Hoppa yfir valmynd
22.10.2004 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aðalþing Alþjóðapóstsambandsins

Á þinginu var meginstefna Alþjóðpóstsambandsins næstu 5 árin mörkuð.

Aðalþing Alþjóðapóstsambandsins (Universal Postal Union) var haldið í Búkarest í Rúmeníu dagana 15. september til 5. október sl. Aðalþing hafa verið haldin á fimm ára fresti og er hlutverk þeirra að marka meginstefnu sambandsins fram yfir næsta aðalþing, ásamt því að kjósa æðstu yfirmenn sambandsins. Fulltrúar frá samgönguráðuneyti, Íslandspósti hf. og Póst- og fjarskiptastofnun sóttu þingið.

Hlutverk UPU

Alþjóðapóstsambandið var stofnað árið 1874 í Bern í Sviss þar sem höfuðstöðvar þess eru enn þann dag í dag. Tilgangurinn með stofnuninni var að móta alþjóðlegar reglur í póstmálum en áður var einungis um að ræða tvíhliða samninga milli þjóða.

Í júlí árið 1948 voru síðan bæði Alþjóðapóstsambandið (UPU) og Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) gerð að undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna en meginmarkmið beggja þessara samtaka er að tryggja öllum jarðarbúum aðgang að ákveðinni grunnþjónustu pósts og síma. Litið er á þessa grunnþjónustu sem grundvallarmannréttindi og er hlutverk UPU að móta og semja vinnureglur sem aðildarríkin treysta sér til að skuldbinda sig til að starfa samkvæmt og virða.

Helstu niðurstöður og ákvarðanir þingsins í Búkarest:

Forseti Rúmeníu, Ion Iliescu, setti þingið 15. september að viðstöddum 2000 fulltrúum frá u.þ.b. 170 ríkjum en í ræðu sinni lagði hann áherslu á samruna og samþættingu póstþjónustu og rafrænnar þjónustu í viðskiptum og bankaþjónustu.

Fyrir þinginu í Búkarest lágu um 850 tillögur sem íslenska sendinefndin hafði kynnt sér að mestu leyti síðustu mánuðina fyrir þingið. Tillögunum má skipta gróflega í tvo efnisflokka og fjallar annar þeirra aðallega um stjórnsýsluleg atriði og mál sem varða rekstur og innri stjórn Alþjóðapóstsambandsins. Hinn aðalmálaflokkurinn fjallar fyrst og fremst um tæknilega útfærslu á þeirri starfsemi sem er í höndum póstrekstraraðila. Breytingarnar sem samþykkar voru á aðalþinginu taka gildi 1. janúar 2006.

Kosningar til æðstu embætta UPU

Sú regla gildir að framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri geta einungis setið tvö tímabil sem miðast við aðalþing, og gátu þeir sem gegna stöðunum núna, Bandaríkjamaðurinn Thomas E. Leavey og Moussibahou Mazou frá Kongó, því ekki gefið kost á sér til endurkjörs. Tveir gáfu kost á sér til stöðu framkvæmdastjóra, þeir Eduard Dayan frá Frakklandi og Carlos Silva frá Portúgal. Eduard Dayan var kosinn með yfirburðum.

Eduard Dayan er yfirmaður Alþjóðadeildar hjá franska póstinum og hefur komið að málefnum eins og útfærslu og fjármögnun á bættum gæðum í póstþjónustu. Hann er einnig formaður evrópskrar umræðunefndar um félagsmál (European Social Dialogue Committee) sem fulltrúi póstmála.

Einungis einn frambjóðandi gaf kost á sér sem aðstoðarframkvæmdastjóri UPU en það er Kínverjinn Huang Guozhong. Hann hefur gegnt stöðu formanns stjórnsýsluráðs UPU (Council of Administration) en hlutverk ráðsins er margþætt og fer það í raun með æðsta vald sambandsins. Því er m.a. ætlað að fylgjast með því að ákvarðanir aðalþingsins séu virtar af framkvæmdastjórninni, samþykkja ársreikninga, ráðstafa fjármagni úr sérsjóðum, ásamt því að verkstýra og koma á framfæri hvers konar tæknilegri ráðgjöf í póstmálum hjá aðildarríkjunum.

Kosning til stjórnsýslu-og póstrekstrarráðs

Kosið var í stjórnsýsluráð en fulltrúar þar eru fjörutíu og einn að tölu. Þingið velur fjörutíu þeirra en formennska fellur í hlut þess ríkis sem næst heldur aðalþing. Þegar kosið er í stjórnsýsluráðið er heiminum skipt í fimm svæði og hlutu eftirtaldar Vestur-Evrópuþjóðir kosningu: Belgía, Bretland, Portúgal, Spánn, Þýskaland og Ítalía, en Noregur ogTyrkland komu ekki sínum fulltrúum að. Norðurlandaþjóðirnar hafa gert um það óformlegt samkomulag að ein þeirra bjóði sig fram hverju sinni.

Kosið var í ráð póstrekstraraðila (Post Operations Council) á aðalþinginu og gilda sömu reglur um fjölda fulltrúa við þær kosningar eins og hinar fyrri. Hlutverk þessa ráðs er að gera athuganir og útfærslur á öllum tæknilegum þáttum sem snúa að póstrekstri í samvinnu við starfsfólk UPU, stjórnsýsluráð og aðra sem að þessum málum koma. Óformlegur samningur er einnig hér milli Norðurlandaþjóðanna um að ein þjóðanna bjóði sig fram í ráðið en það kom í hlut Svía þessu sinni og hlutu þeir kosningu.

Ný ráðgjafarnefnd UPU og einkaaðila

Þingið samþykkti að koma á ráðgjafarnefnd (Consultative Committee) þar sem allir hagsmunaðilar í póstþjónustu og UPU eiga sæti. Í fyrsta skipti í 130 ára sögu UPU eiga aðrir aðilar fra stjórnsýslu landanna kost á því að móta framtíðarþróun UPU. Ráðgjafarnefndin kemur til með að samanstanda af aðilum frá alþjóðlegum samtökum sem koma að póstmálum og verður fyrsta verkefni hennar að móta rammaáætlun um hvernig samvinnu milli aðilanna verði háttað. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar neytendasamtaka, fyrirtækja í heimsendingarþjónustu, verkalýðsfélaga, aðila sem veita póstrekendum þjónustu og annarra samtaka sem hafa hagsmuna að gæta í alþjóðlegri póstþjónustu, þ.m.t. póstfyrirtækja í einkaeigu og þeirra sem stunda beina markaðssetningu. Undirbúningur fyrir stofnun þessarar nefndar hófst á aðalþinginu í Kína árið 1999. Nýja ráðgjafarnefndin kemur til með að starfa samhliða stjórnsýsluráði og ráði póstrekstraraðila, fundir verða haldnir í aðalstöðvum UPU í Bern í Sviss.

Stefnumörkun til næstu fjögurra ára

Framkvæmdastjórn UPU kynnti stefnumörkun sambandsins fram að næsta aðalþingi en stefnumörkunin er hugsuð sem vegvísir fyrir ríkisstjórnir, reglugerðaraðila og rekstraraðila á sviði póstmála. Í þessari stefnumörkun er tekið tillit til þess að margar þjóðir eru farnar að einkavæða póststarfsemi sína og afnema einkarétt. Stofnun ráðgjafarnefndarinnar er liður í þeirri þróun. Stefnumörkuninni er skipt í fimm áherslusvið:

  • Tryggja skal að öll ákvæði í sáttmála UPU um gæði, aðgengi að alþjónustu og óhindruð samskipti milli fólks í heiminum verði haldin.
  • Auka skal gæði og skilvirkni í alþjóðlega póstdreifikerfinu til að tryggja notendum örugga og áreiðanlega þjónustu á sanngjörnu verði.
  • Auka skal almenna þekkingu á póstdreifingu í heiminum og veita viðskiptavinum þjónustu sem uppfyllir þarfir þeirra og væntingar.
  • Endurskipuleggja skal póstmál á heimsvísu til að tryggja áframhaldandi þróun á póstþjónustu þannig að tekið verði tillit til fyrirsjáanlegra breytinga í tækni, á félagsfræðilegum aðstæðum og í reglugerðarumhverfi.
  • Styrkja skal og auka gagnkvæma samvinnu allra hagsmunaaðila á sviði póstmála.

Finna má stefnumörkunina í heild sinni á ensku með því að smella á eftirfarandi skjal: "The Bucharest World Postal Strategy – Congress-doc.46"Spá um aukningu í bögglaflutningum í heiminum næstu fimm árin

Í ávarpi Thomas E. Leavey framkvæmdastjóra UPU kom m.a. fram að enda þótt venjulegum bréfa- og bögglasendingum hefði fækkað á heimsvísu á árunum 2002 til 2003 þá ríkti bjartsýni meðal póstrekstraraðila um að sú þróun myndi snúast við. Fram kom að rafræn viðskipti komi væntanlega til með að hafa áfram áhrif hvað varðar fækkun bréfasendinga en rafrænu viðskiptin komi hins vegar til með að valda talsverðri aukningu í bögglasendingum. Fram kom að mörg fyrirtæki eru þegar farin að undirbúa nýtt umhverfi til að koma til móts við nýjar þarfir.

Póstútibú á erlendri grund

Ein af þeim tillögum sem þingið tók afstöðu til var hvaða reglur skuli gilda þegar póstrekstraraðilar opna útibú á erlendri grundu (Extaterritorial Offices of Exchange ETOEs). ETOE-útibú er skilgreint sem útibú sem rekið er utan þess landssvæðis sem rekstraraðilinn tilheyrir og það er starfrækt til að færa viðskipti yfir landamæri.

Þingið tók ákvörðun um að póstur frá slíku ETOE-útibúi falli ekki undir alþjónustukvaðir eins og þær eru skilgreindar hjá UPU og að fara skuli með póst sem sendur er frá slíku útibúi sem sendingu sem falli ekki undir ákvæði UPU nema í því tilviki að móttökulandið samþykki að það falli undir ákvæði UPU.

Að auki var ákveðið að óski utanaðkomandi ríki eða póstrekstraraðili eftir því að opna útibú í öðru landi sem á aðild að UPU þarf að fá samþykki fyrir starfseminni í samræmi við löggjöf viðkomandi lands.

Nýtt uppgjörskerfi

Þingið innleiddi nýtt uppgjörskerfi til að reikna út hvernig uppgjör milli póstrekenda fari fram, svokallað endastöðvargjald. Nýja kerfið miðar að því að meira tillit sé tekið til aðstæðna í hverju landi fyrir sig og að tillit sé tekið til raunkostnaðar. Endastöðvargjaldið tengist sérstökum sjóði sem úthlutað er úr til að auka gæði póstþjónustu (Quality of Service Fund) í þróunarríkjunum. Með nýja kerfinu fá þau ríki heims sem skemmst eru á veg komin möguleika á hærri styrkjum en áður.

Beiðni frá samtökum karabíska Póstsambandsins

Framkvæmdastjóri karabíska Póstsambandsins bar fram beiðni um aðstoð til allra viðkomandi þjóða vegna mikils óveðurs sem geisað hefur í Rómönsku Ameríku og Karabíska hafinu á undanförnum vikum. Óveðrið hefur m.a. valdið skaða á Grenada, Haítí og á Caymaneyjum. Óveðrið hefur enn mikil áhrif á samgöngur til landanna og á síma- og póstþjónustu, t.d. eyðilagðist aðalpósthúsið á Grenada algjörlega.

Yfirlýsing um réttindi neytenda

Þingið samþykkti yfirlýsingu um réttindi neytenda og má sjá yfirlýsinguna hér.

Þátttaka UPU í heimsþingi um upplýsingasamfélagið í samvinnu við ITU

Þingið staðfesti þátttöku UPU í heimsþingi um upplýsingasamfélagið (World Summit on the Information Society) sem haldið er af þróunardeild ITU en þing þessi stuðla að því að þróunarríkin öðlist fyrr möguleika á því að nýta sér möguleika upplýsingasamfélagsins.

Almennt

Auk aðalþingsins voru einnig haldnir sameiginlegir fundir evrópskra póstrekenda (PostEurope) og evrópskrar stjórnsýslu (CERP) sem koma að póstmálum. Á þessum fundum var fjallað um sameiginlega hagsmuni, afnám einkaréttar, einkavæðingu á sviði póstmála og tillögur sem lönd innan CERP lögðu fyrir þingið, málefni Evrópusambandsins o.s.frv.

Fulltrúi Alþjóðabankans flutti fyrirlestur um þróun, endurskipulagningu og breytingar á póstmarkaði. Skýrslu sem lögð var fram af því tilefni má finna hér: "The Postal Sector in Developing Countries".

Næsta UPU-þing verður haldið að fjórum árum liðnum í Nairobi í Kenýa.

Nánari upplýsingar á sérstakri vefslóð aðalþingsins: http://www.upucongress.ro og einnig á heimasíðu UPU http://www.upu.int/



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta