Hoppa yfir valmynd
23.02.2001 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Úrlausn fjarskipta- og póstmála

Samgönguráðherra kynnti minnisblað á ríkisstjórnarfundi í morgun um leiðbeinandi reglur Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar um meðferð og úrlausn fjarskipta- og póstmála. Markmið slíkra reglna er vinna gegn hugsanlegri óvissu fyrirtækja um valdmörk og lögsögu þessara stjórnvalda.

Samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 110/1999 eiga Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun að setja sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem geta fallið bæði innan marka laga um póst- og fjarskiptamál og samkeppnislaga. Reglurnar sem nú hafa verið settar eru unnar í samvinnu hlutaðeigandi stofnana, samgönguráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Mikil þörf hefur verið á setningu slíkra reglna til að auðvelda fyrirtækjum á þessu sviði að leita réttar síns. Þá er í skýrslu einkavæðinganefndar um sölu Landssíma Íslands hf. lögð áhersla á að hugað verði að breytingum á lögum og reglum varðandi Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun svo að þær stofnanir geti sinnt sem best því virka eftirlitshlutverki sem þeim er ætlað.

Í reglunum er áréttað að eftirfarandi mál skulu að jafnaði meðhöndluð af Póst- og fjarskiptastofnun:
a. Mál varðandi lög um fjarskipti eða lög um póstþjónustu og reglugerðir settar með stoð í þeim lögum
b. Mál varðandi reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun er heimilað að setja.
c. Mál viðvíkjandi leyfisveitingum Póst- og fjarskiptastofnunar og túlkun leyfisbréfa.
d. Mál varðandi gjaldskrár sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið að samþykkja.
e. Mál varðandi skilmála um þjónustu
f. Tæknileg ágreiningsmál
g. Kvartanir vegna ágalla á þjónustu.

Eftirfarandi mál sem tengjast fjarskipta- eða póststarfsemi skulu að jafnaði meðhöndluð af samkeppnisyfirvöldum:
a. Mál sem varða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, t.d. samtvinnun í viðskiptum, mismunun í verði og skilmálum, skaðleg undirverðlagning og neitun á viðskiptum.
b. Mál vegna yfirtöku/samruna á póst- eða fjarskiptafyrirtækjum.
c. Ólögmætt samráð fyrirtækja og aðrar samkeppnishindranir á póst og fjarskiptamarkaði.
d. Óréttmætir viðskiptahættir.
e. Gjaldskrármál. (Önnur en þau sem falla undir d-lið upptalningarinnar hér að ofan)
f. Auglýsinga- og kynningarstarfsemi.
g. Önnur mál sem byggja á ákvæðum samkeppnislaga eða reglum settum með stoð í þeim lögum.

Reglur þessar eru til leiðbeiningar og skulu stofnanirnar og aðilar á póst- og fjarskiptamarkaði taka mið af þeim frá birtingu þeirra í stjórnartíðindum.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta