Hoppa yfir valmynd
12.06.2001 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Lagning sæstrengs milli Íslands, Færeyja og Skotlands

Á ríkisstjórnarfundi í morgun gerði samgönguráðherra grein fyrir stöðu mála varðandi fyrirhugaða lagningu nýs sæstrengs frá landinu.

Í minnisblaði ráðherra til ríkisstjórnar segir að á síðastliðnu ári var unnin á vegum samgönguráðuneytis, verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og RUT nefndarinnar skýrslan Stafrænt Ísland. Þar var gerð úttekt á flutningsgetu fjarskiptakerfisins og greind bandbreiddarþörf fyrir stafræna flutninga á næstu árum, innanlands sem til útlanda. Samkvæmt skýrslunni veldur það nokkrum áhyggjum að Ísland hefur aðeins eina tengingu við umheiminn, Cantat 3 sæstrenginn. Aðeins ein varaleið er fyrir hendi, um gervihnött, sem getur tekið nokkurn tíma að koma á og er auk þes með mun meiri tafir en samband um sæstreng. Niðurstaðan er sú að hyggja beri nú þegar að öðrum kostum ekki síst ef litið er til þess mikla óöryggis sem felst í því að hafa aðeins eina fasta tengingu til Íslands.

Að undanförnu hafa Íslendingar og Færeyingar átt viðræður vegna samstarfs um að leggja streng milli Íslands, Færeyja og Skotlands. Botnrannsóknum er lokið og hafa ýmsir fjárfestingarkostir verið ræddir. Það er mat Landssímans og Föroyja Tele að verkefnafjármögnun sé besti kosturinn til að fjármagna verkefnið. Leitað var tilboða í verkefnafjármögnun og varð Íslandsbanki fyrir valinu. Áætlaður kostnaður er 6,5 til 7 milljarðar og er við það miðað að fá sem flesta þátttakendur á íslenskum fjarskiptamarkaði að verkefninu. Miðað er við að strengurinn verði tengdur í árslok 2003.
Hér á eftir fer minnisblað um fjárfestingu í nýjum sæsímastreng milli Íslands, Færeyja og Skotlands.

UM FJÁRFESTINGU Í NÝJUM SÆSÍMASTRENG MILLI ÍSLANDS, FÆREYJA OG SKOTLANDS.

1. Þróun fjarskipta við útlönd.

Fjarskiptatengsl við útlönd verða sífellt umfangsmeiri og mikilvægari fyrir starfsemi fyrirtækja og stofnanna. Tilkoma Internetsins og mjög vaxandi þýðing þess hefur valdið mjög aukinni bandvíddarþörf til útlanda. Síðustu árin hefur látið nærri að bandvíddin fyrir Internet hafi tvöfaldast á hverjum 9 mánuðum á síðustu misserum. Vegna þess hversu stór hluti Internetið er orðið af heildarflutningsgetunni má nærri láta að aukning heildarafkastagetu nýttra sambanda til útlanda nálgist nú 100% á ári.

Frá haustinu 1994 hefur megin farvegur fjarskiptaumferðar milli Íslands og umheimsins verið um Cantat 3 sæstrenginn. Um þessar mundir mun láta nærri að 350 mb. séu í notkun vegna umferðar austur og vestur um haf. Heildarflutningsgeta hans er 2500 Mb/s til hvorrar áttar, eða samanlagt 5000 Mb/s og má ætla að íslensk fyrirtæki eigi nú yfir að ráða 9 ?10% af .þessari flutningsgetu.

Þótt nýting Íslendinga aukist þannig hratt eru nokkur ár í að flutningsgeta strengsins verði fullnýtt, verði hún öll nýtt í þágu Íslands og Færeyja. Það eru raunar einu aðilarnir sem ekki hafa val um fleiri strengi og í því liggur bæði sérstaða og vandi, sem felst í skorti á varaleiðum. Síðustu árin hefur flutningsgeta í fjarskiptakerfum aukist gríðarlega og þá ekki síst yfir Atlantshafið, þar sem ný og afar öflug strengjakerfi bjóða mun lægri kostnað en Cantat 3. Þannig eiga nú önnur fjarskiptafyrirtæki val um varaleiðir eftir öðrum sæstrengjum og eftirspurn eftir varaleiðum um gervihnetti hefur nánast hrunið á þessu svæði. Af þeim sökum hafa gervihnattasamtökin Intelsat boðað að frá og með 1. janúar 2003 bjóðist ekki lengur að kaupa varasambönd um gervihnött þar sem margir aðilar deila með sér kostnaði, þar sem áhættan sé ekki sameiginleg. Því verði fjarskiptafyrirtæki á Íslandi og í Færeyjum frá þeim tíma að kaupa fullt samband og gildi þá einu hvort það sé nýtt stöðugt eða einungis í þeim tilvikum að
strengurinn er úti. Við þetta mun kostnaður vegna varasambanda margfaldast frá því sem verið hefur.

2. Samstarf Landssímans og Föroya Tele.

Landssími Íslands og Föroya Tele hafa síðustu tvö ár kannað hvernig best mætti mæta þessum nýju aðstæðum. Töldu fyrirtækin einsýnt að innan fárra ára yrði að leggja nýjan sæstreng milli landanna og áfram til Skotlands til að mæta þörf fyrir aukna bandbreidd en ekki síður til að tryggja öryggi í fjarskiptum þar sem annar strengurinn væri þá jafnan til vara fyrir hinn. Félögin sömdu um það í upphafi árs 2000 að kosta sameiginlega frumhönnun á leiðinni og rannsóknir á leiðinni milli Íslands og Færeyja. Niðurstaðan var sú að farið verður frá Seyðisfirði svipaða leið og ritsíminn var lagður 1906 til Færeyja. Er sá hluti tilbúinn til lagningar og með honum fæst aukið öryggi því slitin á Cantat 3 hafa oftast verið á leiðinni milli Íslands og Færeyja.

Fyrirtækin könnuðu jafnframt hvernig best væri að tryggja tengingu inn á fjarskiptanet meginlandsins og inn hin nýju og öflugu strengjakerfi frá Bretlandseyjum og til USA. Voru bæði teknar upp viðræður við aðila í Skotlandi sem hafa áhuga á verkefninu sem og yfirvöld á Hjaltlandseyjum sem sýna því mikinn áhuga að fá strenginn þar í land og þaðan til Skotlands. Einnig var efnt til viðræðna við olíufélög sem hyggja á starfsemi á hafsvæðinu milli Færeyja og Skotlands. Þessar viðræður standa enn yfir og miða eðlilega að því að fá þátttöku í verkefnið sem tryggi lægri flutningskostnað en ella. Nokkrar rannsóknir eru þegar hafnar á þessari leið og er það gert á kostnað eins af olíufélögunum sem koma að málinu. Töluvert vantar þó enn upp á að svo ljóst verði hvar strengurinn verður lagður á þessum hluta leiðarinnar og eins nánar um það hverjir verða þátttakendur og með hvaða skilmálum. Eru viðræður í gangi um þennan þátt og verða áfram fram á haustið.

3. Verkefnafjármögnun

Eftir því sem undirbúningi verksins hefur undið fram hefur komið betur í ljós að líkindum væri nærfellt ógerlegt að fjármagna þessa framkvæmd sem hluta af almennum rekstri Símans og Föroya Tele. Til þess sé kostnaðurinn of mikill, en hann er nú áætlaður milli 6,5 og 7 milljarðar króna. Þátttaka olíufélaga og yfirvalda á Hjaltlandseyjum kann að lækka þennan kostnað um a.m.k. 500 milljónir og allt að einum milljarði. Síminn hefur ábyrgjast sameiginlegan kostnað fyrirtækjanna að 85 hundraðshlutum og er þar fylgt stærðarhlutföllum fyrirtækjanna. Samtals hefur Síminn lagt út tæpar 100 milljónir til þessa verkefnis en augljóst er að félagið hefur engar forsendur til að skuldsetja sig í þeim mæli sem þyrfti til að leggja strenginn á þessum forsendum. Hörð samkeppni um millilandasambönd gerir viðfangsefnið enn flóknara, því ætla má að sameigendur Símans að Cantat 3 strengnum muni lækka verð á bandbreidd um hann þegar fyrir liggur að nýr strengur er að koma til sögunnar. Því gæti samkeppni við þá orðið býsna erfi
ð a.m.k. fyrst eftir að nýji strengurinn kemur til sögunnar.

Af þessum sökum hefur verið horft til þess að verkefnafjármagna strenginn Farice og hefur Íslandsbanki verið valinn til verksins að undangenginni verðkönnun og mati á hæfni til verksins. Er nú við það miðað að fá sem flesta mögulega þátttakendur á íslenskum fjarskiptamarkaði til að koma að verkefninu og tryggja þannig að félag um rekstur strengsins fái nægjanlegan hluta af umferð til að tryggja rekstrargrundvöll. . Hér á landi hafa Lína.net og Fjarski lýst sig reiðubúna til að koma að verefninu og taka þátt í kostnaði við undirbúning þess. Í Færeyjum verður staðið að verki með hliðstæðum hætti. Þá verður væntanlega jafnhliða leitað annarra fjárfesta.

Til þess að þetta gangi með ásættanlegum hætti þarf því að koma öllu verkefninu saman og tryggja fjárhagslega stöðu verkefnisins. Þegar liggja fyrir tilboð í streng og lagningu en margir aðrir þættir eru sem fyrr segir enn óljósir.

4. Farice lagður sumarið 2003.
Þegar liggur fyrir að verkefnið er of skammt á veg komið til þess að unnt verði að leggja strenginn á næsta ári eins og að var stefnt. Það er niðurstaða Símans og Föroya Tele að vinna áfram að málinu með Íslandsbanka, skilgreina verkið, fá að samstarfsfélög, skipa verkefnisstjórn og ljúka öllum samningum með það að markmiði að endanlegar ákvarðanir megi taka í lok þessa árs. Enn liggur ekki fyrir hvort verkefnið nær þeirri arðsemi að það fáist ásættanleg fjármögnun og er þess vænst að endanlegar áætlanir um það liggi fyrir síðla hausts þannig að gera megi hlutaðeigandi stjórnvöldum grein fyrir því hver staða málsins er og hvort unnt verði að halda því áfram á hreinum viðskiptalegum forsendum. Takist þá að tryggja framgang verkefnisins er við það miðað að öllum samningum verði lokið á fyrri hluta árs 2002, framleiðsla strengsins geti þá hafist síðsumars og lagning í maí 2003. Miðað verði við að strengurinn verði tengdur í árslok 2003. Þessu verklagi fylgja erfiðleikar við að tryggja varasambönd á árinu 2003. Þetta birtist í auknum kostnaði en telja verður að sá kostnaðrauki sé þó réttlætanlegur miðað við þá fjárhagslegu óvissu sem leiða myndu af því að flýta lagningu strengsins eins og mál standa um þessar mundir.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta