Hoppa yfir valmynd
26.02.2008 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samið um alþjóðlegt gagnaver á Keflavíkurflugvelli

Verne Holdings ehf. skrifaði í dag undir samninga við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar vegna starfsemi fyrir alþjóðlegt gagnaver við Keflavíkurflugvöll. Samgönguráðherra, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra voru viðstaddir undirritunina ásamt fulltrúum fyrirtækjanna.

Skrifað undir samninga um alþjóðlegt gagnaver.
Skrifað undir samninga um alþjóðlegt gagnaver.

Samningar Verne eru þrír, við Landsvirkjun vegna raforku, við Farice vegna gagnaflutninga og við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um hús og lóð fyrir starfsemina. Gagnaverið mun rísa á árinu og taka til starfa á fyrstu mánuðum næsta árs. Gert er ráð fyrir starfsemin skapi kringum 100 störf á næstu fjórum árum.

Samningur Verne við Farice gerir ráð fyrir leigu á flutningsrými í sæstrengnum Farice-1 og hinum nýja Danice. Forsendan fyrir samningnum er tilkoma hins nýja strengs sem lagður verður á þessu ári og kominn verður í gagnið snemma á næsta ári. Verkefnið hefur um skeið verið í undirbúningi með aðild samgönguráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Með samningnum mun Verne hafa aðgang að alls 160 gígabitum á sekúndu eða 80 á hvorum streng. Til samanburðar má geta þess að allir landsmenn nota um þessar mundir tæplega fjóra gígabita á sekúndu.

Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð um 20 milljarðar króna en gagnaverið mun hýsa tölvubúnað, netþjóna, gagnageymslur fyrir alþjóðlega stórnotendur og starfsemin snúast um að veita aðstöðu, orku og nettengingar. Meðal viðskiptavina gagnavera eru netveitur, fjármálafyrirtæki, smásölufyrirtæki, erfðatæknifyrirtæki, stafræn kvikmyndaver og aðrir aðilar sem þurfa mikla reiknigetu, geymslurými fyrir gögn og öflugar nettengingar.

Verne Holdings ehf. er í eigu Novator, alþjóðlegs fjárfestingafyrirtækis sem Björgólfur Thor Björgólfsson stofnaði, og General Catalyst Partners, sem er fjárfestingarsjóður með aðalstöðvar í Boston í Bandaríkjunum.

Skrifað undir samninga um alþjóðlegt gagnaver.
Fulltrúar Verne Holdings og Farice skrifa undir samning. Vinstra megin er Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Farice, og til hægri Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holdings. Aftan við þá standa Kristján L. Möller samgönguráðherra og Þorvaldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Verne. Til hægri er Björgólfur Thor Björgólfsson, stofnandi Novator.


Skrifað undir samninga um alþjóðlegt gagnaver.
Fulltrúar allra fyrirtækjanna sem eiga aðild að gagnaverinu ásamt ráðherrunum þremur.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta