Tilraun undirbúin með rafrænar kosningar
Unnið er nú að undirbúningi tilraunar með rafrænar sveitastjórnarkosningar árið 2010. Tilraunin yrði bundin við tvö sveitarfélög. Fulltrúar samgönguráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins skipa starfshóp sem undirbýr tilraunina.
Rafrænar sveitastjórnar- eða alþingiskosningar hafa ekki farið fram hérlendis en við könnun á afstöðu íbúa til Reykjavíkurflugvallar og skipulagsmála vegna álversins í Straumsvík var til dæmis unnt að kjósa rafrænt. Rafrænar kosningar hafa farið fram erlendis og hefur starfshópurinn aflað sér upplýsinga um tilhögun og reynslu meðal annars í Eistlandi og Kanada.
Geir Ragnarsson, verkfræðingur í samgönguráðuneytinu og verkefnisstjóri starfshópsins um rafrænar kosningar, segir að líta þurfi í mörg horn við tilraun sem þessa. Undirbúa þurfi lagabreytingar til að heimila rafræna kjörskrá og rafræna kosningu en gera má ráð fyrir að unnt verði að viðhafa bæði hefðbundna aðferð og hina rafrænu í tilrauninni sem stendur fyrir dyrum.
Tilraunin tekur því bæði til formreglna um rafræna kjörskrá sem kæmi í stað bóka og þess að greiða atkvæði rafrænt. Geir segir að mikilvægt sé í því sambandi að útiloka að hægt sé að tengja kjósanda við atkvæði hans. Mikilvægt sé að óháður aðili votti þann búnað sem notaður verður við kosningarnar þannig að tryggt sé að hann uppfylli þær öryggiskröfur sem gera verður til rafrænna kosninga.
Starfshópurinn hóf nýlega störf og er stefnt að því að á vormánuðum verði ljóst hvernig málinu vindur fram. Gera verði ráð fyrir góðum tíma til að kynna hugmyndina nánar og leggja fram tillögur um lagabreytingar en áætlað er að tilraunin fari fram í tveimur sveitarfélögum við næstu sveitarstjórnarkosningar vorið 2010.