar í Brussel. Framkvæmd samþykkta ESB getur hins vegar verið með ýmsum frávikum. Því er mikilvægt að stjórnvöld og þingmenn hafi sem gleggstan skilning á eðli og markmiðum hinna ýmsu tilskipana, en það getur ráðið miklu um framkvæmd þeirra hér á landi. Einnig er mikilvægt að Íslendingar séu vakandi og geti komið að athugasemdum og fyrirvörum þegar íslenskir hagsmunir kalla á það við þróun nýrra reglna og tilskipana Evrópusambandsins.




Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta