Hoppa yfir valmynd
17.04.2000 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýtt verðmat á Pósti og síma hf.

Samgönguráðherra skipaði þann 1. nóvember s.l. starfshóp til að framkvæma nýtt mat á verðmæti Pósts og síma.

Starfshópinn skipuðu Heimir Haraldsson, endurskoðandi, sem jafnframt var formaður hópsins, Hjörleifur Pálsson, endurskoðandi og Skarphéðinn Berg Steinarsson, viðskiptafræðingur. Lögfræðilegur ráðgjafi starfshópsins var Baldur Guðlaugsson, hrl.

Í kjölfar álits samkeppnisráðs nr. 6/1999 um erindi Tals hf. um GSM-þjónustu Landssíma Íslands hf. skipaði samgönguráðherra þá Baldur Guðlaugsson, hrl., Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra og Sigurð Þórðarson, ríkisendurskoðanda í starfshóp til þess að fjalla um niðurstöður álits Samkeppnisráðs. Niðurstöður þeirra voru í megindráttum þær að rétt væri að endurmeta stofnfjárreikning félagsins án þess þó að þeir teldu að um vanmat eigna hefði verið að ræða. Við endurmat lögðu þeir til að notuð yrði svokölluð núvirðisaðferð við mat á raunvirði fyrirtækisins en ekki eignarmatsaðferð eins og notuð var í upphafi.

Starfshópur sá sem ráðherra fól að framkvæma nýtt mat hefur nú lokið starfi sínu og skilað skýrslu til ráðherra sem kynnt var í ríkisstjórn í morgun. Helstu niðurstöður starfshópsins eru þær að miðað við núvirðisaðferðina eigi stofnefnahagsreikningur að vera 3,8 milljörðum kr. hærri en fyrra mat gerði ráð fyrir. Að höfðu samráði við ríkisendurskoðanda hefur stjórn Landssímans verið falið að taka fullt tillit til niðurstöðu matsnefndarinnar og færa þær breytingar í ársreikning Landssíma Íslands hf. fyrir árið 1999 sem viðskiptavild. Á móti hækkun eigna verður færð skuld við ríkissjóð að viðbættum vöxtum og verðbótum frá 1. janúar 1997.

Samantekt starfshópsins á skýrslunni fer hér á eftir í heild sinni:

Í kjölfar álits samkeppnisráðs nr. 6/1999 um erindi Tals hf. um GSM-þjónustu Landssíma Íslands hf., skipaði samgönguráðherra starfshóp til að framkvæma nýtt mat á verðmæti Pósts og síma. Talið var að þær aðferðir sem notaðar voru við mat á eignum Póst- og símamálastofnunar í aðdraganda formbreytingar árið 1996 hefðu ekki verið fullnægjandi. Á hafi skort að fram færu útreikningar á núvirtu sjóðstreymi er byggðu á áætluðum rekstri Pósts og síma 5-10 ár fram í tímann sem bera mætti saman við niðurstöðu samkvæmt eignamatsaðferð. Starfshópurinn hefur aflað upplýsinga hjá Pósti og síma, þ.e. hjá þeim er stýrðu formbreytingunni á sínum tíma, og auk þess notað erlendar upplýsingar. Fyrst og fremst hefur verið leitað til Noregs um gögn. Það hefur nokkuð háð starfshópnum að áætlunargerð stofnunarinnar var ekki ítarleg á þessum tíma og langtímaáætlanir ekki fyrirliggjandi.

Núvirt sjóðstreymi áranna 1997-2006 var metið og sett fram. Í forsendum þess mats var gert ráð fyrir að samkeppni myndi koma til, fyrst og fremst í millilandasímtölum og farsímaþjónustu. Um þróun símaviðskipta að öðru leyti var gert ráð fyrir að markaðurinn myndi stækka samfara aukinni samkeppni og lækkun verðs. Gert var ráð fyrir að pósthluti fyrirtækisins myndi verða rekinn með lítils háttar hagnaði, sem var nokkur breyting frá því sem hafði verið fram til þess tíma.

Við mat á ávöxtunarkröfu var litið til þeirra aðstæðna sem ríktu þá á innlendum fjármagnsmarkaði og þeirra forsendna sem voru notaðar við sams konar mat á símafyrirtækjum í öðrum löndum. Starfshópurinn taldi hæfilegt að miða við 14,2% ávöxtunarkröfu á eigið fé.

Miðað við þær forsendur og með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið rakin fæst út að samkvæmt núvirðingu á áætluðu sjóðstreymi hafi heildarverðmæti eigna félagsins verið 20,4 milljarðar kr. í árslok 1996, markaðsverðmæti langtímaskulda 6,6 milljarðar kr. og virði eigin fjár 13,8 milljarðar kr. miðað við sjóðstreymi rekstrar. Þar að auki kemur til verðmæti viðbótareigna sem ekki tilheyra almennum rekstri að fjárhæð 1,3 milljarðar kr. þannig að heildarverðmæti eigin fjár er alls 15,1 milljarður kr. Til samanburðar voru heildareignir samkvæmt stofnefnahagsreikningi 1. janúar 1997 metnar á 18,1 milljarð kr., langtímaskuldir voru 6,8 milljarðar kr. og eigið fé var 11,3 milljarðar kr. Við þennan samanburð eru skammtímaskuldir dregnar frá hreinum veltufjármunum til að fá sambærilega framsetningu fjárhæða.

Niðurstaðan er mjög næm fyrir breytingum á forsendum. Þannig breytist verðmæti eigin fjár um rúma 2,7 milljarða kr. ef forsendu um áætlaðan vöxt (g) eftir lok áætlunartímabilsins er breytt á skalanum frá 1,0 til 3,5%. Ef forsenda um ávöxtunarkröfu eigin fjár er hækkuð um 0,8%, úr 14,2% í 15%, lækkar markaðsverðmæti eigin fjár um 867 m.kr. Ef ávöxtunarkrafan er hins vegar lækkuð úr 14,2% í 13% eða um 1,2% hækkar markaðsverðmætið um 1.440 m.kr.

Ef áætlað sjóðstreymi er aukið um 5%, miðað við óbreytta ávöxtunarkröfu, hækkar markaðsverðmæti eigin fjár um 707 m.kr., ef það er lækkað um sama hlutfall lækkar verðmætið um 706 m.kr. Ef miðað er við 10% frávik í sjóðstreymi til hækkunar eða lækkunar er bilið milli hæsta og lægsta gildis 2.827 m.kr.

Eins og áður sagði gefur útreikningur samkvæmt núvirtu sjóðsteymi þá niðurstöðu að markaðsvirði eigin fjár hafi verið 15,1 milljarðar kr. miðað við þær forsendur sem gefnar hafa verið. Miðað við óvissuna í aðferðafræðinni er ekki óvarlegt að áætla að eðlileg fráviksmörk séu frá 13 til 17 milljarðar kr. og er þá miðað við +/- 1% frávik í ávöxtunarkröfu eigin fjár og +/- 5% frávik í áætluðu sjóðsteymi.

Núvirt sjóðstreymi er fræðilega séð góð aðferð til að meta verðmæti fyrirtækja að því gefnu að hægt sé að áætla sjóðstreymi af ásættanlegri nákvæmni. Ef óvissa er mikil kann aðferðin hins vegar að vera miður heppileg til að ákvarða verðmæti í stofnefnahagsreikningi.

Svo virðist sem verðmat á eignum félagsins í stofnefnahagsreikningi hafi verið í lægri kantinum en nokkur vafi leiki á hvort það var utan ásættanlegra skekkjumarka. Er þá meðal annars horft til þess fráviks sem fékkst við sambærilegan samanburð á stofnefnahagsreikningi og verðmati samkvæmt núvirtu sjóðstreymi þegar norska ríkissímafyrirtækinu var breytt í hlutafélag. Að öllum gögnum virtum og miðað við eðlilega varfærni er það mat starfshópsins að virði félagsins hafi verið 15,1 milljarðar kr. hinn 1. janúar 1997. Telur starfshópurinn að matsverðið sé það mikið yfir hreinu verðmæti samkvæmt stofnefnahagsreikningi Pósts og síma hf. að nauðsynlegt sé að gera breytingar á reikningum félagsins.

Til samanburðar má geta þess að samkvæmt stofnefnahagsreikningi Pósts og síma hf. var eigið fé fyrirtækisins 11.300 m.kr. Auk þess kemur fram í áliti samkeppnisráðs nr. 6/1999 að fastafjármunir fyrirtækisins hafi verið vanmetnir og að viðskiptavild hafi ekki verið metin og feli það í sér vanmat á stofnefnahagsreikningi fyrirtækisins um a.m.k. 10.000 m.kr. eða sem jafngildir hreinni eign að fjárhæð a.m.k. 21.300 m.kr.
Það er álit starfshópsins að allar breytingar sem gerðar verði skuli færðar í reikningum Landssíma Íslands hf. Ástæða þess er að forsendur þær sem starfshópurinn ákvað til grundvallar útreikningum á verðmatinu miðuðust við að jákvæð afkoma væri af póstrekstrinum sem leiðir til þess að óverulegur munur er á milli mats starfshópsins og þess mats sem lagt var á Íslandspóst hf. við stofnun hans í ársbyrjun 1998. Matsbreytingin telst því öll tilheyra símarekstrinum

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta