Hoppa yfir valmynd
19.12.2006 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stefnt að lagningu nýs sæstrengs eigi síðar en haustið 2008

Starfshópur um öruggt varasamband fjarskipta við umheiminn hefur skilað áliti og leggur til að ríkið og aðrir hluthafar í Faice hf. hefji viðræður um fjármögnun og rekstrarfyrirkomulag á nýjum sæstreng sem tengir Ísland við Evrópu. Einnig er lagt til að kannaður verði áhugi annarra íslenskra aðila og stefnt skuli að því að ljúka lagningu nýs sæstrengs haustið 2008. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti niðurstöðu hópsins í ríkisstjórn í morgun.

Ísland hefur til skamms tíma verið tengt umheiminum með ljósleiðarastrengnum Cantat-3 sem tekinn var í notkun árið 1994 og með varasambandi gegnum gervihnött sem í dag annar vart meira en talsímaumferð. Fyrir frumkvæði samgönguráðherra var síðan nýi Farice-1 ljósleiðarastrengurinn lagður og tekinn í notkun í janúar 2004.

Ljóst var að huga yrði að enn frekari tengingu landsins við útlönd og því skipaði samgönguráðherra starfshóp í júní síðastliðnum til að leggja á ráðin um öruggt varasamband við útlönd. Var honum falið að leggja fram tillögu um hvernig tryggja megi varasamband fjarskipta við umheiminn í framtíðinni og eftir atvikum skila útfærðum tillögum um fjármögnun, eignarhald og framkvæmdatíma.

Öruggt varasamband forsenda fyrir markaðssetningu

Í niðurstöðum starfshópsins segir meðal annars að örugg fjarskipti við umheiminn séu lykilatriði fyrir samskipti og viðskipti við önnur lönd og að röskun á millilandasambandi geti haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. Einnig segir að mikil tækifæri felist í öruggu varasambandi þar sem ein meginforsendan fyrir því að unnt sé að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegt land fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi sé fullkomið varasamband milli Íslands og annarra landa. ,,Þá felast tækifærin ekki bara í alþjóðlegri fjármálastarfsemi heldur einnig í t.d. rekstri netvera og gagnaþjónustumiðstöðva.”

Starfshópurinn skoðaði einkum þrjá mismunandi kosti við lagningu nýrra sæstrengja: Í fyrsta lagi sæstreng milli Íslands og Skotlands með grein til Færeyja. Í öðru lagi streng milli Íslands og Írlands með grein til Færeyja og í þriðja lagi streng milli Íslands og Írlands án greiningar til Færeyja. Áætlaður kostnaður við þessar leiðir er talinn vera á bilinu 31 til 44 milljónir evra, sem svarar til 2,8 til 3,9 milljarða króna. Dýrasta leiðin er strengur milli Íslands og Írlands með greiningu til Færeyja þar sem leggurinn til Færeyja er mun lengri þannig en ef strengurinn liggur milli Íslands og Skotlands. Hópurinn telur þó ákveðna kosti við það leggja strenginn milli Íslands og Írlands þar sem hann myndi ekki liggja á sama svæði og Farice-1. Er það talið auka öryggi og auk hringtengingar um Farice-1 og nýjan streng við London eru miklir möguleikar á samböndum milli Írlands og Bandaríkjanna.

Hópinn skipuðu Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri sem var formaður hans, Jón Birgir Jónsson, stjórnarformaður Farice hf., Páll A. Jónsson, fyrir hönd Símans, Pétur Reimarsson, fyrir Samtök atvinnulífsins, Örn Orrason, frá Og Vodafone, og Guðjón Rúnarsson, frá Sambandi banka og verðbréfafyrirtækja. Með hópnum störfuðu Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Farice hf., og Jón Eðvald Malmquist, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu.



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta